Svona þekkir þú rangfærslur og falsfréttir

„Falsfréttir“ er hugtak sem er oft notað um efni sem hefur á sér yfirbragð fréttar en er að hluta eða í heild uppspuni. Stundum er líka mikilvægum upplýsingum sleppt til að sýna einhliða mynd af viðfangsefninu.

Oft er röngum og misvísandi upplýsingum dreift af ásetningi. Tilgangurinn getur verið að græða peninga, svindla á þér, hafa áhrif á pólitískar skoðanir þínar eða skapa ósætti í samfélaginu.

 

Svona þekkir þú falsfréttir

1

Er þetta einum of ótrúlegt?

Horfðu gagnrýnum augum á sláandi og ótrúlegar fyrirsagnir. Falsfréttir hafa oft grípandi og sláandi fyrirsagnir sem gjarnan eru settar fram í HÁSTÖFUM og með upphrópunarmerkjum! Ef fyrirsögn fréttarinnar hljómar ótrúlega getur verið að hún sé einfaldlega ósönn.

2

Hvaðan kemur þetta?

Ef þú ert í vafa skaltu athuga hvaðan fréttin kemur. Er þetta fréttaveita sem hægt er að treysta? Ef þú ert ekki viss skaltu skoða vefslóðina í slóðarstikunni ofarlega á vefsíðunni. Falsfréttaveitur eru oft með vefslóð (URL) sem líkist vefslóðum þekktra fréttamiðla en er ekki nákvæmlega eins. Þú getur líka athugað hvort þú finnir upplýsingar um fréttamiðilinn í „Um okkur“ eða „Um [nafn vefmiðils]“ flipanum sem finna má á flestum vefmiðlum.

3

Hver skrifar?

Athugaðu hver er skrifaður fyrir fréttinni. Ef fréttin er ekki merkt nafngreindum einstaklingi ættirðu að kanna sannleiksgildi hennar betur. Fréttir á faglegum fréttamiðlum eru oftast merktar þeim blaðamönnum sem skrifa þær, þótt það sé ekki algilt hér á landi.

4

Hafa aðrir fréttamiðlar birt fréttina?

Kannaðu hvort fleiri fréttamiðlar hafi birt fréttina. Alvöru fréttir birtast sjaldnast bara á einum fréttamiðli. Kannaðu hvort aðrir, t.d. stórir og rótgrónir fjölmiðlar, hafi fjallað um málið. Prófaðu að slá fyrirsögnina eða aðrar upplýsingar inn í leitargluggann á Google eða annarri leitarvél. Ef ekkert kemur upp, þótt efni fréttarinnar sé sláandi, hefurðu góða ástæðu til að efast.

5

Finnurðu fyrir reiði?

Vertu á verði ef fréttin vekur sterkar tilfinningar. Falsfréttum er oft ætlað að vekja sterk, tilfinningaleg viðbrögð, eins og reiði. Ástæðan er sú að slíkar fréttir eru meira lesnar og dreifast hraðar á netinu en aðrar fréttir. Því reiðari sem við verðum, þeim mun meiri líkur eru á að við smellum á fyrirsögnina, skrifum athugasemd við fréttina og deilum henni á samfélagsmiðlum. Gættu sérstakrar varkárni ef fréttin virðist vera sniðin að þér, skoðunum þínum og gildismati. Tæknin gerir fyrirtækjum kleift að safna margs konar upplýsingum um þig og netvenjur þínar. Þessar upplýsingar eru svo notaðar til að senda þér sérsniðnar auglýsingar og skilaboð í gegnum samfélagsmiðla.

6

Er myndin trúverðug?

Myndir geta blekkt – myndaleit á netinu getur hjálpað. Þeir sem skrifa falsfréttir nota oft myndir sem þeir nálgast annars staðar á netinu, t.d. úr öðrum fréttum. Ef þú notar myndaleitina á Google eða annarri leitarvél geturðu fundið út hvaðan myndin kemur og gert þér betur grein fyrir því hvort fréttin er sönn eða ósönn. Á Google er þetta gert með því að hægri-smella með músinni á myndina og velja „Search Google for image“ („Leitaðu að myndinni á Google“). Þá birtist listi yfir fréttir ólíkra miðla þar sem viðkomandi mynd hefur verið notuð.

 

Gagnrýnin hugsun og miðlalæsi eru lykilatriði í baráttunni við falsfréttir

Á síðustu árum hefur dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu færst mjög í aukana á stafrænum miðlum. Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að auðveldara er að dreifa upplýsingum og að sama skapi erfiðara að greina uppruna og sannleiksgildi hinna ýmsu upplýsinga. Hugtakið upplýsingaóreiða tekur m.a. til staðreyndavillna, rógburðar, netsvika og skoðanamótandi hálfsannleiks. Þá tekur hugtakið bæði til þess þegar röngum upplýsingum er miðlað með skipulögðum hætti og án ásetnings. Samskiptamátinn sem notaður er til að koma skilaboðunum áleiðis getur verið margvíslegur.

Upplýsingaóreiða getur haft neikvæð áhrif á upplýsta umræðu um samfélagsleg málefni. Afleiðingar þess að dreifa falsfréttum geta verið alvarlegar þar sem þær grafa undan trausti í samfélaginu. Slíkum upplýsingum er jafnframt dreift með það að markmiði að misnota fólk og hafa af því fé með svikum og prettum. Þess vegna skiptir miklu máli að auka þekkingu og færni almennings bæði um falsfréttir og ólík form upplýsingaóreiðu, með það að markmiði að fólk geti tekist á við krefjandi áskoranir í hinum stafræna heimi.

Gagnrýnin hugsun og miðlalæsi eykur getu fólks til að sjá í gegnum falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Miðla- og upplýsingalæsi er þannig lykillinn að því að unnt sé að skilja og nota hina ýmsu miðla á ábyrgan og meðvitaðan hátt og taka virkan þátt í opinni lýðræðislegri umræðu.

Í skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu sem gefin var út í júní 2021 kom fram að átta af hverjum tíu sögðust hafa rekist á upplýsingar á netinu á síðustu 12 mánuðum sem þau hafi efast um að væru sannar og  sjö af hverjum tíu höfðu séð falsfréttir, fengið þær sendar eða rekist á þær með öðrum hætti á netinu á síðustu 12 mánuðum. Skýrslan byggir á niðurstöðum úr víðtækri spurningakönnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í febrúar og mars 2021.

Könnunin byggir á norskri könnun sem var unnin í samstarfi við ráðgjafa- og könnunarfyrirtækið Kantar, prófessor Tore Slaatta í TSL Analytics og prófessor Ola Erstad við háskólann í Osló.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search