20.10.20
„Allt frá því Sögusetur 1627 var fyrst komið á laggirnar fyrir núna meira en áratug hefur það verið draumur okkar að gefa út Reisubók Ólafs Egilssonar, prests í Vestmannaeyjum. Ástæðan er sú að Reisubókin er eina samtímaheimildin sem til er á íslensku um einstakling sem var hernuminn og fluttur sem þræll til Alsír í Tyrkjaráninu 1627.
Það er engin samtímaheimild til um þá sem fluttir voru sem þrælar til Salei í Marokkó og aðeins þessi eina um Vestmannaeyingana og Austfirðingana sem voru fluttir til Alsír,“ segir Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss í Vestmannaeyjum sem ásamt öðrum stendur að útgáfu Reisubókarinnar sem kom út fyrr í mánuðinum.
Bókin er um 380 blaðsíður, fallega upp sett og í hentugu broti. Reisubókin var síðast gefin út 1969 „Fyrir um ári síðan bað Sögusetrið mig um að taka þetta verkefni að mér. Ég ræddi við Má Jónsson, prófessor í sagnfræði sem á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Mikill Eyjamaður þó hann hafi aldrei búið hérna. Hann tók ljúflega í beiðni mína og var það mikill fengur. Már er almennt talinn vera einn helsti fræðimaður í útgáfu á eldri textum,“ segir Kári og ákváðu þeir að hafa bókina eins ítarlega og kostur var.
Segir söguna frá upphafi
Reisubók Ólafs byrjar í Vestmannaeyjum og segir frá því þegar sumarið 1627 sést til þriggja skipa utan við innsiglinguna. „Síðan hörfa skipin og koma að landi sunnar á Heimaey, við Brimurð og þar sem í dag heitir Ræningjatangi. Þar gekk Hundtyrkinn á land 16. júlí og ósköpin hófust. Ólafur segir frá þegar hann og fjölskylda hans eru tekin. Flutt til Alsír, hann leystur úr haldi og látinn fara allslaus þvert yfir alla Evrópu til að hitta konung sinn. Konunginn yfir Danmörku og Íslandi til að fá peninga hjá honum til að leysa fólkið sitt úr haldi. Síðan endar bókin á því að hann kemur aftur hingað til Eyja,“ segir Kári.
Bókin geymir tvær gerðir sem varðveist hafa af sögu Ólafs. „Már hefur sýnt fram á að þær eru báðar eftir Ólaf sjálfan þannig að ekki þarf að gera upp á milli þeirra. Við erum með samtímaheimild frá Kláusi Eyjólfssyni, lögréttumanni í Landeyjum. Hann kom til Eyja strax eftir ránið og tók viðtöl við nokkra af þeim sem eftir voru. Við erum einnig með mjög mikið af skjölum og bréfum, heimildum um afleiðingar Tyrkjaránsins fyrir þá sem eftir lifðu. Fólk sem vildi lifa sínu lífi, kvænast eða giftast á ný. Það reyndist þrautinni þyngra að fá slíkt leyfi. Við rekjum þessa stórmerkilegu sögu fólksins sem varð eftir.“
Unnið með vandað handrit
Meðal nýmæla í bókinni er að þarna er handrit sem ekki hefur verið notað áður í útgáfu á Reisubókinni. Handritið er frá 1779 sem Þórður í Skógum benti félögum í Sögusetri á. „Það er einstaklega vandað og gott handrit en frumrit af sögu Ólafs er glatað. Þess vegna skiptir svo miklu máli að fá vandaðar uppskriftir af handritinu.“
Í bókinni er einnig gerð grein um kveðskap séra Jóns Þorsteinssonar sem var hinn presturinn í Vestmannaeyjum á þessum tíma. „Birtum við úrval af kvæðum hans og sálmum til að sýna kveðskapinn hans. Hann þótti eitt af helstu skáldum Íslands á fyrri hluta sautjándu aldar fyrir daga séra Hallgríms Péturssonar.“
Ítarlegur inngangur er eftir Kára þar sem hann gerir grein fyrir Tyrkjaráninu í sögulegu samhengi og Már tekur á sama hátt fyrir handritageymd og varðveislu textans. „Á þeim tíma sem hér er til umfjöllunar bjuggu í Vestmannaeyjum, eftir því sem Jóhann Gunnar Ólafsson segir, rúmlega 400 manns. Það er jafnan talað um að 242 hafi verið herteknir og fluttir til Alsír, 34 eða 36 drepnir og því er það svo að það aðeins tætingur eftir af því samfélagi sem Vestmannaeyjar voru eftir ránið.
Undur að Vestmannaeyjar byggðust upp aftur
Eitt af undrum Tyrkjaránsins er að það hafi yfirhöfuð verið hægt að byggja upp samfélagið að nýja. Allar fjölskyldur voru sundraðar og sundurtættar. Áhugi manna á að búa í Vestmannaeyjum hlýtur einnig að hafa verið mjög lítill eftir að Hundtyrkinn hefur farið hér grenjandi um, drepandi og brjótandi allt sem fyrir varð og haft á brott með sér stærsta hluta íbúanna.“
Aðeins örfáir áttu fyrir sér að snúa aftur heim. „Í bókinni tökum við saman lista yfir um 50 manns sem fengu frelsi. Ef allir eru lagðir saman, frá Vestmannaeyjum 242, 110 frá Austfjörðum 12 til 15 frá Grindavík og víðar eru þetta í allt tæplega 400 manns. Þannig að um 15 prósent þeirra sem herteknir voru fá frelsi. En stór hluti þeirra sem þó fengu frelsu náðu aldrei heim. Sumir dóu á leiðinni, aðrir ílentust í Kaupmannahöfn og annars staðar á leiðinni. Frægust þeirra sem fékk frelsi var Guðríður Símonardóttir sem Steinunn Jóhannesdóttir gerði eftirminnileg skil í skálsögu sinni. Hún kom aldrei aftur heim til Eyja en fylgdi manni sínum, Hallgrími Péturssyni, sálmaskáldi og presti víða um Suðurlandið,“ sagði Kári að lokum.
