Fimmtudagur 21. september 2023

Starfsemi og helgihald Landakirkju

24.09.2020

Öruggur vettvangur okkar allra

 

Í Landakirkju fer fram ýmis konar starfsemi sem leidd er af frábæru fólki. Margir leita til kirkjunnar og starfsemi hennar og oftar en ekki varðar kirkjan og athafnir hennar lífsgöngu okkar bæði sem einstaklingar og samfélag. Hér á eftir verður aðeins farið yfir þá starfsemi sem fram fer í Landakirkju eða á hennar vegum.

 

Helgihald – Sunnudagurinn

Helgihald kirkjunnar er dágóður partur af starfi kirkjunnar og er leitt af prestunum, sr. Guðmundi Erni og sr. Viðari, en þar er sunnudagurinn í öndvegi.

Þrennt er fast í hendi á sunnudögum. Í fyrsta lagi er það sunnudagaskólinn kl. 11 sem einkennist af miklu fjöri, söng, fræðslu og dansi og er leiddur af prestunum og ýmsum gítarleikurum eins og Gísla Stefáns, Jarli og Leó Snæ. Þá hafa fermingarbörn einnig komið að sunnudagaskólanum með leikþáttum.

Í öðru lagi er guðsþjónusta sunnudagsins kl. 14. Í henni komum við saman til að lofa skapara okkar og fela í hans hendur gleði okkar og sorgir, daglegt strit og amstur, væntingar og þrár, okkur sjálf og okkar nánustu. Stundum eru sérstakar þema- eða tónlistarmessur sem eru þá auglýstar sérstaklega.

Í þriðja lagi er æskulýðsfélagið með reglulega fundi kl. 20. Gísli Stefáns, æskulýðsfulltrúi Landakirkju, leiðir þær samverur ásamt leiðtogum úr félaginu. Æskulýðsfélagið er ætlað krökkum á aldrinum 13-16 ára og er að sjálfsögðu opið öllum.

Skírnir, hjónavígslur, húsblessanir o.fl.

Þrátt fyrir að sunnudagurinn sé nokkuð fastmótaður er ekki endilega fyrirséð hvenær börn eru borin til skírnar eða hvenær einstaklingar ákveða að ganga í hið heilaga. Skírnir geta farið fram í kirkjunni, heimahúsi eða hinum ýmsu sölum sem Eyjarnar hafa upp á að bjóða. Í skírninni felum við Guði barnið og framtíð þess á sama tíma og beðið er fyrir því að barnið „megi vaxa í visku og náð“ líkt og sagt var um frelsarann sjálfan. Vert er að minnast á að fullorðnir geta einnig verið skírðir ef þeir voru ekki skírðir sem barn.

Hjónavígslur eru sannarlega gleðistundir í lífi einstaklinga og litast hjónavígslan eðlilega af því. Hjónavígslur geta verið fjölmennar eða fámennar og geta farið fram í kirkjunni, heimahúsi eða undir berum himni – hinu náttúrulega altari. Þá eru einnig ýmsar aðrar athafnir í boði eins og húsblessanir eða sérstakar bænastundir.

Best er að hafa samband við presta Landakirkju, sr. Guðmund Örn og sr. Viðar, vegna skírna og hjónavígslna eða annarra athafna.

Æskulýðsstarf kirkjunnar

Landakirkja heldur úti metnaðarfullu barna- og æskulýðsstarfi sem samanstendur af sunnudagaskólanum sem áður hefur verið nefndur, krakkaklúbbunum 1T2 (1. og 2. bekkur), 3T4 (3. og 4. bekkur) og TTT (5.-7. bekkur), Æskulýðsfélagi Landakirkju og KFUM&K í Vestmannaeyjum (8. bekkur – 1. ár í framhaldsskóla), hreyfingu ungleiðtoga innan Landakirkju og Kirkjustarfi fatlaðra.

Krakkaklúbbarnir þrír í Landakirkju eru á miðvikudögum yfir vetrarmánuðina og eru vel sóttir. Sterkir hópar hafa myndast í gegnum árin sem haldast alveg upp í unglingastarfið. Hóparnir hittast í safnaðarheimilinu, eiga helgistund uppi í kirkju með söng, sögu og bæn og loks tekur við formleg dagskrá í safnaðarheimili, uppfull af skemmtilegum leikjum, þrautum og öðru spennandi.

Æskulýðsfélag Landakirkju og KFUM&K í Vestmannaeyjum heldur úti öflugu starfi fyrir unglinga í 8. bekk og upp í fyrsta ár í framhaldsskóla. Starfið er byggt í kringum æskulýðsfundi sem haldnir eru á sunnudagskvöldum og eru líkir fundum krakkaklúbbanna nema lengri og kraftmeiri. Hópurinn hittist svo á opnu húsi á fimmtudagskvöldum í safnaðarheimilinu þar sem er engin eiginleg dagskrá en þó nóg um að vera í boði ungleiðtoga starfsins. Félagið sækir reglulega æskulýðsmót á vegum Þjóðkirkjunnar og KFUM og KFUK á Íslandi sem og að ferðast erlendis, aðalega Norðurlandanna á æskulýðsmót.

Ungleiðtogar Landakirkju hafa verið þjálfaðir sérstaklega af æskulýðsfulltrúa og KFUM og KFUK á Íslandi til að leiða kristilegt æskulýðsstarf. Alla jafna eru 8-12 leiðtogar virkir í hópnum og starfa þeir sem sjálfboðaliðar innan Æskulýðsfélagsins og krakkaklúbbanna.

Meðlimir kirkjustarfs fatlaðra hittast annan hvern mánudag yfir vetrarmánuðina. Haldið er upp á upphaf og endi hvers vetrar með veglegum veislum og gleði en eins og búast má við kunna meðlimir starfsins heldur betur að skemmta sér.

Landakirkja og safnaðarheimilið

Hér í Eyjum búum við svo vel að því að hafa veglegt safnaðarheimili sem tengt er kirkjunni. Safnaðarheimilið nýtist að sjálfsögðu fyrst og fremst fyrir starfsemi kirkjunnar en þó er hægt að fá afnot af sal þess til annarra viðburða eins og fyrirlestra, tónleika (sem geta einnig farið fram í Landakirkju) eða veislna. Salur safnaðarheimilisins getur tekið allt að 150 manns. Þá er einnig ágætis fundaraðstaða í boði í kennslustofu safnaðarheimilisins.  Leiga á salnum er í höndum Halldórs Hallgrímssonar staðarhaldara og Kvenfélags Landakirkju.

Félög og hópar í kirkjunni

Ýmis félög eiga fastan sess í kirkjunni; Kvenfélag Landakirkju, Kór Landakirkju, Vinir í bata (12 sporin) & AGLOW. Kvenfélag Landakirkju styður kirkjuna með ýmsum hætti þrátt fyrir að það birtist nú á dögum einna helst í kringum erfidrykkjur í safnaðarheimilinu og kyrtlaleigu fyrir fermingarbörn.

Kór Landakirkju skipar veglegan sess í kirkjunni, starfi hennar og helgihaldi. Kórinn syngur í athöfnum kirkjunnar og jólatónleikar kórsins hafa fest sig í sessi í jólaundirbúninga Eyjamanna. Stjórnandi kórsins er Kitty Kovács og formaður hans er Sóley Linda Egilisdóttir. Vinir Vinir í bata hittast á mánudögum í safnaðarheimilinu og AGLOW, félag kristinna kvenna, hittist einnig reglulega í safnaðarheimilinu.

Ýmsir aðrir hópar hafa einnig verið starfandi í Landakirkju með einum eða öðrum hætti; sorgarhópar, fundir fyrir aðstandendur Alzheimer-sjúklinga, ýmsir bænahópar, o.fl.. Allir þessir hópar og félög skipta kirkjuna miklu máli og væri hún óneitanlega fátækari án þeirra. Skiptir kirkjuna miklu máli að þessi félög séu sem virkust og fjölmennust.

Einum hóp má þó ekki gleyma en það er sóknarnefnd kirkjunnar en í henni eru einstaklingar sem hafa áhuga á starfi kirkjunnar og er hlutverk nefndarinnar að styðja við starf kirkjunnar með ýmsum hætti. Fundar hún reglulega ásamt prestum kirkjunnar. Alls eru 14 einstaklingar í sóknarnefnd hér í Eyjum og formaður hennar er Andrea Elín Atladóttir.

Stuðningur, viðtöl og sálgæsla

Stuðningur og sálgæsla er að sjálfsögðu í boði hjá prestum Landakirkju. Hægt er að leita til þeirra fyrir trúarlega leiðsögn, hjónabandsráðgjöf, áfallahjálp og stuðning hvort heldur sem er við einstaklinga eða fjölskyldur. Öll sálgæsla prestanna er gjaldfrjáls og hægt að panta tíma hjá þeim, jafnvel með skömmum fyrirvara.

Landakirkja og COVID-19

Við komum saman í Landakirkju sem samfélag bæði í gleði og sorg og því er ljóst að sá vettvangur þarf að vera öruggur bæði þeim sem koma saman til athafna eða annarrar starfsemi í kirkjunni sem og þeim sem standa þeim að baki. Engar sérstakar sóttvarnarreglur gilda um kirkjulega starfsemi en þó er hún þeim ekki undanskilin. Sömu fjöldatakmarkanir gilda í kirkjunni sem annars staðar rétt eins og fjarlægðarreglur. Sóttvarnarreglur yfirvalda eru virtar í starfi kirkjunnar og eiga allir að geta leitað til kirkjunnar í öryggi og vissu.

Landakirkja – Kirkjan okkar

Allt þetta er þó einungis brot af þeirri starfsemi sem fram fer á vegum Landakirkju. Öll fyrrgreind starfsemi væri þó engin ef ekki væri fyrir fólkið sem ræktar hana eða stendur henni að baki. Landakirkja er ekki einungis byggingar eða umgjörð heldur einnig innihald: fólkið í kirkjunni sem hefur trúna að leiðarljósi. Án fólksins og trúarinnar væri engin Landakirkja.

Allir eru ávallt velkomnir í Landakirkju, kirkju okkar allra.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is