– Tígull 1.tbl 2.árg. 2020
– Eina athvarfið í milljón manna borg –
Gleðilegt ár og þakkir fyrir góðan stuðning á árinu 2019. Flestum lesendum Tígulsins er kunnnugt um ferð okkar hjóna til Kenía í október til desember. Við fórum til að byggja upp neyðarathvarf fyrir konur.
Verkið gekk í alla staði vel og viljum við þakka fyrirbænir, hvatningu og fjárhagslegan stuðing til verksins. Ykkar framlag skipti miklu máli. Við gátum sent peninga á undan okkur svo verkið var byrjað, við gátum svo fylgt því til enda og haldið gleðiteiti við verklok. Núna er húsnæðið gerbreytt og starfsfólkið og konurnar senda bestu þakkir til ykkar allra. Ein kvennanna sagði: ,,Eruð þið að gera þetta fyrir okkur? Þið breytið okkur úr engu í eitthvað!“
Við stefnum að því að styrkja kvennaathvarfið áfram á þessu ári. Teiknaður hefur verið skáli á lóðinni sem kemur til með að vera setustofa og innileiksvæði fyrir börnin. Þetta athvarf er það eina í milljón manna borg. Leið okkar lá um Nairobi, höfuðborgina og kynntum við okkur starf ABC barnahjálpar og kenndum starfsfólki m.a. skyndihjálp og urðu John og Rose, starfsmenn þar, góðir vinir okkar.
Konurnar í saumaskólanum í New Life og í Ronda og Kipanga fátæktarsvæðunum eru í huga okkar. Við dvöldum sex daga í þorpinu Gitare og þar kynntumst við fólki sem vinnur við akuryrkju og menning og siðir eru um margt ólíkt borgarlífi.
Dvölin í Kenía fór vel með okkur, alltaf gott veður, hollur matur og vinalegt fólk. Við hittum marga sem búa við mikla fátækt en einnig kynntumst við fólki í áhrifastöðum. Þegar sumir heyrðu af því sem við vorum að gera þá sögðu þeir að auðvitað ættu þeir að hjálpa sínu fólki en ekki langt að komnir útlendingar.
Kenía er land þar sem ætti ekki að vera mikil fátækt en vegna spillingar ráðamanna og græðgi líða margir. Við hittum aftur athafakonuna Madam Joyce og er hún með áætlun um að hjálpa hinum fátæku og vinna að bættri líðan fólks. Við eigum eftir að fara aftur til Kenía og höfum við fengið mörg boð um að heimsækja einstaklinga og kirkjur. Eftir góða hvíld um jól og áramót stefnum við að því að því að safna meiri fjármunum til að klára aðstöðuna í kvennaathvarfinu að utan. En börnin skríða og ganga í möl og mold.
Reikningurinn er hinn sami, 0185-26-3667, kt. 121155-5919.
Það er ómetanlegt að finna stuðning bæjarbúa og margir í Kenía senda blessunarkveðjur til ykkar í Eyjum.
Steingrímur og Þóranna