26.12.2020
Ómar Garðarsson tók skemmtilegt viðtal við Ragga Togara sem birtist í laugardagsblaði Morgunblaðsins og nú einnig á 200 mílum.
Hér er brot úr þessu viðtali:
Ragnar Þór Jóhannsson missti móður sína ungur, tók slaginn við Bakkus og hafði betur. Hefur oftar en einu sinni komist í hann krappan. Horfst í augu við dauðann og var nálægt því að drekkja sameiginlegri þjóðargersemi Íslands og Færeyja. Nú er hann kominn í útgerð og með konu og barn, Bjarteyju Kjartansdóttur og soninn Líam, og horfir björtum augum til framtíðar.
„Ragnar Þór Jóhannsson, líka nefndur Raggi togari er 32 ára og kemur úr öllum áttum. Eigum við ekki að segja það þannig. Aðallega sjómaður, smáútgerðarmaður, ekki stór og hefur aldrei farið hefðbundnar leiðir. Er í raun alfarið á móti þeim. Það virkar fyrir suma en ekki fyrir mig. Verð að gera hlutina á minn hátt eða alls ekki. Það er áhugaverðasti þátturinn í lífinu, að fara sína eigin leið. Ég er bara með eina reglu; gerðu það með stæl eða slepptu því. Það á ekki síst við útgerð og það sama gerði maður þegar maður fékk sér í glas,“ segir þessi vaski sjómaður sem byrjaði snemma til sjós.
Ragnar Þór er fæddur og uppalinn Eyjamaður, byrjaði ungur á sjó og missir móður sína 17 ára. „Ég var nýorðin 17 ára þegar ég missti mömmu. Var löngu byrjaður á sjó á þeim tíma. Hún dó 25. janúar 2006. Ég var á loðnu fyrir norðan land þegar ég fæ kall um að þetta sé að verða búið. Ég rétt næ hingað til Eyja um morguninn og hún deyr um kvöldið. Það var með ólíkindum að ég skyldi ná að kveðja hana. Hún hét Júlía Ólöf Bergmannsdóttir og fór alltof fljótt.“
Þetta hefur verið mikið áfall fyrir ungan mann? „Já. Það var áfall og setti gott strik í reikninginn en lífið varð að halda áfram en allt tekur þetta tíma.“
Fimmtán ára á sjó
Ragnar Þór fór á sjóinn strax eftir grunnskóla, 15 ára gamall og mátti ekki skrá hann á skip því í laganna skilningi var hann ennþá barn. „Þá var ég að reka lítið fyrirtæki sem hét Litla milljón, að slá bletti og bóna bíla. Það var sumarvinnan mín að slá bletti og svo bónaði ég bíla allan veturinn. Sumarið sem ég var 15 ára fékk ég boð um að fara á Narfa VE. Baldur Bragason var skipstjóri og Stígur Hannesson stýrimaður. Ég þáði það en sagði eftir fyrsta túrinn að þetta ætlaði ég aldrei að gera aftur. Það var sjóveikin en samt langaði mig að fara á sjó. Svo var hringt aftur og ég fór aftur. Þar með var ekki snúið við. Við vorum á humri í kringum Eyjar.“
Þá kom vandamál með aldurinn. „Ég var það ungur að ég mátti ekki vera á sjó og sýslumaðurinn hringdi í Baldur og skipaði honum að fara í land með mig. Ég væri alltof ungur, ekki með skírteini, ekki Slysavarnaskólann en hann hélt nú ekki. Ætlaði bara að klára túrinn en embættið sagði að það mætti ekki lögskrá þennan dreng, hann væri bara barn,“ segir Ragnar Þór sem lét þetta ekki stoppa sig.
Upp á líf og dauða við Færeyjar
Þú lentir í slagvaski við Færeyjar á kolmunnaveiðum. „Já,“ segir Ragnar Þór. „Þetta var í apríl 2015 og við á landleið með um 1000 tonn af kolmunna á gömlu Kap VE. Fiskidælan fram á losnar. Það er sex til átta metra ölduhæð, hávaða rok, 20 til 30 metrar og við erum að gutla þetta heim í rólegheitunum. Við förum þrír út að reyna að festa dæluna niður þannig að hún fari ekki í sjóinn. Það var slegið af og ég er að taka í pokaspilið frammi á hvalbak til að skorða hana af. Þá kemur brotsjór fyrirvaralaust framan á bátinn sem fer á bólakaf.“
„Ég þrykkist áfram eins og bíll hafi keyrt á mig á 100 km hraða á bakið. Ég næ að vefja mig utan um rekkverkið, set höndina fyrir andlitið og hún brotnar í tvennt. Önnur löppin þvælist einhver veginn inn í rekkverkið og er í kássu.“
Þarna var þetta spurning um líf og dauða og Ragnar fann að hann var illa slasaður en það var bara einn kostur í stöðunni, að koma sér niður af hvalbakknum. „Það eina sem ég hugsaði á meðan ég var að reyna að ná andanum aftur var; ef þú kemst ekki niður núna ertu dauður. Á næsta augnabliki er ég farinn að labba niður stigann og um leið og ég er kominn undir bakkann, veit að ég er kominn í skjól hníg ég niður. Allt gaf sig en þarna hugsaði ég, stattu þig drengur. Þú átt einn séns annars ertu dauður. Þetta hugsaði ég að meðan ég var á kafi, vafinn utan um rekkverkið og allur brotinn.“
Með öskubakkann á bringunni
Næst var að koma Ragnari Þór í skjól og haft var samband við Landhelgisgæsluna sem ekki gat sent þyrlu vegna veðurs. Var ákveðið að sigla til Færeyja. „Ég var bara strabbaður niður á börum við matarborðið í borðsalnum. Öskubakki á bringunni á mér og sígarettupakkinn og kveikjari við hliðina,“ segir Ragnar Þór hlæjandi. „Þar lá ég í tólf klukkutíma með brúsa til að pissa í. Það var ákveðin upplifun get ég sagt þér en þeir hugsuðu vel um mig strákarnir.“
Í Þórshöfn var Ragnar lagður inn á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans og aðgerð gerð á fæti og handlegg. „Við pabbi vorum saman á sjó en þarna var hann í fríi. Þegar hann fékk fréttirnar flaug hann á Bakka, tók bílaleigubíl, keyrði austur á Seyðisfjörð og náði Norrænu og var kominn til mín aðeins sólarhring eftir að ég var lagður inn.“
Sjórinn fossaði inn og engar lensur
„Lubban sökk undan mér fyrir einu eða tveimur árum síðan,“ segir hann. „Ég var fenginn til að fara á skytterí með Leó Snæ Valgeirsson, Jógvan Hansen söngvara og Friðrik Smárason lögfræðing. Við vorum komnir lengst vestur fyrir Eyjar þegar allt í einu kemur gat á bátinn. Sjórinn fossaði inn, engar lensur virkuðu og allt sló út. Við í algjörum vandræðum og byrjuðum að keyra í land.“
„Keyrði rólega til að missa ekki bátinn niður. Við finnum fötu og þeir byrja að ausa og ég kallaði í Lóðsinn eftir aðstoð. Þeir ausa og ausa og ég sé að það er kominn austan kaldi. Ég vissi að ég yrði vandræðum þegar ég var kominn fram hjá Faxaskeri á leiðinni inn. Þeir hamast við að ausa, hafa ekki undan og það bætist í bátinn.“
Söngvarinn mikli ætlaði ekki að deyja
Ragnar sér að Jógvan sé ekkert farið að lítast á þetta. „Hann kemur inn í stýrishús til mín á meðan hinir eru á ausa. Þá byrjaði ég að syngja; Ó María mig langar heim. Ég gleymi ekki svipnum á honum. Ég einn lélegasti söngvari sem uppi hefur verið en Jógvan listasöngvari eins og við öll vitum. Hann horfir á mig og segir með sínum færeyska hreim; – Raggi, ég skal láta þig vita af því að ég er ekki að fara að deyja núna. Ég kom með alltof mikið brennivín með mér til Vestmannaeyja.“
Þeir missa fötuna í sjóinn, Ragnar skipar öllum í björgunarvesti og lætur gera björgunarbátinn kláran. Þá var staðan orðin svört. Hann sendir út neyðarkall; erum að fara niður við Klettsnefið. „Lubban eins og kafbátur og stefnið komið á kaf. Ég horfi á rafmagnstöfluna; hugsa hvenær fer hún á kaf og sjálfur stóð ég í sjó upp á mið læri.“
Þegar þeir koma fyrir Klettinn er bara eitt í stöðunni, að sigla bátnum upp í fjöru utan við höfnina í Eyjum. Og enginn þeirra dó.
Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni hér: 200 mílur.is