26.08.2020
Vestmannaeyjabær hefur ráðið Þórönnu Halldórsdóttur í starf forstöðumanns Heimaeyjar – vinnu- og hæfingarstöð
Þóranna lauk MPM námi í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands árið 2010, BA gráðu í táknmálsfræði/táknmálstúlkun frá sama skóla árið 2007 og B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003. Þóranna starfaði síðast sem ráðgjafi hjá VIRK. Áður vann hún um tíma sem forstöðumaður Kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar og sem AMS fulltrúi hjá Vestmannaeyjabæ. Þar áður vann hún sem táknmálstúlkur og táknmálskennari hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
Þóranna mun hefja störf sem forstöðumaður Heimaeyjar á næstu dögum. Um leið og Vestmannaeyjabær býður Þórönnu velkomna til starfa er Lísu Njálsdóttur, fráfarandi forstöðumanni, þökkuð góð störf og henni óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Umsjón með ráðningunni hafði framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar. Hagvangur veitti ráðgjöf við ráðningaferlið eftir að umsóknir höfðu borist.
Alls sóttu fimm um starfið og voru allir boðaðir í atvinnuviðtal. Ferlið við mat á umsóknum samanstóð m.a. af hæfnismati á umsækjendum byggt á innsendum umsóknargögnum, viðtölum og umsögnum.
Forsíðumynd: Halldór B. Halldórsson