12.04.2020 kl 14:00
Ónefndur sjónvarpsmaður sagði einhverntíman að hann gæti alveg skrifað undir boðskap Jesú að öllu leyti og lagt trúnað á það sem í Nýja testamentinu stendur, fyrir utan eitt atriði. Og það er upprisan. Honum fannst réttast að sleppa þeim atburði í sögunni af Jesú, enda er þar um svo ótrúlegan atburð að ræða að ekkert upplýst nútímafólk væri tilbúið að skrifa undir þá frásögn þegjandi og hljóðalaust.
En hvað gerðist þá eiginlega? Af hverju lifir sagan af Jesú, lífi hans, dauða og upprisu svo góðu lífi öld fram af öld?
Það virðist nokkuð ljóst að eitthvað algjörlega einstakt gerðist á hinum fyrstu páskum eftir dauða Jesú.
Svar hins ónefnda sjónvarpsmanns er þrátt fyrir allt ekki útí hött.
Hann hefur einfaldlega orðað þann vafa sem bærist í brjóstum svo margra um jafn ótrúlegan atburð og upprisan er. Því ekkert er óhollara, ómerkilegra eða vonlausara en að taka upprisunni sem sjálfsögðum hlut, því hún er ekki sjálfsagður hlutur og hefur aldrei verið.
Að efast er hollt fyrir trúað fólk, að takast á við veruleika upprisunnar er heilnæmt fyrir trúarlíf og þroska.
Þau sem stóðu Jesú næst á sínum tíma efuðust líka í fyrstu, en sannfærðust svo gegn vilja sínum, gegn allri skynsemi.
Boðskapur páskanna er boðskapur fyrir alla daga. Á hverjum degi vöknum við og byrjum nýjan dag, verðum vitni að sífelldri sköpun og framrás lífsins.
Tökum við eftir því? Tökum við þátt í páskum hversdagsins?
Ekkert er svo illt, ekkert svo vonlaust að þar sé ekki von. Boðskapurinn um hina tómu gröf, um að Jesús sé ekki lengur í gröfinni er boðskapur um að aldrei sé allt búið.
Ástandið var t.d. ekki björgulegt föstudaginn langa í Jersúsalem. Meistarinn dáinn, allar vonir brostnar. En svo varð undrið mitt í sorginni. Guðlegt líf vann sigur á dauða veraldar.
Saman munum við, með Guðs hjálp og góðs fólks, komast í gegnum þá erfiðleika sem að heiminumm steðjar.
Guð gefi þér og þínum gleðilega páska.
Guðmundur Örn Jónsson
Prestur í Landakirkju