Þarf Vestmannaeyjabær meira húsnæði?

27.05.2020

Á fundi bæjarráðs á mánudag var lagt fram kauptilboð af hálfu Vestmannaeyjabæjar í húsnæði Íslandsbanka á Kirkjuvegi þar sem fyrirhugað er að fjölskyldu- og fræðslusvið Vestmannaeyjabæjar hafi aðsetur sem nú er á Rauðagerði. 

Peningum kastað út um gluggann

Búið er að verja 5 milljónum í hönnun á þriðju hæð Fiskiðjunnar fyrir bæjarskrifstofur Vestmannaeyjabæjar, en núverandi meirihluti féll frá þeim áformum. Framkvæmdir fyrir um 6 milljónir standa yfir í húsnæði Rauðagerðis þar sem verið er að bæta aðstöðu sem virðist eingöngu nýtast næstu 1-2 ár flytji sviðið yfir í Íslandsbanka og var sú ákvörðun gagnrýnd af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar sem framtíðarskipulag húsnæðismála bæjarskrifstofa skorti. Bara við þessar ákvarðanir fara 11 milljónir forgörðum sem getur seint talist skynsöm nýting á opinberu fjármagni.

Breyta bara til að breyta?

Það er engu líkara en að vilji meirihluta H- og E- lista einskorðist við viljann að breyta af leið frá því sem áður var ákveðið af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem hafði látið hanna bæjarskrifstofur á þriðju hæð Fiskiðjunnar til að sameina alla starfsemi undir eitt þak, skrifstofur bæjarstjóra, umhverfis- og framkvæmdasvið, fjár- og stjórnsýslu og fjölskyldu- og fræðslusvið og ná þannig fram rekstrarhagræðingu og stytta boðleiðir milli starfsmanna. 

Fjöldinn allur af fasteignum

Vestmannaeyjabær á og rekur fjölda fasteigna sem eru eins og flestar fasteignir, dýrar í rekstri og viðhaldi. Þar á meðal eru stór húsnæði sem fljótlega munu missa sitt hlutverk í ljósi framtíðaráforma sveitarfélagsins. Þar má nefna Heiðarveg 12 en starfsemi slökkviliðsins mun flytjast í nýja slökkvistöð eins fljótt og verða má, Listaskólinn, Vesturvegi, en Tónlistarskóli Vestmannaeyja mun á næstu árum flytja starfsemi sína í nýja viðbyggingu við Hamarskóla, nýting á Þórsheimilinu verður einnig takmarkaðri eftir að frístundaverið mun einnig flytja yfir í Hamarskóla. Vestmannaeyjabær á einnig Strandveg 50, svo ekki sé minnst á þriðju hæð fiskiðjunnar en engin áætlun liggur fyrir um framtíðarnýtingu þeirra 1000m2 sem þar standa auðir í dag.

Fiskiðjan tortryggð frá upphafi

Meirihluti H- og E- lista hóf kjörtímabilið á að ráðast í kostnaðarsama úttekt á framkvæmdum við Fiskiðjuna þar sem fasteignar- og atvinnuþróunarverkefnið sem Fiskiðjan er, var tortryggt eftir fremsta megni en í ljós kom að verkefnið var undir kostnaðaráætlunum. Fulltrúar Eyjalistans voru reyndar mótfallnir Fiskiðjuverkefninu frá upphafi, því ætti afstaða meirihlutans gagnvart Fiskiðjunni kannski ekki að koma á óvart.

Æðsta stjórnsýslan aftur í ráðhúsið gegn hátíðarsamþykkt 100 ára afmælis Vestmannaeyjabæjar

Í lok október á síðasta ári, án allrar umræðu, samvinnu eða upplýsinga kom meirihlutinn með tillögu á fundi bæjarstjórnar um að flytja starfsemi hluta bæjarskrifstofa aftur í gamla ráðhúsið sem fór þvert gegn hátíðarsamþykkt hátíðarfundar bæjarstjórnar Vestmannaeyja í tilefni 100 ára afmælis þar sem ákveðið var að gamla ráðhúsið yrði gert að fágætissafni með viðhafnarsal m.a. fyrir fundi bæjarstjórnar.

Hvar er framtíðarsýnin fyrir húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar?

Ákjósanlegt væri ef jafn stefnumarkandi verkefni og framtíðarhúsnæðismál bæjarskrifstofa Vestmannaeyjabæjar hefði verið unnið í meiri samvinnu og sátt og upplýsingagjöf hefði verið með viðunandi hætti. Hagkvæmast fyrir sveitarfélagið væri að nýta það húsnæði sem sveitarfélagið á og rekur nú þegar og sameina eftir fremsta megni starfstöðvar til hagræðingar, losna frekar undan en ekki halda áfram að safna fasteignum og hlaða þannig áfram á rekstrarkostnaðinn. Að mínu mati er fjármunum sveitarfélagsins betur varið í þjónustu við bæjarbúa fremur en rekstrarkostnað fasteigna og mun ég leggja áherslu á það þegar málið verður til umfjöllunar og afgreiðslu í bæjarstjórn á morgun. 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search