Þrátt fyrir stríðsátökin fer íslenskur fiskur til Úkraínu

Á seinni árum hefur Úkraína verið einn sterkasti markaðurinn fyrir íslenskan uppsjávarfisk auk þess sem íslensk bleikja hefur verið seld þangað í vaxandi mæli. Það er fyrirtækið Ice Fresh

Gústaf Baldvinsson á aðaltorginu í Kiev

Seafood sem hefur annast sölu á fiski frá Síldarvinnslunni til Úkraínu en framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood er Gústaf Baldvinsson sem hefur meginstarfsstöð sína í Hull í Englandi. Ice Fresh Seafood var stofnað árið 2007 og hefur Gústaf verið framkvæmdastjóri frá upphafi. Hann leggur mikla áherslu á að vera í góðu sambandi við kaupendur og þekkir því afar vel til í Úkraínu. Heimasíðan ræddi við Gústaf um styrjaldarátökin í Úkraínu og hvaða áhrif þau hefðu á fiskútflutninginn frá Íslandi.

Gústaf segir að áður en útflutningur á íslenskum fiski hófst í verulegum mæli til Úkraínu hafi norskur uppsjávarfiskur haft sterka stöðu á úkraínskum markaði. Þegar viðskiptabannið við Rússland kom til árið 2014 var áhersla á sölu íslenskra afurða til Úkraínu aukin og náðist fljótlega góður árangur. „Okkur hefur tekist að byggja upp afar færsæl tengsl við úkraínsk fyrirtæki. Okkar stærsti kúnni er Ukranian Fish Company (UFC) en eigandi fyrirtækisins og forstjóri er Oleg Luschyk. Oleg hefur reynst afar traustur viðskiptavinur og hefur komið margsinnis til Íslands. Hann þekkir vel til Síldarvinnslunnar og hefur oft heimsótt Neskaupstað. UFC kaupir mikið magn af makríl, síld og loðnu frá Íslandi og hefur rekið tvær verksmiðjur sem vinna fiskinn fyrir úkraínska neytendur. Þá rekur Oleg fiskbúðir í landinu undir heitinu Don Mape og síðan vinsæla veitingastaði sem bjóða upp á fiskrétti. Staðreyndin er sú að fiskbúðir Olegs í Úkraínu eru einhverjar þær glæsilegustu í allri Evrópu og í þeim skipar íslenskur fiskur háan sess.“

 

Oleg Luschyk er framan við eina fiskbúðina í Don Mape-keðjunni

Gústaf upplýsir að verksmiðjur UFC hafi verið afar myndarleg fyrirtæki. „Önnur þeirra var í Kubiansk í austurhluta Úkraínu. Rússar tóku Kubiansk fljótlega eftir að stríðið hófst og þá voru þúsundir tonna af fiski í frystigeymslum verksmiðjunnar. Þar er nú engin framleiðsla. Fólk flúði í ríkum mæli frá svæðinu og þar er nú hvorki vatn né rafmagn. Aðalverksmiðja UFC er hins vegar í Kiev. Hún er ný, var tekin í notkun árið 2017. Verksmiðjan átti 7000 tonn af fiski í frystigeymslu þegar geymslan var sprengd í tætlur. Fyrir utan verksmiðjurnar, fiskbúðirnar og veitingastaðina er UFC með söluskrifstofur víða í landinu, meðal annars í borginni Lviv sem oft hefur verið í fréttum að undanförnu. Annar kúnni, sem við seljum fisk, er með myndarlega verksmiðju í Lviv og sú verksmiðja er í gangi með nánast fullum afköstum. Auðvitað eiga þessi fyrirtæki í miklum vanda og óvissan er mikil en þau hafa meðal annars gefið mikið af matvælum bæði til almennings og úkraínska hersins á þessum síðustu og verstu tímum.“

Þegar Gústaf er spurður að því hvort íslenskur fiskur sé seldur til Úkraínu núna segir hann að svo sé. „Áður fluttum við fiskinn í skipsförmum í ríkum mæli til Odessa, hafnarborgarinnar við Svarta hafið. Eins fór fiskurinn til Úkraínu í talsverðum mæli í gegnum hafnarborgina Klaipeda í Litháen. Núna fer hins vegar allur fiskurinn í gegnum Klaipeda. Staðreyndin er sú að þó að fiskur sé seldur til Úkraínu þá ríkir mikil óvissa varðandi flutninga og öll viðskipti vegna stríðsátakanna.“

 

Þegar Gústaf er spurður að því hvort hann geti verið í nánu sambandi við forsvarsmenn úkraínsku fyrirtækjanna sem kaupa fiskinn segir hann að það hafi ekki verið erfiðleikum bundið. „Oleg Luschyk var staddur í viðskiptaferð í Póllandi þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Hann hefur því ekki verið í heimalandinu en stýrir sínu stóra fyrirtæki frá Eistlandi. Á sjávarútvegssýningunni, sem nýlega var haldin í Barcelona, hittum við fulltrúa tveggja helstu kaupenda okkar í Úkraínu og áttum með þeim fundi. Það voru erfiðir fundir. Fólkið greindi okkur frá ástandinu í heimalandinu og það féllu tár. Þrátt fyrir sorgina skynjar maður samt baráttukraftinn sem býr í fólkinu. Hann er hreint ótrúlegur. Það kom fram á fundunum að áfram er stefnt að því að kaupa fisk frá Íslandi og ég veit að íslensku fyrirtækin munu gera allt til þess að viðskiptin við Úkraínu haldi áfram. Nú er hins vegar óvissa á mörgum sviðum en stríðsátökunum hlýtur einhvern tímann að linna,“ sagði Gústaf Baldvinsson að lokum.

Ukranian Fish Company (UFC) hefur rekið tvær stórar verksmiðjur sem meðal annars vinna íslenskan fisk fyrir neytendamarkað

Viðtal er frá vef Síldarvinnslunnar og myndir einnig.

 

 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search