Þriðjudagur 16. apríl 2024

Þetta var nokkuð stórt skref fyrir mig á mínum pólitíska ferli

Miðvikudag 7.apríl tilkynnti ég um framboð mitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer í lok næsta mánaðar

Ákvörðunin um framboð átti sér nokkurn aðdraganda, en það var þó ekki fyrr en eftir hádegi á miðvikudag að ákvörðunin var tekin. Tilkynningunni var skilað inn skömmu síðar þann dag, 10 mínútum áður en lokafrestur til framboðs rann út.

Þetta var nokkuð stórt skref fyrir mig á mínum pólitíska ferli, en ég hef verið í starfi Sjálfstæðisflokksins í Eyjum síðasta einn og hálfan áratuginn. Mér líkar mjög vel við pólitíkina og sérstaklega hið öfluga sjálfboðaliðastarf grasrótarinnar, sem ég tel vera nauðsyn í hverju samfélagi.

Aðkoma mín að pólitíkinni var í upphafi á þann veg að vinur minn bauð sig fram í bæjarstjórnarkosningum og ég mætti til að styðja hann í því. Ég hafði aldrei komið nálægt neinu pólitísku starfi og hafði satt best að segja lítinn áhuga á slíku. Ég heillaðist strax af starfinu hér heima og fyrsti landsfundurinn varð síðan upplifun sem stimplaði mig endanlega inn í starfið. Þá sá ég með eigin augum hvernig hugmyndir, sem við settum niður á blað í málefnavinnu venjulegs fólks í Ásgarði, urðu að tillögum á landsfundi og samþykktar inn í málefnaskrá flokksins. Skömmu síðar sá maður þessar hugmyndir sem stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi viðkomandi málefni. Mér hafði aldrei dottið í hug að venjulegt fólk í málefnavinnu í Ásgarði gæti í alvöru átt þátt í að móta stefnu landsins í mikilvægum málum.

Kynni mín af pólitísku starfi hafa sannfært mig um mikilvægi pólitísks starfs og þá sérstaklega grasrótarstarfsins sem fer fram meðal almennings, sem lætur sig málin varða og stundar þessa sjálfboðavinnu öllum til heilla. Mér verður oft hugsað til þess þegar hnýtt er í flokkakerfið og talað er fyrir einstaklingsframboðum fremur en flokkapólitík. Mig grunar að slíkar hugmyndir séu ekki hugsaðar til enda og að baki þeim sé ekki þekking á því mikilvæga starfi sem fer fram í pólitískum félögum landsins. Það aðhald sem felst í strúktúr flokkanna með öllum sínum venjum og reglum er mikilvægt stjórnmálamönnum og heldur aftur af möguleikum á spillingu og vondum ákvörðunum.

Ég elska að vinna að samfélagsmálum og ber mikla virðingu fyrir fólki sem sinnir slíkum störfum. Gildir þá einu hvar í flokki menn standa, ég tel langflesta, sem gefa sig í þessi störf,
gera það af hugsjón og vilja til að búa samborgurum sínum betra lífsviðurværi. Eðli málsins samkvæmt þá eru ekki allir sammála um hvaða leiðir eru endilega bestar til að slík markmið náist og myndast því nokkrir hópar fólks sem sameinast um sínar skoðnir og vinna í því að afla
þeim skoðunum fylgis.

Ég hef fundið mig í grunngildum Sjálfstæðisflokksins og tel þær hugmyndir sem lúta að frelsi einstaklingsins, lágmörkun ríkisafskipta, eflingu einkaframtaksins, eflingu atvinnuveganna og hóflegrar skattheimtu séu hugmyndir sem séu til þess fallnar að skapa hér hagsæld og góð lífsskilyrði. Það hefur enda sýnt sig að okkur hefur farnast vel undir stjórn með þeim formerkjum.

Ég er himinánægður með að hafa stigið það skref að bjóða mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nú í næsta mánuði. Ég óska eftir stuðningi í 4. sæti og vonast til þess að sem flestir merki við nafn mitt þar.

Ég hlakka til prófkjörsins og það yrði mér sérstakt ánægjuefni að fá að sinna þingstörfum fyrir kjördæmið og mína heimabyggð.

Jarl Sigurgeirsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search