Það er bjart yfir Vestmannaeyjum

Fjölmiðillinn Sóknarfæri ræddi  við Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra.

„Það býr ótrúlegur kraftur í þessu samfélagi hér í Eyjum og mikil uppsveifla í framkvæmdum, ekki síst í byggingariðnaðinum. Vestmannaeyjabæjarsamstæðan leggur einnig sitt til málanna en á síðasta ári vörðum við um einum milljarði til fjárfestinga og um svipaða upphæð verður að ræða á þessu ári,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í samtali við Sóknarfæri.

Bætt aðstaða fatlaðra

Íris segir að bærinn standi í miklum fjárfestingum á gamla Ísfélagsreitnum við Strandgötu en þar sé byggingafyrirtækið Steini og Olli að endurbyggja reitinn í samstarfi við bæinn. „Við erum með hluta af þessari framkvæmd sem eru íbúðir og þjónustukjarni fyrir fatlaða. Þetta er 800 m2 húsnæði á 2. og 3. hæð. Þar er verið að innrétta 7 íbúðir með þjónustukjarna og skammtímavistun en að auki erum við með 3 félagslegar íbúðir fyrir fólk í sjálfstæðri búsetu. Þessi bætta aðstaða verður afhent í vor og þá taka við framkvæmdir innanhúss. Margvísleg önnur starfsemi er á reitnum, m.a. 15 íbúðir á efstu hæðum, bankaútibú og þekkingarsetur svo eitthvað sé nefnt.“

Ný slökkvistöð og búningsklefar

Eins og fram kemur annars staðar í blaðinu er Vestmannaeyjabær að ljúka byggingu nýrrar slökkvistöðvar í bænum. Á þessu ári verður 265 milljónum króna varið til verksins sem mun ljúka í sumar. Samtals kostar þessi framkvæmd ríflega 400 milljónir króna. „Þessi nýja bygging verður kærkomin en hún hefur verið alllengi á döfinni. Einnig er verið að reisa viðbyggingu við áhaldahúsið sem mun gjörbylta starfsmanna- og skrifstofuaðstöðu Þjónustumiðstöðvar bæjarins eða áhaldahússins sem hefur verið óbreytt frá árinu 1974. M.a. verða settir upp kynjaskiptir klefar, glæsileg kaffistofa, búningsklefar og sturtuaðstaða.

Við Hásteinsvöll er verið að byggja nýja búningsklefa undir stúkunni á vellinum þar sem núverandi aðstaða uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til keppni í efstu deild knattspyrnu í dag. Þar munu bæði kvennalið og karlalið ÍBV fá sína eigin aðstöðu og einnig verða þarna klefar fyrir gestalið, starfsmenn, dómara o.s.frv. Þetta er kærkomin framkvæmd öllu áhugafólki um íþróttir og uppbyggingu tengda þeim,“ segir Íris.

Viðamikil gatnagerð

Á þessu ári verða gatnaframkvæmdir í Eyjum miklar auk hefðbundins viðhalds. M.a. er verið að ljúka framkvæmdum við nýja botnlanga í Foldahrauni og Goðahrauni og er byggingu húsnæðis þar ýmist lokið eða langt komið. „Þessi mikli áhugi á byggingu íbúða hér í Vestmannaeyjum er afar ánægjulegur og raunar með ólíkindum hversu mikill kraftur er í fólki. Við hjá bænum verðum að hafa okkur öll við til að mæta eftirspurn eftir lóðum og erum að huga að deiliskipulagi fyrir ný hverfi auk þess sem áhugi er á að skipuleggja og byggja á nokkrum stöðum innan núverandi marka. M.a. er horft til gamla malarvallarins í þeim efnum en það er augljóslega hagkvæmt og skynsamlegt að þétta byggðina án þess þó að ganga of langt í þeim efnum. Einbýlishúsaog raðhúsalóðir í Goðahrauni og Áshamri hafa runnið út eins og heitar lummur en nýlega var fjórum raðhúsalóðum úthlutað í Áshamri og er jarðvinna og lagnavinna í fullum gangi þar. Einnig er verið að undirbúa hönnun nýrrar álmu við Hamarsskóla þar sem tónlistarskólinn verður til húsa ásamt frístundaverinu og bættri aðstöðu fyrir nemendur og og starfsfólk.“

Gullmoli Guðjóns

Bæjarskrifstofur Vestmannaeyjabæjar hafa um hríð verið í bráðabirgðahúsnæði vegna endurbóta á ráðhúsinu. „Okkur Eyjamönnum þykir vænt um þessa byggingu sem margir telja fegursta hús Guðjóns Samúelssonar. Húsið er nú tekið í gegn frá A-Ö og þegar endurbótum er lokið mun stjórnsýsla bæjarins og tæknideild á ný verða þar til húsa. Eftir að sú stefna var tekin að búa bænum framtíðarhúsnæði í þessu einstaklega fallega húsi erum við að vinna við endurbætur á 3. hæð Fiskiðjuhússins þar sem ætlunin er að byggja upp nýsköpunar- og frumkvöðlasetur á næstu árum.“
Íris nefndir að síðustu að nú er af krafti unnið að bættum lausnum í fráveitumálum skv. áætlun þar um. Segir hún að 75% húsa í Vestmannaeyjum séu nú tengd viðurkenndri fráveitu til að uppfylla nútímakröfur. Áfram er unnið að því að tengja þau hús sem eftir eru og reiknað með ljúka því á næstu 3 árum. Þá er að auki unnið að endurbótum á gömlum kerfum og lögnum, oftast samhliða öðrum framkvæmdum t.d. byggingum eða gatnaviðhaldi.

Samgöngunet nútímans

„Ég vil loks nefna ljósleiðarvæðinguna hér í Eyjum sem við teljum brýnt hagsmunamál enda um að ræða eitt mikilvægasta samgöngunet nútímans. Þótt að í Vestmannaeyjum búi tæplega 4.400 manns hefur fjarskiptafyrirtækjunum ekki þótt fýsilegt að fjárfesta í slíku kerfi hér. Hins vegar er bærinn of stór til þess að falla undir dreifbýlisstyrki sem lítil samfélög á landbyggðinni hafa notið til slíkra framkvæmda. Þess vegna brugðum við á það ráð að fara af stað sjálf og er hönnun ljósleiðarakerfisins í þéttbýlinu hafin en slíkt kerfi mun veita öruggt þráðbundið netsamband öll heimili og fyrirtæki í sveitarfélaginu. Einnig stendur eigendum frístundahúsa í dreifbýlinu til boða að tengjast ljósleiðaranum. Þessi samgöngubót verður bylting,“ segir Íris bæjarstjóri að endingu.

Forsíðumynd: Halldór B. Halldórsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search