Staðan í Landeyjahöfn – Vestmannaeyjum alls ekki sæmandi

Bæjarstjórnarfundur Vestmannaeyja fór fram í gær í með aðstoð fjarfundabúnaðar.

Í fjarveru Elís Jónssonar á bæjarstjórnarfundi sat Sveinn Rúnar Valgeirsson, varamaður, í hans stað fyrir hönd H-listans. En Sveinn Rúnar sat síðast bæjarstjórnarfund fyrir 28 árum síðan þá fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Það var vel til fundið að Sveinn Rúnar sæti fundinn enda umræða um samgöngumál á dagskrá og hafa fáir kynnt sér betur og haft skoðanir á Landeyjahöfn en hann.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, hóf umræðuna og rakti stöðuna á Landeyjahöfn í dag, sem við þekkjum öll, ónægt dýpi veldur því að ferðir hafa fallið niður. Þá hefur veðrið valdið því að erfitt hefur reynst að dýpka þann tappa sem myndast hefur í hafnarmynninu með þeim dýpkunarskipakosti sem til boða stendur.

Í máli sínu sagðist Íris vera reglulega í sambandi við fulltrúa Vegagerðarinnar. Á fundi með þeim og vegamálstjóra, þann 24. Janúar síðastliðinn ítrekaði Íris óánægju og áhyggjur Vestmannaeyjabæjar af tæknilegri getu Björgunar að sinna dýpkun við Landeyjahöfn. En Vestmannaeyjabær gerði slíkt hið sama þegar tilboði Björgunar í dýpkunina var tekið árið 2018.

„Það skiptir máli yfir háveturinn að þegar fáir litlir gluggar myndast til að dýpka verður getan að vera til staðar,” sagði Íris í máli sínu.

En um er að ræða aðeins rúmlega 9000 rúmmetra sem moka þarf úr hafnarmynninu sem ætti taka skamman tíma með réttum tækjakosti.

„Nauðsynlegt er að krafa um aukna tæknilega getu verði gerð í útboði sem verið er að undirbúa hjá Vegagerðinni og verður væntanlega boðið út um mánaðarmótin mars/apríl,“ sagði Íris. Þá sagði hún að samkvæmt sínum heimildum er ekki til skip hér á landi sem getur sinnt Landeyjahöfn sem skildi en löngu tímabært er að slíkt skip sé tiltækt við Íslandsstrendur. Undir þetta tóku vegamálastjóri og fulltrúar Vegagerðarinnar og fullvissuðu bæjarstjóra um að slíkt ákvæði yrði í útboðinu. „Vegagerðin segist leita allra leiða til þess að opna höfnina meðal annars er verið að leita að skipi erlendis sem gæti komið hingað með skömmum fyrirvara og aðstoðað við að opna höfnina,“ sagði Íris og ítrekaði að það væri algjörlega óásættanlegt að geta núverandi skips sé eins og hún er.

Síðast lokaðist Landeyjahöfn vegna ónógs dýpis í nóvember 2018 og opnaði ekki aftur fyrr en í byrjun maí 2019. Þetta sagði Íris minna okkur óþægilega á það að nú verður að klára seinni hluta úttektar á höfninni sem Alþingi samþykkti að gera 2020. „Samkvæmt því sem sagt var á fundinum þá er vinna við það hjá Vegagerðinni að klára lýsinguna á seinni hlutanum og við þurfum bara að ganga á vel eftir því að það gerist sem fyrst. Af því að gera höfnina að því sem okkur var lofað skiptir miklu máli.“

Undir þetta tóku aðrir bæjarfulltrúar. Sveinn Valgeir sagði þá mynd sem dregin er upp í Landeyjahöfn samkvæmt nýjustu mælingum alls ekki vera neina nýlund. „Þetta eru gamalkunnar myndir,“ sagði Sveinn og bætti við „það er nauðsynlegt að fara í þá úttekt sem um var talað og klára það verk því staðan þarna upp frá er Vestmannaeyjum alls ekki sæmandi.“
Hildur Sólveig tók undir áhyggjur bæjarstjóra og minnti einnig á að áfram þyrfti að halda áfram að skoða aðrar lausnir en dýpkunarskip, til að mynda fastur búnaður við hafnarmynnið.

„Ótraustar siglingar til Landeyjahafnar undanfarnar vikur hafa haft slæm áhrif á samfélagið í Vestmannaeyjum bæði á íbúa og fyrirtæki. Mikilvægt er að Vegagerðin bregðist við til að hægt verði að opna höfnina sem allra fyrst. Þá ítrekar bæjarstjórn mikilvægi þess að við útboð á dýpkun hafnarinnar verði gerð rík krafa um tæknilega getu við dýpkun. Úttekt á höfninni þarf að ljúka eins fljótt og auðið er til að treysta sjósamgöngur við Vestmannaeyjar,“ segir í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search