Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja kemur út þrátt fyrir enga Þjóðhátíð

Í aðdraganda Þjóðhátíðar er útgáfa Þjóðhátíðarblaðs Vestmannaeyja fastur liður, en blaðið hefur komið út í rúmlega 80 ár. Þrátt fyrir að Þjóðhátíð hafi verið slegin af í ár vegna samkomutakmarkana í tengslum við Covid-19 kom ekki annað til greina hjá ÍBV-íþróttafélagi en að gefa blaðið út. Ritstjóri blaðsins í ár er Eyjapeyinn Skapti Örn Ólafsson, en þetta er ellefta Þjóðhátíðarblaðið sem hann ritstýrir. „Það er alltaf jafn gaman að fjalla um hátíðina okkar í Herjólfsdal, en þetta er ellefta Þjóðhátíðarblaðið sem ég ritstýri. Fyrsta blaðið kom út árið 2000, þannig að það eru komin tuttugu ár frá fyrsta blaðinu,“ segir Skapti Örn.

Mikið högg að Þjóðhátíð fari ekki fram

Ásamt því að hafa fjallað um Þjóðhátíðina í Þjóðhátíðarblaðinu margsinnis gaf Skapti Örn í fyrra út heimildarmyndina Fólkið í Dalnum ásamt Sighvati Jónssyni, en myndin hverfist einmitt um Þjóðhátíð. „Eftir törnina í kringum útgáfu myndarinnar Fólkið í Dalnum sem við Hvati unnum að í fimm ár og kom út í aðdraganda Þjóðhátíðar í fyrra þá reiknaði ég með því að fá smá frí frá hátíðinni. Ég átti hins vegar ekki von á að Þjóðhátíðin yrði blásin af,“ segir Skapti Örn kankvís. „Það er auðvitað bagalegt að hátíðin falli niður, en hjá því var því miður ekki ekki komist og afstaða ÍBV mjög skynsamleg og ábyrg. Þetta er gríðarlegt högg fyrir ÍBV, enda Þjóðhátíð langstærsta tekjulind félagsins ásamt því að hátíðin hefur mikið gildi fyrir okkur Eyjamenn,“ segir Skapti Örn og bætir við að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar að hjálpa ÍBV við að gefa Þjóðhátíðarblaðið út.

Stútfult blað af áhugaverðu efni

Þjóðhátíðarblaðið er venju sam-kvæmt stútfullt af áhugaverðu efni tengdu Þjóðhátíð. Meðal efnis í blaðinu í ár eru viðtöl við Eyjapeyjana Víði Reynisson og Þórólf Guðnason sem hafa staðið í stafni í baráttunni gegn Covid-19. Þá er Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í viðtali ásamt þeim félögum Guðmundi Þ. B. Ólafssyni og Jónasi Bergsteinssyni sem rifjuðu upp Þjóðhátíðir á Breiðabakka. Eins er rætt við Ingólf Þórarinsson annan höfunda þjóðhátíðarlagsins í ár ásamt því að ritstjórar Eyjamiðlanna eru teknir í létta Þjóðhátíðaryfirheyrslu.

Kápa Þjóðhátíðarblaðsins er sérstök í ár – tómt hvítt hústjald í tómum Herjólfsdal. „Mig langaði til að hafa forsíðuna á blaðinu í ár eftirminnilega og tengjast Þjóðhátíðinni sem ekki fór fram. Mér finnst okkur Gunnari Inga Gíslasyni ljósmyndara hafa tekist nokkuð vel upp,“ segir Skapti Örn.

Sölubörn ganga í hús

Þjóðhátíðarhelgina mun sölubörnum í Eyjum gefast færi á að ganga í hús og selja Þjóðhátíðarblaðið.  Jafnframt verður hægt að nálgast blaðið í verslunum í Vestmannaeyjum.

Nánari upplýsingar um sölu á blaðinu verða birtar í vikunni í Eyjamiðlunum og hvetur Skapti Örn foreldra Eyjapeyja og -pæja að fylgjast vel með. „Við Eyjamenn njótum þeirra forréttinda að eiga ótal sögur og minningar frá Þjóðhátíð, að ég tali nú ekki um öll þjóðhátíðarlögin. Þannig að uppskriftin að Þjóðhátíð árið 2020 er að tjalda hvítu hústjaldi í garðinum, setja þjóðhátíðarlögin á fóninn og kaupa Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja 2020, en með kaupum á blaðinu eru Eyjamenn að styðja við bakið á ÍBV,“ segir Skapti Örn sem vill færa auglýsendum og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við útgáfu blaðsins sínar bestu þakkir.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search