ÍBV stelpurnar eru úr leik í Mjólkurbikarnum eftir tap gegn liði Stjörnunnar á Hásteinsvelli í gær, fjögur mörk Stjörnunnar gegn einu frá ÍBV.
Jasmín Erla Ingadóttir tók forystuna fyrir Stjörnuna eftir fimm mínútna leik með skot úr teignum áður en Gyða Kristín Gunnarsdóttir nýtti sér mistök í vörn Eyjaliðsins fimm mínútum síðar og bætti við öðru. Staðan var 0-2 þegar gengið var til búningsherbergja.
Stjörnukonur gerðu þriðja markið á 55. mínútu og var Jasmín aftur á ferðinni. Hún potaði boltanum í netið eftir að Guðný Geirsdóttir hafði kýlt boltann út í teig.
Haley Marie Thomas minnkaði muninn fyrir ÍBV tíu mínútum síðar áður en Jasmín fullkomnaði þrennu sína á 79. mínútu og skaut Stjörnukonum í undanúrslit bikarsins.