30.04.2020
Borgarráð samþykki á fundi sínum í dag að ráða Þorstein Gunnarsson í starf borgarritara Reykjavíkurborgar. Þorsteinn var metinn hæfastur allra umsækjenda af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af borgarráði í febrúar 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.
Þorsteinn tekur við starfinu af Stefáni Eiríkssyni sem tók við starfi útvarpsstjóra á dögunum. Þorsteinn var sömuleiðis meðal umsækjenda um starf útvarpsstjóra og einn þeirra sem komst lengst í ráðningarferlinu.
Aðeins um Þorstein Gunnarsson:
Þorsteinn er með MPM gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
Þorsteinn hefur fjölbreytta stjórnunarreynslu á sveitarstjórnarstigi. Hann gegndi starfi upplýsinga- og þróunarfulltrúa Grindavíkur um fjögurra ára skeið þar sem hann hafði umsjón með innra og ytra kynningar- og upplýsingastarfi, markaðsstarfi, áætlanagerð og fleiru. Þá gegndi hann starfi sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs hjá Grindavík í þrjú ár þar sem hann bar ábyrgð á íþrótta-, frístunda- og menningarmálum sveitarfélagsins.
Undanfarin fjögur ár hefur Þorsteinn starfað sem sveitarstjóri Skútustaðahrepps og hlotið umfangsmikla reynslu af öllum verkefnum sveitastjórnarstigsins, m.a. á sviði stjórnsýslu, skipulagsmála og umhverfismála. Áður starfaði Þorsteinn meðal annars sem íþróttafrétta- og dagskrárgerðamaður hjá 365 miðlum í átta ár, framkvæmdastjóri ÍBV og upplýsingafulltrúi Vinnslustöðvarinnar, kennari og blaðamaður. Þorsteinn hefur gegnt ýmsum stjórnarstörfum í íþróttahreyfingunni og er í dag aðalmaður í stjórn KSÍ. Hann hefur einnig verið í stjórn ferðamálasamtaka Reykjaness og í stjórn Reykjaness jarðvangs.
Hvað er borgarritari?
Borgarritari er æðsti embættismaður borgarinnar að undanskildum borgarstjóra og einn af staðgenglum hans. Borgarritari hefur yfirumsjón með miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar og er tengiliður Reykjavíkurborgar við byggðasamlög og B-hluta félög.
Starf borgarritara var auglýst laust til umsóknar þann 15. febrúar síðast liðin og var umsóknarfrestur framlengdur til 16.mars. Átján umsóknir bárust um starfið.
Í hæfnisnefnd voru Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, sem jafnframt var formaður, Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Landspítala og Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands. Ráðgjafarfyrirtækið Intellecta sinnti utanumhaldi og stuðningi við hæfnisnefndina.
Umsækjendur um starf borgarritara voru:
Artis Arturs Freimanis – Vélstjóri
Árdís Rut Hlífardótir – Framkvæmdastjóri
Birna Ágústsdóttir – Skrifstofustjóri
Elín Björg Ragnarsdóttir – Verkefnastjóri
Friðjón Már Guðjónsson – Bókhaldsfulltrúi
Guðbjörg Ómarsdóttir – Gæðastjóri
Gunnsteinn R. Ómarsson – Lánastjóri
Hans Benjamínsson – Aðstoðarmaður framkvæmdastjóra
Jón Þór Sturluson – Dósent
Jónas Skúlason – Skrifstofustjóri
Kristín Þorsteinsdóttir – MBA
Margrét Hallgrímsdóttir – Þjóðminjavörður
Óli Örn Eiríksson – Deildarstjóri
Ólöf Hildur Gísladóttir – Lögfræðingur
Salvör Sigríður Jónsdóttir – Félagsliði
Sólveig Dagmar Þórisdóttir – Framkvæmdastjóri
Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir – Lögfræðingur
Þorsteinn Gunnarsson – Sveitarstjóri