Söng Ó María mig langar heim fyrir Jógv­an, þegar þeir voru að sökkva

26.12.2020

Ómar Garðarsson tók skemmtilegt viðtal við Ragga Togara sem birtist í laugardagsblaði Morgunblaðsins og nú einnig á 200 mílum.

Hér er brot úr þessu viðtali:

Ragn­ar Þór Jó­hanns­son missti móður sína ung­ur, tók slag­inn við Bakkus og hafði bet­ur. Hef­ur oft­ar en einu sinni kom­ist í hann krapp­an. Horfst í augu við dauðann og var ná­lægt því að drekkja sam­eig­in­legri þjóðarger­semi Íslands og Fær­eyja. Nú er hann kom­inn í út­gerð og með konu og barn, Bjart­eyju Kjart­ans­dótt­ur og son­inn Líam, og horf­ir björt­um aug­um til framtíðar.

„Ragn­ar Þór Jó­hanns­son, líka nefnd­ur Raggi tog­ari er 32 ára og kem­ur úr öll­um átt­um. Eig­um við ekki að segja það þannig. Aðallega sjó­maður, smáút­gerðarmaður, ekki stór og hef­ur aldrei farið hefðbundn­ar leiðir. Er í raun al­farið á móti þeim. Það virk­ar fyr­ir suma en ekki fyr­ir mig. Verð að gera hlut­ina á minn hátt eða alls ekki. Það er áhuga­verðasti þátt­ur­inn í líf­inu, að fara sína eig­in leið. Ég er bara með eina reglu; gerðu það með stæl eða slepptu því. Það á ekki síst við út­gerð og það sama gerði maður þegar maður fékk sér í glas,“ seg­ir þessi vaski sjó­maður sem byrjaði snemma til sjós.

Ragn­ar Þór er fædd­ur og upp­al­inn Eyjamaður, byrjaði ung­ur á sjó og miss­ir móður sína 17 ára. „Ég var nýorðin 17 ára þegar ég missti mömmu. Var löngu byrjaður á sjó á þeim tíma. Hún dó 25. janú­ar 2006. Ég var á loðnu fyr­ir norðan land þegar ég fæ kall um að þetta sé að verða búið. Ég rétt næ hingað til Eyja um morg­un­inn og hún deyr um kvöldið. Það var með ólík­ind­um að ég skyldi ná að kveðja hana. Hún hét Júlía Ólöf Berg­manns­dótt­ir og fór alltof fljótt.“

Þetta hef­ur verið mikið áfall fyr­ir ung­an mann? „Já. Það var áfall og setti gott strik í reikn­ing­inn en lífið varð að halda áfram en allt tek­ur þetta tíma.“

Fimmtán ára á sjó

Ragn­ar Þór fór á sjó­inn strax eft­ir grunn­skóla, 15 ára gam­all og mátti ekki skrá hann á skip því í lag­anna skiln­ingi var hann ennþá barn. „Þá var ég að reka lítið fyr­ir­tæki sem hét Litla millj­ón, að slá bletti og bóna bíla. Það var sum­ar­vinn­an mín að slá bletti og svo bónaði ég bíla all­an vet­ur­inn. Sum­arið sem ég var 15 ára fékk ég boð um að fara á Nar­fa VE. Bald­ur Braga­son var skip­stjóri og Stíg­ur Hann­es­son stýri­maður. Ég þáði það en sagði eft­ir fyrsta túr­inn að þetta ætlaði ég aldrei að gera aft­ur. Það var sjó­veik­in en samt langaði mig að fara á sjó. Svo var hringt aft­ur og ég fór aft­ur. Þar með var ekki snúið við.  Við vor­um á humri í kring­um Eyj­ar.“

Þá kom vanda­mál með ald­ur­inn. „Ég var það ung­ur að ég mátti ekki vera á sjó og sýslumaður­inn hringdi í Bald­ur og skipaði hon­um að fara í land með mig. Ég væri alltof ung­ur, ekki með skír­teini, ekki Slysa­varna­skól­ann en hann hélt nú ekki. Ætlaði bara að klára túr­inn en embættið sagði að það mætti ekki lög­skrá þenn­an dreng, hann væri bara barn,“ seg­ir Ragn­ar Þór sem lét þetta ekki stoppa sig.

Upp á líf og dauða við Fær­eyj­ar

Þú lent­ir í slagvaski við Fær­eyj­ar á kol­munna­veiðum. „Já,“ seg­ir Ragn­ar Þór. „Þetta var í apríl 2015 og við á land­leið með um 1000 tonn af kol­munna á gömlu Kap VE. Fiski­dæl­an fram á losn­ar. Það er sex til átta metra öldu­hæð, hávaða rok, 20 til 30 metr­ar og við erum að gutla þetta heim í ró­leg­heit­un­um. Við för­um þrír út að reyna að festa dæl­una niður þannig að hún fari ekki í sjó­inn. Það var slegið af og ég er að taka í poka­spilið frammi á hval­bak til að skorða hana af.  Þá kem­ur brot­sjór fyr­ir­vara­laust fram­an á bát­inn sem fer á bólakaf.“

„Ég þrykk­ist áfram eins og bíll hafi keyrt á mig á 100 km hraða á bakið. Ég næ að vefja mig utan um rekk­verkið, set hönd­ina fyr­ir and­litið og hún brotn­ar í tvennt. Önnur löpp­in þvæl­ist ein­hver veg­inn inn í rekk­verkið og er í kássu.“

Þarna var þetta spurn­ing um líf og dauða og Ragn­ar fann að hann var illa slasaður en það var bara einn kost­ur í stöðunni, að koma sér niður af hval­bakkn­um. „Það eina sem ég hugsaði á meðan ég var að reyna að ná and­an­um aft­ur var; ef þú kemst ekki niður núna ertu dauður. Á næsta augna­bliki er ég far­inn að labba niður stig­ann og um leið og ég er kom­inn und­ir bakk­ann, veit að ég er kom­inn í skjól hníg ég niður. Allt gaf sig en þarna hugsaði ég, stattu þig dreng­ur. Þú átt einn séns ann­ars ertu dauður. Þetta hugsaði ég að meðan ég var á kafi, vaf­inn utan um rekk­verkið og all­ur brot­inn.“

Með ösku­bakk­ann á bring­unni

Næst var að koma Ragn­ari Þór í skjól og haft var sam­band við Land­helg­is­gæsl­una sem ekki gat sent þyrlu vegna veðurs. Var ákveðið að sigla til Fær­eyja. „Ég var bara strabbaður niður á bör­um við mat­ar­borðið í borðsaln­um. Ösku­bakki á bring­unni á mér og síga­rettupakk­inn og kveikj­ari við hliðina,“ seg­ir Ragn­ar Þór hlæj­andi. „Þar lá ég í tólf klukku­tíma með brúsa til að pissa í. Það var ákveðin upp­lif­un get ég sagt þér en þeir hugsuðu vel um mig strák­arn­ir.“

Í Þórs­höfn var Ragn­ar lagður inn á sjúkra­hús þar sem gert var að sár­um hans og aðgerð gerð á fæti og hand­legg. „Við pabbi vor­um sam­an á sjó en þarna var hann í fríi. Þegar hann fékk frétt­irn­ar flaug hann á Bakka, tók bíla­leigu­bíl, keyrði aust­ur á Seyðis­fjörð og náði Nor­rænu og var kom­inn til mín aðeins sól­ar­hring eft­ir að ég var lagður inn.“

Sjór­inn fossaði inn og eng­ar lens­ur

„Lubb­an sökk und­an mér fyr­ir einu eða tveim­ur árum síðan,“ seg­ir hann.  „Ég var feng­inn til að fara á skytte­rí með Leó Snæ Val­geirs­son, Jógv­an Han­sen söngv­ara og Friðrik Smára­son lög­fræðing. Við vor­um komn­ir lengst vest­ur fyr­ir Eyj­ar þegar allt í einu kem­ur gat á bát­inn. Sjór­inn fossaði inn, eng­ar lens­ur virkuðu og allt sló út. Við í al­gjör­um vand­ræðum og byrjuðum að keyra í land.“

„Keyrði ró­lega til að missa ekki bát­inn niður.  Við finn­um fötu og þeir byrja að ausa og ég kallaði í Lóðsinn eft­ir aðstoð.  Þeir ausa og ausa og ég sé að það er kom­inn aust­an kaldi. Ég vissi að ég yrði vand­ræðum þegar ég var kom­inn fram hjá Faxa­skeri á leiðinni inn. Þeir ham­ast við að ausa, hafa ekki und­an og það bæt­ist í bát­inn.“

Söngv­ar­inn mikli ætlaði ekki að deyja

Ragn­ar sér að Jógv­an sé ekk­ert farið að lít­ast á þetta. „Hann kem­ur inn í stýris­hús til mín á meðan hinir eru á ausa. Þá byrjaði ég að syngja; Ó María mig lang­ar heim. Ég gleymi ekki svipn­um á hon­um. Ég einn lé­leg­asti söngv­ari sem uppi hef­ur verið en Jógv­an lista­söngv­ari eins og við öll vit­um. Hann horf­ir á mig og seg­ir með sín­um fær­eyska hreim; – Raggi, ég skal láta þig vita af því að ég er ekki að fara að deyja núna. Ég kom með alltof mikið brenni­vín með mér til Vest­manna­eyja.“

Þeir missa föt­una í sjó­inn, Ragn­ar skip­ar öll­um í björg­un­ar­vesti og læt­ur gera björg­un­ar­bát­inn klár­an. Þá var staðan orðin svört. Hann send­ir út neyðarkall; erum að fara niður við Kletts­nefið. „Lubb­an eins og kaf­bát­ur og stefnið komið á kaf. Ég horfi á raf­magn­stöfl­una; hugsa hvenær fer hún á kaf og sjálf­ur stóð ég í sjó upp á mið læri.“

Þegar þeir koma fyr­ir Klett­inn er bara eitt í stöðunni, að sigla bátn­um upp í fjöru utan við höfn­ina í Eyj­um. Og eng­inn þeirra dó.

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni hér: 200 mílur.is

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search