08.10.2020
Tónlistarskólinn fór af stað með eðlilegum hætti að mestu nú í haust. Fysti kennsludagur var 26.ágúst og eru skráðir nemendur nú 112, sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár.
10 starfsmenn starfa við skólann í um 9 stöðugildum.
Boðið er upp á kennslu á flest hljóðfæri og er í ár kennt á 15 mismunandi hljófæri. Auk þess eru kenndar tónfræðigreinar og starfræktir tónlistarhópar svo sem skólalúðrasveit í tveim hópum, strengjasveit og tilfallandi samspilshópar. Kennarar skólans hafa einnig séð um tónmenntakenslu í Hamarsskóla og söngstundir á Víkinni 5 ára deild.
Samstarf
Undir hatti skólans starfa tveir kórar, þ.e. Karlakór Vestmannaeyja og nýstofnaður Kvennakór Vestmannaeyja. Þá er þar einnig Lúðrasveit Vestmannaeyja. Þetta eru sjálfstæð félög sem nýta húsnæði og aðstöðu skólans auk þess sem þannig hagar að stjórnendur hópanna eru starfsmenn skólans.
Tilvist þessara tónlistarhópa er mikilvægur partur í menningarflóru Eyjanna og er sérlega ánægjulegt að hafa starfsemina undir þaki tónlistarskólans, en einn tilgangur skólans er einmitt að efla möguleika almennings til tónlistariðkunar.
Covid
Að öllu jöfnu er nokkuð um uppákomur á vegum skólans og þeirra hópa sem þar starfa. Eins og hjá tónlistarfólki almennt þá hefur mun minna verið um slíka viðburði. Allar ferðir tónlistarhópa, svo sem landsmót skólahljómsveita, nótan (uppskeruhátíð tónlistarksóla) og óskalög í Hörpu, sem stefnt var að senda á þátttakendur hafa fallið niður.
Að öðru leyti hafa áhrif veirunnar ekki verið svo mikil nú í haust og hefur skólahaldið haldist með eðlilegum hætti. Nýjar reglur um samkomutakmarkanir koma ekki við starfsemina að miklu leyti, en þó er ætlast til að takmarka aðgang utnaðkomandi að skólabyggingum. Af þeim sökum hafa eingöngu nemendur og starfsmenn aðgang að skólanum næstu tvær vikurnar. Sú aðgerð hefur áhrif á æfingar kóra og lúðrasveitar auk þess sem tónfundir sem voru að fara af stað falla niður til að byrja með.
Að lokum
Þrátt fyrir ástandið, þá gengur starfsemin vel og engin ástæða til annars en horfa björtum augum fram á veg. Þá má nefna að ýmislegt gott hefur komið út úr Covid svo sem eins og að kynna fyrir starfsfólki og nemendum fjölbreyttar kennsluaðferðir með aðstoð samskiptatækni. Það er reynsla sem kemur sér vel og er nú þegar byrjuð að hafa áhrif til betri vega.
Það er ástæða til að hvetja alla til að huga að tónlistarnámi. Það margborgar sig að setja inn umsókn ef vilji er til þess. Það er einfalt að gera á slóðinni hér að neðan.
Ef ekki er laust pláss þá dettur umsóknin inn á biðlista þar til losnar pláss.
Jarl Sigurgeirsson skólastjóri Tónlistaskóla Vestmannaeyja
Greint er frá þessu á vef Vestmannaeyjabæjar.