- Bæjarfjölmiðillinn í Vestmanneyjum -

Svona breytist lífið í Vestmannaeyjum

Eyþór Harðarson,
Oddviti D-lista Sjálfstæðisflokksins
í Vestmannaeyjum

Vestmannaeyjar geta verið Bestmannaeyjar og pólitík getur verið ólgutík. Ég man þá tíð í mínu lífi þar sem ég skildi ekki af hverju fólk gaf kost á sér til stjórnmálaþátttöku. Er þetta bara fólk sem finnst gaman að rífast eða er einhver flottheitaháttur í gangi? Eftir því sem árunum fjölgaði og ég tók þátt í félagsstarfi eins og handboltanum hjá ÍBV og Akóges, ásamt útgerðarstjórastarfinu sem ég hef alltaf verið svo þakklátur fyrir í okkar helstu atvinnugrein, fór ég að sjá að Eyjamenn búa yfir einhverju alveg sérstöku. Okkar stærstu lífsgæðastökk koma oft þegar við ákveðum að sækja sjálf tækifærin, hvort sem það var nútímavæðing sjávarútvegsins, uppbygging framúrskarandi íþróttastarfs eða að byggja upp langbestu tónlistarhátíð landsins, þá hefur orkan og frumkvæðið komið frá okkur.

Mér varð sérstaklega hugsi til þessa alls þegar ég sat einn í eldhúsinu heima fyrr á þessu ári með bláa kaffibollann minn í hendinni og góður vinur var nýbúinn í heimsókn þar sem hann þurfti að pústa all hressilega. Þessi góði vinur sem ég held að hafi aldrei setið á skoðun sinni, burtséð frá gæðum hennar, listaði upp með lítilli fyrirhöfn: „af hverju í ósköpunum eru öll okkar stærstu mál komin í hálfgerðan lamasess, flugsamgöngur eru ekki tíðar, aðstæður fyrir eldra fólk eru ekki í lagi og núna ráðum við ekki lengur yfir þeim málum, sjúkraflugið hefur færst lengra í burtu, það er ekki hægt að fá mannsæmandi háhraðanet, ef vatnsleiðslan okkar fer í sundur gætum við hreinlega þurft að rýma eyjuna og síðast en ekki síst, þá erum að senda allt unga fólkið okkar upp á land í óvissu með tíma og aðstæður ef það vill eignast börn.“
Ég hugsaði að þetta væri nú kannski að sjá glasið hálftómt, það væri nú alls ekki alslæmt hér í Eyjum heldur. En stuttu seinna kom þessi ræða hans kröftuglega aftur í huga mér þegar ég var áminntur um þá miklu óvissu sem við vorum að ganga í gegnum með orkuna sem við þurfum til að geta klárað okkar stærstu gjaldeyris innspýtingu flest ár, sem er loðnuvertíðin. Eyjamenn lifa við mikið óöryggi í rafmagnsmálum þar sem við þurfum að treysta á einn sæstreng og annar sæstrengur virðist ekki vera í augsýn. Það er hreinlega ekki sanngjarnt að leggja á nokkurn mann sem ætlast til grundvalla lífsgæða að lifa við slíkt óöryggi varðandi þjónustu sem hið opinbera á að tryggja.
Það var í þessum jarðvegi sem hugur minn var að hreyfast þegar kallið kom með að skoða þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Ef að maður ætti einhvern tímann að gefa kost á sér að fullu í slíkan slag þá væri svo sannarlega af nógu að taka þessi misserin til að geta bætt lífsgæðin okkar í Vestmannaeyjum.
Eftir vel heppnað prófkjör okkar Sjálfstæðismanna þar sem ég endaði sem oddviti settumst við frambjóðendurnir niður og ræddum þessi mál og komumst að því að við vorum öll sammála um að nú þyrfti stórsókn í málum okkar Eyjamanna gagnvart stjórnvöldum. Við ákváðum því að bíða ekki frekar með þá sókn og höfðum beint samband við þingmenn og ráðherra okkar og buðum þeim í heimsókn til Vestmannaeyja. Við kynntum þeim málefni okkar, tókum þau í rútuferð um Vestmannaeyjar og sýndum þeim Hraunbúðir, flugvöllinn, stöðuna á tengimálum okkar í rafmagni og vatni, sjúkrahúsið og Herjólf og fræddum þau um áskoranirnar. Samtal hófst og áður en heimsókn var lokið lá fyrir grundvöllur að samtali í okkar lykilmálum. Fleira lá fyrir, sókn í málefnum sýslumanns- og lögregluembættisins. Eftir þriggja tíma fund með dómsmálaráðherra og okkur í Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum, lá fyrir skýr vilji til þess að færa aukin verkefni til Vestmannaeyja með tilheyrandi störfum og aukinni sérþekkingu. Mun ballið byrja með því að færa rannsókn fiskveiðilagabrota til lögreglu og rammi utan um fleiri verkefni til sýslumannsembættisins á sama tíma og staða sýslumanns hér yrði tryggð.

Ég og við í Sjálfstæðisflokknum erum geysilega stolt af þessu og ég sé að það er hægt að ná stórauknum árangri í málefnum okkar Eyjamanna næstu árin með skipulagðri stórsókn í okkar hagsmunamálum, á okkar forsendum.
Ég vil geta sagt við barnabörnin mín: Ég lagði mitt lóð fram af öllum þunga svo að þið getið vonandi stolt sagt: „því hér á ég heima afi“.

Ráðumst í stórsókn í okkar lífsgæðum og hagsmunagæslu kæru Vestmannaeyingar. Því hér eigum við heima.

Upp með sokkana.

Eyþór Harðarson,
Oddviti D-lista Sjálfstæðisflokksins
í Vestmannaeyjum

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is