Mánudagur 26. september 2022

Það verður kátt í Höllinni

Þeir Daníel Geir Moritz og Svanur Gunnsteinsson skrifuðu undir samning 13. ágúst og eru þeir nýjir rekstraraðilar Hallarinnar eins og kom fram fyrr í vikunni. Tígull hafði samband við Daníel Geir Moritz og fékk frekari upplýsingar um hvað væri framundan hjá þeim félögum.
Hvað kom til að þið félagar ákváðu að ráðast í þetta verkefni?
Við Svanur höfum verið saman í knattspyrnuráði og átt mjög gott með að vinna saman. Á Goslokunum fórum við svo á Tónaflóð RÚV og fannst honum alveg vonlaust að Höllin væri ekki í rekstri. Hann hafði lengi langað út í svona ævintýri og án þess að hann vissi hafði ég hugsað svoleiðis líka. Hann sendi mér svo skilaboð eftir tónleikana sem voru einföld: Verðum við ekki að fara að reka Höllina saman? Þetta hitti mig mjög vel og var gengið frá samningi 6 vikum síðar.

Munið þið fara í einhverjar framkvæmdir á staðnum?
Já, það verða gerðar breytingar á húsinu en engar drastískar. Þetta hús er mikil snilld með mikla möguleika og er eitt og annað sem við erum með í kollinum með að nýta það.

Er búið að plana fyrsta “giggið”?
Það eru hugmyndir á borðinu og þau sem þekkja mig vita líklega hvaða hugmyndir það eru.

Hvenær reiknið þið með fyrstu tónleikunum?
Húsið er bókað undir eitt og annað nú þegar og göngum við inn í þau verkefni. Til gamans má geta að það er brúðkaup í húsinu um helgina en eftir helgi förum við svo í að taka til hendinni. Fyrsti skipulagði viðburðurinn af okkur verður svo vonandi í september en allt veltur þetta á takmörkunum og að byrja á að gera hlutina vel frekar en að pissa í skó sinn.

Hvernig sjáið þið þetta fyrir ykkur?
Við sjáum þetta bara fyrir okkur þannig að þetta verði alger snilld. Það verður hægt að leigja húsið undir mjög fjölbreytta viðburði og langar okkur að fá líf í húsið. Hvað varðar viðburði sem við svo skipuleggjum eru mjög margar hugmyndir komnar. Háaloftið verður einnig nýtt í marga viðburði en það verður þó ekki opið allar helgar eða sem skemmtistaður. Starfsemi okkar verður viðburðadrifin og munu allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Eruði með reynslu af svona verkefnum og hvað þá?
Við erum með ákveðna reynslu af rekstri og að vinna sjálfstætt en ekki beint svona reynslu. Svanur er mikill framkvæmdamaður og ég hef skipulagt viðburði í mörg mörg ár. Ég var í nemendaráðum í barna- og framhaldsskóla og stúdentaráði í Kennó. Þar skipulagði ég mjög marga viðburði og gerði það einnig þegar ég vann sem grínisti. Þá hef ég séð um hátíðina Franskir dagar síðustu ár, svo bakgrunnur okkar er ólíkur en passar mjög vel saman í þetta.

Má gefa upp fyrsta listamanninn sem þið hafið í huga?
Já, þú reyna mátt. Finndu þann sem skapar heiminn.

Hvernig verður miðasölu háttað?
Við munum stíga skref í nútímann með miðasölu og leggja meiri áherslu á forsölu hjá Tix.is. Þar sem stundum er flókið að halda viðburði úti á landi má vera að ákveðinn fjölda þurfi fyrir ákveðinn tíma í forsölu svo viðburður fari fram. Allt verður þetta að koma heim og saman en kapp lagt á rafræna miðasölu.

Verðið þið með einhverjar matarveitingar í boði?

Það er nú skrambi klár veitingamaður í húsinu, svo ekki verður hróflað við því. Þó svo að ég sé hinn færasti kokkur þá verður Einar Björn áfram með veisluþjónustu í Höllinni.
Annars er mikil tilhlökkun í okkur félögunum. Fyrirtækið sem við stofnuðum um reksturinn heitir Kátt í Höllinni ehf. og er eins gott að það standi undir nafni.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is