Gunnar Elvarsson 13 ára og Guðni Halldórsson 12 ára hafa mikinn áhuga á sjávarútveginum
Við tókum stutt spjall við frændurna hvernig stæði á því að þeir hefðu svona mikinn áhuga á þessu.
Þeir voru fljótir að svara því, þeir hefðu bara alltaf haft mikinn áhuga á bátum, þeir eru svo stórir og þetta er svo áhugavert. Þá hvernig þeir veiða og hvaða veiðarfæri eru notuð.
Gunnar og Guðni fylgjast vel með Marine Traffic en það er app sem sýnir hvar bátarnir eru á veiðum. Þeir frændur fara oft í viku niður á bryggju og taka á móti bátunum og spyrja þá sjómennina út hvernig veiðin hafi verið og hvað þeir eru með mikið.
Þeir eru alveg með á hreinu hvernig vertíðarnar eru og núna er til dæmis loðnuvertíð og voru þeir alveg klárir á því hvaða bátar væru á loðnuveiðum héðan frá Vestmannaeyjum.
Gunnar og Guðni hafa báðir fengið að fara í stutta túra, annar á loðnu og hinn á síld. Gunnar verður ekkert sjóveikur en Guðni verður enn pínu sjóveikur en veit að það mun sjóast af sér og eru þeir báðir staðráðnir í að verða sjómenn. Stefna þeir báðir á Stýrimannaskólann eftir framhaldsskóla. Þeir eru báðir með á hreinu að maður byrjar ekki á stærstu og flottustu skipunum heldur á þeim minni og svo vinnur maður sig upp.
Draumabáturinn til að fara á sjó í dag, hjá Gunnari er það Heimaey eða Sigurður og hjá Guðna er það Breki. Að hans sögn er það glæsilegur bátur, enda nýlegur.
Að lokum segja þeir að þeim finnst áhugaverðast að skoða öll tækin í brúnni og sjá hvernig þetta virkar allt og að sjálfsögðu mjög gaman að veiða sjálfan fiskinn.