Sunnudaginn 16. júlí nk. kl. 13 stendur Sögusetrið 1627 fyrir Tyrkjaránsgöngu og afhjúpun nýs söguskiltis
Í ár eru liðin 396 ár frá Tyrkjaráninu illræmda þegar ránsmenn frá Alsír í Norður- Afríku gengu á land í Vestmannaeyjum, drápu, særðu, rupluðu og tóku til fanga liðlega helming íbúa Vestmannaeyja. Ræningjarnir fluttu hátt á þriðja hundrað Eyjamenn til Alsír og seldu þá þar í þrældóm. Þessi atburður markaði svo djúp spor að hann lifir ennþá í minningu Eyjamanna.
Sögusetrið 1627 er félag sem hefur m.a. það markmið að varðveita og halda á lofti sögu Tyrkjaránsins og öðrum þáttum úr sögu og menningu Vestmannaeyja. Gangan á sunnudag, og ekki síður afhjúpun nýs söguskiltis við minnis-merki Guðríðar Símonardóttur, er einn liður í þessu starfi félagsins.
Gangan hefst við Ofanleiti þar sem safnast verður saman.
Í göngunni verða rifjaðir upp þættir úr sögu Tyrkjaránsins og m.a. staldrað við Hundraðmannahelli og Fiskhella. Kaffi og kleinur verða í boði við minnismerki Guðríðar, þar sem söguskiltið verður afhjúpað. Gangan endar síðan á Skansinum.
Um er að ræða auðvelda gönguför sem tekur um 1 ½ – 2 klst. með stuttum stoppum.
Göngustjóri er Helga Hallbergsdóttir.
Öll hjartanlega velkomin.
Sögusetrið 1627