Taka þátt í alþjóðlegri herferð #Kind20

29.10.2020

Hjónin Guðný Lára Gunnarsdóttir og Stefán Örn Viðarsson hafa í nógu að snúast síðan Seyðfirðingurinn og bróðir Guðnýjar, Helgi Haraldsson, opnaði síðuna Syngjum veiruna burtu á Facebook, í fyrstu bylgju Covid-19, sem hressti margan við í kófinu og gerir enn þar sem ýmsir aðilar koma saman og syngja hver með sínu nefi. Verkefnið hefur nú tekið flugið í orðsins fyllstu merkingu en í borginni Liverpool er farið af stað einkar áhugavert verkefni sem segja má að sé afsprengi verkefnisins „Syngjum veiruna burtu“. Við heyrðum í þeim hjónum og spurðum út í verkefnið.

 

Hvernig kom það til að þið dragist inn í verkefni í Liverpool þegar allt er lokað vegna Covid-19?

 

Í kjölfar tengsla sem við komumst í út frá Kórónukórnum okkar sem stofnaður var síðastliðið vor á “Syngjum veiruna burtu” og lögum sem við gerðum með honum, vorum við fengin til að taka þátt í alþjóðlegu herferðinni #Kind20 með því að syngja lag og gera stutt myndband fyrir þátt sem nefndist “healing our earth”. Út frá því áttum við svo að reyna að fá fleiri til að taka þátt í verkefninu hér á landi. Það vatt svo upp á sig þar sem lagið sem við tókum, Imagine með John Lennon, varð nokkuð vinsælt og í kjölfarið vorum við beðin að taka þátt í stjórnun og skipulagi á tónlistahluta #Kind20.  Hér má sjá brot úr Imagine með Guðný&Stefáni.  Þegar það er svo ákveðið að halda alþjóðlega lagakeppni í Liverpool í tilefni af 80 ára afmæli John Lennons vorum við beðin um að taka þátt í því, með því að útbúa ábreiðu af þemalagi keppninnar sem heitir Together as 1. Við gengumst auðvitað við því verkefni og fengum Kórónukórinn góða með okkur í upptökur. Lagið var gefið út á afmælisdegi John Lennons þann 9. október síðastliðinn og var jafnframt fyrsta framlagið til keppninnar. Til gamans má geta að lagið hefur tekið afburða forystu eins og málin standa í dag. Það eru “nokkrir” mánuðir eftir af keppninni svo við ætlum að vera alveg róleg, það er aðallega bara gaman að vera með. 

Það dásamlega við þetta allt saman er að allar lokanir og höft sem hafa verið hérlendis jafnt sem erlendis vegna Covid-19 hafa ekki stoppað okkur við þessa vinnu þar sem internetið á stóran þátt í að tengja okkur saman og stór hluti allra samskipta og vinnu fer fram í gegnum fjarfundi. 

 

Hver er að vinna með ykkur í verkefninu í Liverpool


Að verkefninu koma ýmsir áhugaverðir aðilar. Helst ber að nefna Lindu Baldvinsdóttur, markþjálfa og sendiherra #Kind20 á Íslandi. Þá vinnum við einnig náið með einum af stofnanda góðgerðarsamtakanna Tuff.earth sem heldur utan um #Kind20 herferðina, Dr. Shamender Talwar en hann stýrir þessu verkefni frá Bretlandi. Borgarráð Liverpool borgar er í góðu samstarfi við #Kind20 ásamt hinum sögufræga Cavern klúbbi. Í Gegnum Cavern klúbbinn koma inn í þetta aðilar sem tengjast svo Bítlunum s.s. Geoff Baker, fjölmiðlafulltrúi Bítlanna á sínum tíma, Julia Baird systir John Lennons og svo ein aðal eftirherma John Lennons en hann heitir Jimmy Coburn. Jimmy samdi einmitt lagið “Together as 1” sem við svo tókum upp á okkar arma á dögunum. 

 

Í hverju felst verkefnið?


Verkefnið í Liverpool felst í því að taka þátt í lagakeppninni með Kórónukórnum okkar og hvetja aðra til að taka þátt og sinna markaðsmálum í tengslum við hana. Einnig höldum við áfram að sinna alþjóðlegu herferðinni #Kind20 sem tengist þessu öllu og hefur ýmsa aðra anga s.s. að setja upp hugsanlega viðburði á Íslandi og alþjóðlega viðburði í gegnum netið.  

 

En hvað er #Kind20?


Kind20 hófst sem samfélagsmiðlaherferð sem ætlað var að gefa heiminum von á tímum heimsfaraldurs með því að sýna þau góðverk sem gerð eru víðsvegar í heiminum. Umfang herferðarinnar hefur stækkað hratt og telur nú yfir 260 þúsund meðlimi á Facebook einni saman.  Fyrsta verulega stóra verkefni KIND20 og Tuff.earth er auðvitað lagakeppnin sem styður við allt tónlistarfólk veraldar, stefnur þeirra og strauma.
Út frá herferðinni hafa þróast ýmis önnur verkefni sem stutt geta við góðvild í heiminum og má þar nefna Kind online verkefni samtakanna sem og “The Kind20 week” sem er verkefni til að styðja við fjölskyldur á tímum félagslegrar einangrunar. Við hjónin erum einmitt að þýða þetta skemmtilega og uppbyggjandi efni sem ætlað er yngri kynslóðinni og er í raun hugsað sem viku verkefni í góðvild og umhyggju sem öll fjölskyldan getur sameinast um að taka þátt í. Nú þegar hefur SAMFÉS ákveðið að taka slíka viku á næstunni inn í starfið hjá sér. Það væri ekki verra að ná að koma þessu inn í alla skóla landsins ef við förum að fá yfir okkur aðra bylgju af samkomubanni líkt og í vor. Við höfum einnig heyrt að mikill áhugi sé fyrir verkefninu í Bretlandi og víðar í heiminum. Svo er ýmislegt annað í uppsiglingu enda endalaust af góðu fólki í heiminum sem vinnur að þessu verkefni. 

 

Upptökur á alþjóðlegu jólalagi og heimildarmynd


Það hefur ýmislegt spunnist utan um þetta “litla” verkefni sem við hjónin tókum að okkur, en það er svo sem ekkert nýtt hjá okkur. Þar má til dæmis nefna að þessa dagana erum við að klára upptökur á öðru lagi eftir Jimmy Coburn og einnig erum við að undirbúa yfirgrips miklar upptökur á jólalagi með nokkrum öðrum þjóðum, við vonumst til að fá framlög t.d. frá Ástralíu, Nígeríu, Írland, Englandi og fleiri löndum sem verður fléttað inn í lagið okkar. Jólalagið er að sjálfsögðu hið margrómaða lag John Lennons Happy Xmas! Hver veit hvort fleiri en eitt tungumál verða sungin þar en það á allt eftir að koma í ljós. 

Annað sem er gaman er að uppljóstra um er að þessa dagana er hinn virti kvikmyndagerðarmaður Colin McKeowan að skipuleggja heimildarmynd í samstarfi við alla sem koma að skipulagi lagakeppninnar í Liverpool. Myndin á að sýna hvernig við mannfólkið stöndum saman á þessum annars myrku tímum og hvernig við leitum yfirleitt frekar eftir hamingju og góðvild, sama hvað gengur á. Inn í myndina fléttast okkar aðkoma frá Íslandi og hvernig við erum að vinna að því í sameiningu að sameina heiminn í baráttunni við veiruna. Við erum nokkuð viss um að John Lennon sé þarna einhverstaðar með okkur, -allavega í anda! 

 

Við leitum af fólki til að vera með okkur

 

Okkur langar að stofna teymi með góðu fólki hér á Íslandi sem gæti boðið þjónustu sína varðandi viðburði tengda Kind20 og þá jafnvel einhverskonar aðkomu að lagakeppninni í Liverpool. Það er nefnilega ýmislegt hægt að gera þrátt fyrir að við sitjum heima hvert í sínu horni. Við lýsum hér með eftir fólki sem hefði áhuga á að koma inn í þetta verkefni með okkur. 

 Hlekkir á valdar síður: 

 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search