Staða sérfræðiþjónustu innan Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU)

Heilbrigðiskerfið er einn af hornsteinum samfélagsins og lögum samkvæmt á grunnheilbrigðisþjónusta að vera tryggð öllum landsmönnum. Það er því áskorun að byggja upp heildrænt heilbrigðiskerfi sem tryggir sjúklingum samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi hverju sinni. Í stuttu máli er heilbrigðisþjónustan skilgreind sem þrjú þjónustustig, þar sem heilsugæslan er skilgreind þjónusta á fyrsta stigi, en meira sérhæfðari þjónusta tilheyrir öðru og þriðja þjónustustiginu. Sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss er annars stigs þjónusta og sérfræðiþjónusta á háskólasjúkrahúsi er þriðja og efsta þjónustustigið.

Það er mikilvægt að vera með skýra stefnu í heilbrigðismálum, en stórt skref var tekið þegar stjórnvöld samþykktu fyrir nokkrum árum að innleiða heilbrigðisstefnu sem gildir til ársins 2030. Stefnan kveður á um uppbyggingu á heildstæðu og öflugu heilbrigðiskerfi til framtíðar fyrir okkur öll. Þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni hefur lengi verið áskorun en oftar en ekki reynist erfitt að manna sérfræðistöður utan höfuðborgarsvæðisins. Hjá HSU vinnum við hörðum höndum að því að efla sérfræðiþjónustu eins og kostur er. Þær sérgreinar sem núna eru í boði innan HSU eru krabbameinslækningar, lungnalækningar, meltingarfæralækningar, barnalækningar, geðlækningar, hjartalækningar, kvensjúkdómalækningar, háls-nef- og eyrnalækningar (HNE) og augnlækningar.

Á síðasta ári fóru nær 90% heimsókna sunnlendinga til krabbameinslæknis fram heima í héraði. Þessar tölur sýna glögglega að notendur þjónustunnar kunna vel að meta að fá þjónustuna í nærumhverfinu með tilheyrandi ferða- og tímasparnaði. Mikill fjöldi sunnlendinga leita einnig til HSU vegna heimsókna til lungnalæknis, en rúmlega 60% þeirra sem þurfa á slíkri þjónustu sækja hana í heimabyggð. Á árinu 2021 var aukið við sérfræðiþjónustu í kvensjúkdómalækningum, barnalækningum og geðlækningum, en við horfum fram á mikla aukningu í geðþjónustu innan HSU á komandi árum. Á Selfossi og í Vestmannaeyjum er boðið upp á meltingarfæralækningar og hjartalækningar. HNE læknir hefur lengi komið á starfsstöðina á Selfossi og hafa 40% sunnlendinga nýtt sér þjónustuna, en aðrir sækja hana til höfuðborgarsvæðisins. Á Selfossi hafa um árabil einnig starfað augnlæknar, en nokkrar breytingar eru fyrirsjáanlegar í þeirri þjónustu þar sem fagið er orðið mjög sérhæft og augnlæknar sjá í sífellt minna mæli um sjónmælingar sem hafa færst yfir til sjóntækjafræðinga. Sérhæfðari starfsemi augnlækna hefur færst yfir á einkastofur þeirra vegna sérhæfðs tækjabúnaðar og einungis 15% heimsókna sunnlendinga til augnlækna fara fram í héraði. Til að mæta þessari þróun hefur HSU nú farið þá leið í samstarfi við augnlæknastöðina Sjónlag í Reykjavík að beita fjarlækningatækninni og hófst slík starfsemi í Vestmanneyjum síðastliðið haust. Þar hefur verið komið fyrir sérhæfðum tækjabúnaði, sem keyptur var fyrir gjafafé. Augnrannsóknir eru með þessu framkvæmdar í Vestmannaeyjum og sendar rafrænt til augnlækna Sjónlags í Reykjavík sem lesa úr þeim og gefa viðeigandi meðferðarráðleggingar. Gaman er að segja frá því að þessi þjónusta er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Auk þessara sérgreina sem hér hafa verið taldar upp má nefna að bráðalæknar hafa bæst í okkar raðir, en koma þeirra styrkir þjónustu og uppbyggingu bráðaþjónustu HSU til muna.

Framtíðarstefna HSU hefur verið lögð fram og ætlar HSU að vera leiðandi heilbrigðisstofnun á landsvísu og framúrskarandi vinnustaður. Markmiðin sem við setjum okkur eru metnaðarfull og umfangsmikil, en HSU hefur alla burði til að framfylgja framtíðarstefnunni og ná settum markmiðum. HSU stendur frammi fyrir vaxandi þjónustuþörf á ört stækkandi íbúasvæði. Okkar stærsta áskorun í þeim málum er mönnun sem nauðsynleg er til að tryggja fullnægjandi þjónustu á öllum okkar starfsstöðvum. Með markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu skapast tækifæri til að veita góða heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir takmarkaða mönnun innan starfsstöðvanna. Í þessari vegferð er jafnframt mikilvægt að efla teymisvinnu og þverfaglegt samstarf innan heilsugæslunnar, en þverfagleg þekking og reynsla eykur á skilvirkni þjónustunnar. Innan raða HSU starfar öflugt starfsfólk sem ávallt leggur sig fram við að veita faglega og örugga heilbrigðisþjónustu. Ég get ekki annað en verið stolt af þessum sterka hópi sem gerir HSU að þeirri metnaðarfullri heilbrigðisstofnun sem HSU er. Hvert sem litið er finnum við velvilja starfsmanna til að efla og gera góða hluti enn betri. Með það að veganesti er heilbrigðisþjónustan á Suðurlandi á góðri siglingu sem styður við framtíðarstefnu HSU, sem eins og fyrr segir ætlar að vera leiðandi heilbrigðisstofnun á landsbyggðinni.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU

Greinin birtist fyrst á vefsíðu HSU – hsu.is.

Ljósmynd: Bjarni Sigurðsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search