Streitustjórnun á tímum óvissu

Sú óvissa sem við stöndum frammi fyrir þessa tímana veldur okkur óhjákvæmilegri streitu. Dýpst í kjarna heilans er sífellt verið að gefa merki um einhverskonar ógn sem þar af leiðandi hefur áhrif á taugakerfið okkar sem setur sig í stellingar að vera tilbúin að takast á við ógnina. Með tímanum byggist upp spenna innra með okkur vegna utanaðkomandi aðstæðna sem við höfum takmarkaða og jafnvel enga stjórn á. Óstjórn á tilfinningum fer að gera vart við sig með því að missa stjórn á skapi, sýna viðkvæmni eða falla í ótta sem byggist á óraunhæfum hugsunum.

Streitan sem heltekur mann fer að koma fram í hegðun okkar, við sofum illa, notum hugbreytandi efni í auknum mæli eins og áfengi, lyf, koffín, forðumst félagsleg samskipti, nennum ekki að hreyfa okkur, verðum pirruð eða viðkvæm í samskiptum.

Það er eðlilegt að óttast eigin heilsu og heilsu nákominna. Sá ótti er eðlislægur og tilheyrir okkar bjargráði sem snýr að því að lifa af.

Streitan getur orðið yfirþyrmandi vegna óvissunnar og orsakað sterkar tilfinningar sem hafa mikil áhrif á líðan og velferð okkar.

Við erum öll með ólík viðbrögð við streitu sem orsakast af óvissu. Viðbrögðin ráðast af persónuleika, reynslu, hugarfari, lífsstíl, félags-legum aðstæðum og fleiru sem hefur mótað okkur.

Óvissan hefur samt áhrif á okkur öll og það er upp á hverjum og einum komið að ná stjórn á eigin viðbrögðum sökum streitu sem við höfum ekki stjórn á. Þá skiptir öllu máli að ná stjórn á því eina sem er undir okkar stjórn sem eru „eigin viðbrögð“.

Viðbrögð koma fram í hegðun og hugsun, mikilvægt er að tileinka sér meðvitund um það hvernig eigin viðbrögð eru ósjálfráð í aðstæðum sem valda manni streitu.

Fyrst og fremst þarf að huga að eigin þörfum sem snúa að því að styrkja þolvarnir gagnvart álagi. Gott er að hafa í huga regluna með „H-in fjögur“ sem eru Hreyfing, Hvíld, Hollusta og Hugarfar.

Hreyfing er mikilvæg til að losa um spennu í taugakerfinu og líkamanum öllum, með hreyfingu fáum við endorfín sem eykur á vellíðan. Hreyfðu þig eitthvað smá frekar en ekki neitt, 15 mín á dag er góð byrjun.

Hvíld er mjög mikilvæg fyrir heilann og taugakerfið, hvíld felur í sér að ná endurnærandi svefni og einnig er nauðsynlegt að ná góðri heilahvíld með því að slökkva á hávaðanum í huganum. Hugleiðsla, Netflix (eitthvað sem kemur þér til að hlægja, ekki spenna taugakerfið upp með spennuefni), púsl, líkamlegt erfiði, prjóna, lita eða teikna, krossgáta, sudoku, tónlist, matreiðsla eða hvað sem það er sem hjálpar þér að slökkva á áhyggjum og hávaða hugans.

Hollusta er mikilvæg þegar kemur að því að halda jafnvægi á taugakerfinu. Mataræði hefur bein áhrif á það hvernig taugakerfið spennist upp, koffín kemur manni í gírinn, áfengi róar mann niður. Meðvitund um það hvað maður setur ofan í sig er mikilvæg, hrein fæða, vatnsneysla og vítamín geta hjálpað taugakerfinu að ná jafnvægi.

Hugarfar hefur mikil áhrif á þá streitu sem hver og einn upplifir. Við höfum alltaf val um það „hvernig“ hugsanir við veljum og „hvaða“ túlkun við leggjum í hlutina. Oft er streita innra ástand frekar en eitthvað sem er utanaðkomandi. Gott er að spyrja sig „Hversu mikil er mín innri streita?“ og „Er ég að skapa mína eigin streitu með hugarfari og viðhorfum mínum?“.

Til að hrekja blekkingu hugans er gott að tileinka sér rökhugsun með því að spyrja sig „Er þetta hugsun eða staðreynd?“.

Öll höfum við þörf á því að hlúa að nákomnum, en mikilvægt er að hlúa fyrst að sjálfum sér og svo tékka á þeim sem standa manni næst. Þetta er sama reglan og í flugvélum, fyrst setur þú grímu á þig og svo hlúir þú að öðrum.

Fréttamiðlar dæla út neikvæðum óttafréttum, takmarkaðu fréttalestur, einblíndu bara á staðreyndir og ekki leyfa vangaveltum eða orðrómi hafa áhrif á hugsanir og viðhorf þín.

Hugaðu að þínum eigin þörfum, finndu tíma til að hlúa að þér og stunda áhugamál þín.

Styrktu tengslanet þitt, tjáðu þig og reyndu að fá og sjá önnur sjónarhorn.

Covid er að skapa stand í samfélagi okkar sem við höfum enga stjórn á, þess vegna þarf hver og einn að tileinka sér æðruleysi og breyta því sem maður getur gert sem er „Eigin viðbrögð“.

www.hugarheimur.is

 

Ragnheiður Guðfinna

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is