Það er flestum kunnugt um að Húsnæðiskostur Tónlistarskólans í Vestmannaeyjum er farinn að þarfnast verulegra úrbóta. Húsnæðið er orðið gamalt og aðgengi sérstaklega fyrir hreyfihamlaða ekki eins og best verður á kosið. Hamarskóla hefur gjarnan vantað matar- og samkomusal og frístundaverið hefur verið í húsnæði sem ekki var hannað fyrir starfsemi þess og þörf hefur verið á að koma í hentugra húsnæði til frambúðar og tengja það við skólann.
Undirrituð hafa barist hart fyrir því að gert verði ráð fyrir fjármagni í fjárhagsætlun sem fari í stækkun Hamarskóla þannig að þar rúmist einnig starfsemi Tónlistarskólans og frístundavers sem og að þar verði matar- og hátíðarsalur fyrir starfsemi skólanna.
Í fyrra lögðum við fram tillögu þess efnis að lagt yrði fjármagn í að hefja þessa vinnu fyrir síðustu fjárhagsáætlunargerð. Því miður hlaut sú tillaga ekki hljómgrunn meirihlutans sem felldi tillöguna.
Við erum því mjög stolt af því að á 1552. fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja var ákveðið að gera ráð fyrir fjármagni í fjárhagsáætlun í að hefja þetta verkefni. Við fögnum þessari ákvörðun sem mun stórbæta þjónustu, aðgengi og aðstöðu Hamarskóla, Tónlistarskóla og Frístundavers. Umræddar hugmyndir munu hafa ákveðna rekstrarhagræðingu í för með sér auk þess sem þær samræmast hugmyndum sveitarfélagsins um samræmda þjónustu við börn. Hér er verið að stíga stórt skref í bættri þjónustu við nemendur grunn- og tónlistarskóla sveitarfélagsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Fræðsluráði Silja Rós Guðjónsdóttir og Ingólfur Jóhannesson