07.05.2020
Á þriðjudaginn sigldi nýja Vestmannaey VE inn í Vestmannaeyjahöfn með fullfermi af fiski að aflokinni 48 stunda veiðiferð.
Á meðfylgjandi mynd sést þegar skipið siglir fram hjá slippnum en í honum er einmitt gamla Vestmannaey, sem bar reyndar nafnið Smáey síðustu mánuðina. Þorbjörn hf. í Grindavík hefur fest kaup á gömlu Vestmannaey og í slippnum er verið að mála skipið með litum hins nýja eiganda.
Þorbjörn hf. fær skipið afhent í næstu viku og mun það fá nafnið Sturla. Gamla Vestmannaey var smíðuð í Póllandi árið 2007 en nýja Vestmannaey kom til landsins í júlímánuði sl. Nýja skipið var smíðað í skipasmíðastöð Vard í Aukra í Noregi ásamt systurskipinu Bergey.

Ljósm. Arnar Richardsson