Þriðjudagur 23. júlí 2024

Staðan á Norðurlandi vestra

Unnur Valborg Hilmarsdóttir skrifar:

Ég held að fólk geri sér enga grein fyrir áhrifum veðursins undanfarna daga á líf fólks hér á Norðurlandi vestra (og víðar á landsbyggðinni). Ég og mín fjölskylda getum ekki yfir neinu kvartað þó rafmagnslaust hafi verið í hátt í 40 klukkustundir. Við höfðum hita á húsinu, áttum batteríisútvarp, ég hafði hlaðið 2 hleðslubanka svo ég hafði hlaðinn síma allan tímann, nóg var af kertum, 2 luktir og nóg af rafhlöðum. Í húsinu er varmaskiptir svo ég gat látið heitt vatnið renna beint í kakóbollana svo það kom ekki að sök að við vorum ekki með prímus. Við áttum nægan mat þó flestar máltíðir væru kaldar en reyndar er ótrúlegt hvað hægt er að hita mikið með heitu vatni einu. Skóflunni hafði ég stungið inn í forstofu sem kom sér vel því ítrekað þurftum við að moka okkur út.

Það kann að vera að einhverjum þyki þetta kósí og vissulega eru myndir sem ég hef birt á samfélagsmiðlum jólalegar að sjá. En það er fátt kósí og jólalegt við eftirfarandi (samantekið úr stöðufærslum vina á fb – tekið upp orðrétt – vona að viðkomandi fbvinir fyrirgefi að þetta sé tekið upp án leyfis):

– Enn rafmagnslaust. Hiti inni 7,4°C. Símasamband en internet kemur og fer.
– Búin að hella niður hátt í 1000 lítrum sem voru í mjólkurtanknum. Það má ekki selja mjólk sem lendir í kælirofi.
– Fordinn stendur sig með prýði. Hann er notaður til að hlaða símana og er eina farartækið á bænum sem ekki er lokað inni eða týnt í skafli.
– Kýrnar fá bara vatn og hey, ekkert kjarnfóður og ekkert mjólkað…Við þrífum básana ekstra vel og ekstra mikið af sagi í básana. Þær voru bara ekkert pirraðar við mig áðan. Sögðu bara að við yrðum að sætta okkur við að þær færu ekki í fulla nyt aftur eftir svona meðferð.
– Við erum komin í á annan sólarhring af rafmagnsleysi – og af því að húsin okkar eru hituð með rafmagni; þá er ástandið orðið vægast sagt kuldalegt. Það er úlpuveður inni, það gengur hratt á kerta- og batterísbirgðir heimilisins.
– [bóndinn] hefur verið að dunda sér við að gefa og sæða í svarta myrkri til þess að sauðburðurinn okkar fari ekki í fokk.
– Í gær fór ég að vitja að hrossum í vonsku veðri kom að 10 hrossum í snjó og var byrjað að fenna yfir þau náði að bjarga þeim úr snjónum. Í morgun fór ég aftur, sá í snoppuna á henni Freyju. Fórum að moka henni upp, henni var náð með góðra hjálp nágranna. Freyja er núna inn í hesthúsi og vona ég svo innilega að hún nái sér. ♥️ maður vonar að enginn þurfi að lenda í þessu því þó maður sé með breitt bak þá er stutt í tárin.
– Það var svo sannarlega áskorun að vinna við þessar aðstæður, sinna fólkinu okkar [á heilbrigðisstofnuninni] með höfuðljós og með nokkkur batterískerti.
– Hér hefur t.d. verið rafmagnslaust í tæpa 51 klukkustund!
– það verður kalt… En við förum undir sæng og höldum okkur þar.
– Komið á þriðja sólarhring í stöðugu rafmagnsleysi á mínu heimili.
– Rafmagnslaust síðan 14 í gær, hitaveitulaust síðan í nótt og sömuleiðis símasambandslaust.
– Sjúkrahúsið á Hvammstanga þar sem mamma dvelur, hefur nú verið rafmagnslaust síðan um miðjan dag í gær, sjúkrahúsið er án vararafstöðvar.
– þurfti í óveðrinu að finna til lyf handa sjúklingum í svartamyrkri með vasaljós á enninu. Bærinn rafmagnslaus og ekkert varaafl.
– Fékk loksins langþráð símtal að heiman þegar pabbi og [bróðir] náðu að brjótast út á þjóðveg og ná daufu símasambandi loksins þegar hríðinni slotaði. Allt í lagi með bæði fólk og eignir en ennþá rafmagnslaust og kalt orðið í húsum. Ef ekki kemst rafmagn á á morgun gætu leiðslur farið að gefa eftir í kuldanum framundan.
– Hann hætti lífi sínu til að reyna að koma rafmagni á svæðið í þessu bandvitlausa veðri sem hefur verið síðustu daga. snjóbíllinn sem hann var á valt á leiðinni og þurfti hann að ganga á næsta bæ í aftakaveðri til að komast í skjól, svo hélt hann áfram á endastöð sem tók í allt 9 klst (tekur venjulega 30 mín) einnig var símasambandslaust svo ekki var hægt að ná í hann og vissum við fjölskyldan ekkert hvar hann var niður kominn í allt of langan tíma! Hann stóð svo rafmagnsvaktina í bandvitlausu veðri í einn og hálfan sólarhring.
– Bjargað af ísköldum bænum ásamt tveimur ungum dætrum (af visir.is)

Ein kunningjakona mín var ein heima, án hita, en náði að hita sér vatn með teljósum…

Það væri hægt að halda áfram.

Það er árið 2019!

Eins og sjá má þá hefur ástandið hér verið graf alvarlegt og sér ekki fyrir endan á því enn. Innviðir hér og víða annarsstaðar á landinu eru augljóslega ekki í lagi. Við því verða ráðamenn að bregðast – og það strax. Sveitarstjórnir tveggja sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa ályktað um stöðuna og eins og gefur að skilja er þungt hljóð í sveitarstjórnarmönnum (tenglar í ályktanir þeirra í athugasemd við færsluna).

Það er því ekkert kósí og jólalegt við þetta óveður og eftirköst þess. Það er ekki bara kalt á þeim bæjum sem eru búnir að vera rafmagnslausir lengi heldur eru bændur að verða fyrir eignatjóni og verulegu tekjutapi. Verst er að horfa upp á dýrin, að þurfa að grafa hross upp úr snjó og eru júgurbólgur og annað farið að hrjá sumar kýrnar þar sem ekki er varaafl til að knýja róbóta í fjósum. Því til viðbótar þurfa þau framleiðslufyrirtæki sem hér eru að henda vörum af kælum og framleiðsla liggur eðlilega niðri. Verslanir þurfa mögulega að henda skemmdri kælivöru o.s.frv. Það er því ljóst að um stórtjón er að ræða.

Ég get ekki látið hjá líða að þakka viðbragðsaðilum, björgunarsveitarmönnum, heilbrigðisstarfsfólki, lögreglumönnum, viðgerðarmönnum og konum, og einstaklingum sem hafa staðið vaktina nótt sem dag til að gera líf okkar hinna bærilegra á meðan á þessum hremmingum stendur. Þeirra framlag er ómetanlegt.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search