25.10.2020
Félagsmiðstöðin okkar hóf stafsemi sína á dögunum við mikinn fögnuð GRV krakkanna. Tígull heyrði í Breka Ómarssyni sem sér um starfsemina.
Hverjir starfa í Félagsmiðstöðinni?
Það eru fjórir starfsmenn sem munu starfa í félagsmiðstöðinni í vetur. Öll hafa þau reynslu að vinna með krökkum og erum við hjá Vestmannaeyjabæ virkilega lánsöm að hafa fengið þetta fólk til þess að vinna hjá okkur. Guðbjörn Guðjónsson hefur starfað tvívegis hjá okkur í félagsmiðstöðinni en hann vinnur einnig upp í grunnskóla sem stuðningsfulltrúi auk þess að vera leiðbeinandi á leikskólanum Sóla. Gunnar Karl er einnig að starfa hjá okkur í annað skipti og hefur verið að mennta sig í millitíðinni, auk þess þá er hann að læra í mastersnámi með félagsmiðstöðinni. Ingunn Silja er að hefja annað starfsár hjá okkur auk þess að hafa starfað við frístund í leiðinni og haldast þessi störf vel í hendur. Jón Kristinn er að vinna hjá okkur í fyrsta skipti en hann lauk námi við framhaldsskólann seinasta vor, hann starfar einnig á frístund og spilar með ÍBV í knattspyrnu. Allir okkar starfsmenn munu koma til með að starfa bæði með yngra sem og unglingastiginu í vetur.
Hvernig er opið hjá ykkur og þá fyrir hvaða hópa ?
Við bjóðum upp á opnunartíma fyrir tvö mismunandi stig. Annars vegar er opið fyrir 5. 6. og 7. bekk frá klukkan 16:00 – 18:00 alla mánudaga og miðvikudaga. Síðan er opið fyrir unglingastigið eða 8. 9. og 10. bekk frá 19:30 – 22:00 alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Það hefur verið vel mætt fyrstu vikuna og hlökkum við mikið til vetrarins með þessum krökkum.
Hvað er verið að gera helst?
Markmið með félagsmiðstöðinni er fyrst og fremst að veita krökkunum tækifæri til samveru og til þess að stunda heilbrigðar tómstundir undir leiðsögn okkar reyndu tómstundaleiðbeinenda. Það verður mikið um að vera hjá okkur í vetur og sérstakt þema og keppnir í boði vissa daga, en það verður auglýst þegar félagsstundastarfið hjá okkur fer á fullt. Auk þess að um mikið af afþreyingu að ræða. Þá er hægt að horfa á sjónvarp, spila tölvuleiki, spila borðspil, borðtennis, pool, þythokky ásamt fl. Félagsmiðstöðin er komin á nýjan stað, þá í hvíta húsinu á Strandvegi sem er staðsett við hliðina á krónunni.
Er enn brjóstsykursgerðin í boði?
Stefnan er að halda áfram brjóstsykurgerð í vetur. Hún hefur vakið mikla lukku síðustu ár og vonandi getum við veitt krökkunum tækifæri á að prufa hana sem hafa ekki fengið að gera það áður.
Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?
Við tökum spennt á móti öllum krökkum frá 5-10. bekk með bros á vör. Við vonumst til að sjá sem flesta í vetur og þeir sem hafa ekki prufað að mæta í félagsmiðstöðina verða ekki sviknir af því flotta starfi sem fer fram í félagsmiðstöðinni. Sjáumst hress og kát.