Haldið var í ævintýraferð út í Suðurey fimmtudaginn síðastliðinn í smölun
Óli Týr, Davíð og Björgvin voru fyrirliðar ferðarinnar en það var hann Þorsteinn sem skutlaði hópnum út í eyju. Tígull fékk að fljóta með ásamt Tígulgosanum, Pétri Steingríms, Gauja á Látrum, Tinnu Hauksdóttur og eldhressum framhaldskólakökkum sem Óli Týr fékk til að koma með og aðstoða.
Það er ævintýri líkast að fá að príla upp eyjuna og svo niður hinu megin að húsi Suðureyjafélaganna. Smölunin gekk vel þrátt fyrir að eiga við mjög svo þvera forystu rollu sem hefur greinilega fengið að ráða hópnum of lengi.
Fénu var smalað í réttina, og þar tók við að ría rollurnar ásamt því að gefa þeim lyf. Krakkarnir tóku fullan þátt í öllum verkum og stóðu sig þrusu vel. Davíð (í Tölvun) skellti í pylsur handa hópnum. Svo tók við að flokka hópinn, en 23 rollur fengu frelsið á ný en 11 rollum var sigið niður í bát sem flutti þær upp á Heimaey í slátrun.
Svo tók við gangan tilbaka niður í bátinn til Þorsteins, sem flutti okkur heim á leið. Það var ekki leiðinlegt að skoppast um í tuðrunni með Gauja sem þekkir hvert einasta örnefni á leiðinni. Og sögur í kringum þau einnig.
Tígull þakkar fyrir frábæra ferð með Suðureygenginu og hlakkar til næstu ferðar en þá er Óli Týr búin að lofa því að ég megi fara niður himnastigann fræga.





























