Fimmtudagur 26. janúar 2023

Það var alltaf markmiðið að fólk sneri aftur heim

Líkt og við lofuðum í síðasta blaði höldum við nú áfram spjalli okkar við Pál Hjaltdal Zóphóníasson og færum okkur fimmtíu ár aftur í tímann, til byrjun árs 1973. En aðeins ári fyrir gos hafði Páll ásamt fjölskyldu flutt til Vestmannaeyja frá Danmörku og tekið við starfi bæjartæknifræðings.

Aðfaranótt þriðjudagsins 23.  janúar 1973 kl. 1.55 hófst eldgos á Heimaey þegar 1600 metra löng gossprunga opnaðist austast á eyjunni. Aðeins klukkustund síðar var búið að vekja alla íbúa bæjarins og fólk farið að streyma niður á bryggju. Fyrsti báturinn lagði af stað með fólk um kl. hálf þrjú, aðeins um hálftíma eftir upphaf eldgossins.

„Við bjuggum á Illugagötu 7 þá og eins og aðrir vöknuðum þarna um nóttina. Það varð úr að við fjölskyldan fórum á Túngötuna til Magnúsar og Mörtu [Hjónin Magnús H. Magnússon, bæjarstjóri og Filippía Mörta Guðrún Björnsdóttur] þar sem ég fór með Magnúsi aðeins um bæinn. Fjölskyldur okkar fóru fyrst með Mörtu og börnum Ólafs Kr. sem var læknir sem bjó í næsta húsi, niður á Illugagötu. Þau voru þar þangað til þau fóru svo með Fífli, frá Hafnarfirði, til Þorlákshafnar. En ég varð eftir og var hérna eiginlega allan tímann,“ sagði Páll er hann rifjaði upp gosnóttina. Í fyrstu var hann í Eyjum sem starfsmaður Vestmannaeyjabæjar en tók svo sæti í almannavarnarnefndinni þegar hún tók til starfa. „Almannavarnir ríkisins komu hingað strax og voru með yfirumsjón á þessu en svo smá saman tekur almannavarnanefndin við. Síðar verður Viðlagasjóður til og Guðmundur Karlsson og ég verðum framkvæmdastjórar hans hér í Vestmannaeyjum og vorum það þangað til farið er að flytja heim.“

 

Innblástur frá Tristan da Cunha

Strax að morgni fyrsta dags gossins spjölluðu þeir Páll og Magnús ýmislegt um framhaldið og menn vissu svona nokkurn veginn hvað þyrfti að gera. „Nokkru áður hafði birst í dagblaði, ég held að það hafi verið í Morgunblaðinu, grein um fólkið á Tristan da Cunha. Í þessari grein er sagt frá því að þar hafi orði gos.“ Tristan da Cunha er lítill eldvirkur eyjaklasi í suðurhluta Atlantshafsins og tilheyrir Bretlandi og er aðeins ein eyjanna þar í byggð. Í október 1961 gaus eldfjallið á eynni með þeim afleiðingum að eyjarskeggjar, alls 284 talsins, urðu að yfirgefa eyjuna og voru fluttir til Bretlands. Hið konunglega breska vísindafélag komst að þeirri niðurstöðu í lok goss, eftir rækilega athugun, að eyjan væri óbyggileg eftir þetta. „ Svo líða nokkur ár og fólkinu leið bara mjög illa og senda leiðangur að skoða aðstæður á eynni. Það endaði með því að helmingurinn af fólkinu snéri heim. Þeim leið ekkert sérstaklega vel í Bretlandi. Ég man að við vorum að spjalla um þetta þarna um morguninn. Magnús var alveg glerharður á því að við myndum byggja hér upp aftur og það var alltaf markmið allra held ég. Það voru alltaf þessir fáu úrtölumenn sem birtust öðru hvoru í einhverjum sérstökum tilfellum. En þeir voru nú ekki margir,“ sagði Páll.

 

Stór og mikill hraunfoss til suðausturs

Þegar Páll er inntur eftir eftirminnilegasta augnablikinu á gostímanum glottir hann og segir að það hafi náttúrulega ótrúlega margt komið upp á á þessum tíma. „En eitt af þessu sem var hvað ánægjulegast var þegar að við sáum að hraunið var farið að renna í suðaustur og páskahraunið myndaðist. Þetta er um páskana sem hraunið byrjar að renna í suðaustur.“ Við þetta minnkaði pressan verulega á höfnina og bæinn og því eðlilega ástæða til að gleðjast. „Hraunið rann almennt aðallega í norður þannig að það varð alltaf hærra og hærra. Svo þegar farið er að kæla, er farið inn á hraunið og látið renna niður á þennan massa og smá saman storknar það efst,“ sagði Páll. Til viðbótar var svo einnig kælt á hraunjöðrunum og sér í lagi við innsiglinguna sem menn óttuðust að myndi lokast. „Þetta myndar mótstöðu og allt leitar jafnvægis. Þetta er fljótandi og rennur í þá átt þar sem minnsta fyrirstaðan er. Þarna er komin mikil fyrirstaða, þar sem búið er að kæla hraunið, fyrir norðan og því rennur það í suðaustur þar sem fyrirstaðan er minni. Til þess að byrja með kom þarna stór og mikill foss sem rann út úr fjallinu og niður. Svo var hraunelfa sem rann þarna niður páskahraunið. Þetta er svolítið öðruvísi hraun en það sem var fyrir, ef þið skoðið það. Þetta var meira þunnfljótandi og ekki eins hátt, það rann flatara fyrir bragðið og skyldi líka eftir hella. 

  Við vorum fá sem fengum að vera hérna yfir páskana. Almannavarnir lögðu áherslu á það að hér væri helst enginn a.m.k. eins fáir og mögulegt var. Þannig að um páskana fórum við á kvöldin og sátum þarna og horfðum á hraunið renna í rétta átt. Það voru eiginlega ánægjulegustu stundirnar í gosinu.“ sagði Páll.

 

Páll, tæknifræðingur ásamt fleirum að morgni 23. Janúar 1973.

Lundinn blés byr í brjóst

Í lok apríl fór eyjan að grænka lundinn kom og hreinsaði holur sínar og bjartsýni á goslok dafnaði. Gosvirkni var minni í maí og hraunrennsli mældist ekkert í júní. Þessir mánuðir voru því notaðir í hreinsunarstarf. Götur voru mokaðar og grasfræi sáð. 

  „Rétt fyrir gos var búið að bjóða út byggingu verkabústaða á svæðinu þar sem Hraunbúðir eru. Það lá fyrir samþykkt aðalskipulag, þar var gert ráð fyrir að bærinn myndi stækka í vestur á þessu svæði sem vesturbærinn er í dag. En þegar við fórum að skoða aðstæður til að byggja, þessar þrjár blokkir sem fyrirhugaðar voru þar, kom í ljós að óhemju kostnaður yrði við vegagerð á þessu svæði. Allt að átta, níu metra djúpar, sumar gloppurnar þarna í hrauninu. Þannig að þegar menn fóru að ræða um hvað ætti að gera þegar kom að því að hreinsa. Þá kom þetta mjög fljótlega upp í huga okkar. Að þarna þyrfti að byggja upp fyrir þann hluta sem færi í austurbænum, og gera það þannig að það yrði hagkvæmt og þægilegt. Það var því ákveðið að nýta sér þetta skipulag með smávægilegum breytingum, það fjölgaði svolítið einbýlishúsum. Þannig að það var farið að keyra í göturnar fyrst og svo fylla í lóðirnar. Þarna náðum við fylla yfir landið og hækka það kannski upp um svona metra. Þannig að öll vinna við lagnir eftir á varð náttúrulega mikið ódýrari. Það voru stundum einhverjar nibbur en þá gátum við fjarlægt þær áður en við fylltum.

  Þannig að öllum þessum sjö til áttahundruð þúsund rúmmetrum af gosefni var ekið þarna vestur úr og fyllt upp. Það sem ekki fór þangað var notað í að lengja flugbrautina og þá var einnig fyllt uppí Hrafnakletta. Þar var svolítið stór gryfja. Svo var byrjað að fylla upp í með þessu sama í Helgafellsgryfjuna. Það sér hana engin í dag. En hugsið ykkur, þegar maður keyrði hringveginn austur fyrir Helgafell og þurfti að fara í gryfjuna, þá keyrði maður niður um tíu metra. Svo djúp var þessi gryfja og svo stór var holan orðin. Þannig að sumir segja að þetta hafi verið hefnd Helgafells að spúa þessu hérna yfir okkur.“ 

Páll virðir fyrir sér aðstæður þar sem Eldheimar standa nú. En fyrirtæki hans TPZ teiknaði þá.

Ekki er allt með öllu illt

Gryfjurnar í Helgafelli og Hrafnaklettum fylltu menn einnig með þeim skúrum sem menn rifu við hreinsunina. En ótrúlega marga skúra var að finna á lóðum hérna í miðbæ Vestmannaeyja. „Ég held að við höfum talið á milli sjö og áttahundruð talsins. Sumir þeirra voru notaðir sem útihús, í gamla daga voru þetta líka kamrar og svo voru sumir með skepnur í þeim. Mikið af þessu var illa viðhaldið og fyrir bragðið þó nokkur óþrifnaður af þessu. Þannig að heilbrigðisfulltrúinn hér lagði mikla áherslu á að þetta væri eitt af verkefnum ársins 1973 að fjarlægja eitthvað af þessum skúrum. Þarna notuðu menn tækifærið. Þannig að það er ekki allt með öllu illt og svo framvegis.“ sagði Páll og glotti.

„Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, var væntanlegur hingað í febrúar til þess að fara hér um eyjuna og finna staði sem væru ákjósanlegir til að vinna efni í steypu og gatnagerð o.s.frv. En við hittumst þarna um gosmorguninn og við komum okkur saman um að það væri alveg óhætt að hætta við þennan fund, hann væri alveg óþarfur. Það væri líklega búið að leysa það mál vel og rækilega.“

  Að vissu leyti má því halda því fram að eldgosinu á Heimaey fylgdi ekki eingöngu böl heldur eilítil blessun einnig. Fyrir gos var eyjan um 11,2 ferkílómetrar. Strax eftir gos mældist eyjan um 13.44 ferkílómetrar, en hefur eitthvað minnkað vegna rofs. „Ef við erum svona á jákvæðu nótunum,” bætti Páll við, „má náttúrulega líka bæta við að höfnin og innsiglingin sérstaklega, er náttúrulega miklu betri en hún var fyrir gos. Því er ekki saman að líkja.  Annað sem menn nýttu sér líka á tíu ára tímabili er að hita upp húsin með hita frá hrauninu. Undir miðju hrauninu var 20 til 30 metra þykkt fljótandi hraun, 1100°C heitt. Þennan varma var hægt að nýta í ein tíu ár til að hita upp húsin í bænum.“

 

Goslokum lýst yfir

Síðasta goshrinan stóð yfir í aðeins nokkrar mínútur þann 26. júní. Almannavarnanefnd tilkynnti þann 3. júlí að gosinu væri lokið með eftirfarandi tilkynningu; „Að mati sérfræðinga og vísindamanna er það staðreynd, að gígurinn er lokaður og gosvirkni í fellinu hætt. Þar sem ekki er hins vegar enn laust við gasmengun í miðhluta bæjarins, einkanlega á svæði vestur af Heiðarvegi, upp að Hásteinsvegi, Hvítingavegi og Birkihlíð, eru því þeir, sem hug hafa á að setjast að á umræddu svæði, beðnir að hafa samband við Almannavarnanefnd Vestmannaeyja í síma 99-6911 eða 99-6912 og fá þar upplýsingar um ástand með tilliti til gasmengunar. Nefndin vill jafnframt ítreka að foreldrar láti ekki börn sín vera fylgdarlaus á umræddu svæði.“

Á næstu dögum birtum við myndband með ítarlegra viðtali við Pál um gostímann á Tigull.is

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is