slökkviliðstöð

Slökkviliðsstjóri fer yfir árið 2020 – Öðruvísi ár

Á fundi framkvæmda og hafnarráðs Vestmannaeyja þann 19.janúar fór Friðrik Páll Arnfinnsson Slökkviliðsstjóri yfir árið 2020

Öðruvísi ár

Síðasta starfsár hjá Slökkviliði Vestmannaeyja mun seint flokkast sem hefðbundið starfsár, en eins og hjá flestum öðrum þá setti heimsfaraldur Covid 19 reglubundna starfsemi úr skorðum meira og minna allt síðasta ár.

Útköll einnig óhefðbundin á síðasta ári

Útkallsfjöldi var líka óhefðbundinn líkt og árið þar á undan þar sem við vorum yfir meðallagi síðustu ára en þessa aukningu má aftur rekja til óvenju margra útkalla frá brunaviðvörunarkerfum m.a. vegna matseldar og bilana. Ef frá eru talin þessi auka útköll þá er fjöldi útkalla á pari við það sem verið hefur undanfarin ár en engu að síður þá var nóg að gera í öðrum verkefnum m.a. vegna Covid 19, endurnýjunum og viðhaldi á búnaði, endurnýjun á brunavarnaáætlun og vinnu við uppbyggingu á nýju slökkvistöðinni.

Almannavörn hóf undirbúning snemma árs

Þrátt fyrir tiltölulega eðlilega byrjun á síðasta ári hófst undirbúningur snemma hjá Almannavörnum og viðbragðsaðilum í Vestmannaeyjum, eða þegar fyrstu fréttir fóru að berast af mögulegum heimsfaraldri inflúensu, og þann 15. mars var svo aðgerðarstjórn AST-Almannavarna í Vestmannaeyjum formlega virkjuð.

Við tóku dagleg fundarhöld í fjarfundabúnaði og vinna við að skipuleggja og halda utan um þann mikla fjölda sem lenti í einangrun og sóttkví í Vestmannaeyjum í þessari fyrstu bylgju faraldursins.

Í lok maí gerði AST hlé á störfum sínum þar sem þá virtist vera búið að ná nokkuð góðum tökum á faraldrinum á landinu en það hlé stóð stutt því fljótlega í byrjun ágúst fóru smit aftur að aukast og hófust þá fundahöld og skipulagning aftur og standa enn yfir.

Heimsfaraldurinn setti eðlilega mark á starfsemi slökkviliðsins

Þetta setti að sjálfsögðu sitt mark á eðlilega starfsemi slökkviliðsins, hvort sem er æfingar, útköll eða forvarnastarf þar sem takmarka þurfti allt samneyti milli slökkviliðsmanna eins og kostur var og gæta sérstaklega að því að geta haldið úti útkallshæfu slökkviliði ef upp kæmi sú staða að menn lentu í
einangrun eða sóttkví.

Slökkvistöðinni lokað fyrir aðra en starfsmenn á tímabili

Til að bregðast við þessu ástandi þá var m.a. slökkvistöðinni lokað fyrir öðrum en starfsmönnum á tímabili, eldvarnaeftirliti og forvarnastarfi var aðeins sinnt í undantekningar tilfellum, æfingum var frestað og liðinu skipt upp í þrjár útkallseiningar. Þegar æfingar gátu hafist aftur þurfti einnig að
breyta skipulagi á þeim þar sem miðað var við að færri menn kæmu á hverja æfingu en upphaflega var áætlað.

Þetta eru vissulega búnir að vera skrítnir og krefjandi tímar og viðbúið að svo verði áfram a.m.k. eitthvað fram eftir nýju ári en vonandi fer lífið að komast í eðlilegt horf með hækkandi sól og við getum horft til baka reynslunni ríkari.

Endurnýja þarf annan aðal dælubílinn sem fyrst

Viðhald og endurnýjun á öllum búnaði er eitthvað sem krefst stöðugrar vinnu og svo var einnig á síðasta ári en eins og undirritaður hefur nefnt áður þá er, fyrir utan allan annan minni búnað, stærsta einstaka verkefnið sem ráðast þarf í sem fyrst, endurnýjun á öðrum af okkar aðal dælubílum sem í
dag er orðinn 33.ára gamall.

Endurskoðun og uppfærsla á brunavarnaáætlun Slökkviliðsins fyrir árin 2021-2026

Á síðasta ári hófst vinna við endurskoðun og uppfærslu á brunavarnaáætlun Slökkviliðs Vestmannaeyja fyrir árin 2021-2026, en samkvæmt lögum skal gera það á fimm ára fresti. Vinna hófst við verkið í lok sumars og lauk svo í haust með samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar og bæjarstjórnar og var áætlunin undirrituð þann 11.11.2020 og tók gildi nú um áramótin.

Samhliða vinnu við endurskoðun brunavarnaráætlunar var svo undirritaður enn einn samstarfssamningurinn þegar gerður var samningur á milli Slökkviliðs Vestmannaeyja SLV og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins SHS um aðstoð SHS til handa SLV vegna stærri mengunaróhappa á starfssvæði SLV.

Fyrsta skóflustungan tekin 14.mars að nýrri slökkvistöð

Stærsta einstaka og metnaðarfyllsta verkefni Slökkviliðs Vestmannaeyja frá stofnun liðsins, og það mál sem undirritaður hefur lagt hvað mesta áherslu á s.l. ár fór svo formlega í gang þann 14.03.2020 þegar fyrstu skóflustungurnar voru teknar að nýrri og glæsilegri slökkvistöð. Vinna hófst strax af fullum krafti og eðli málsins samkvæmt þá fylgir svona stórri framkvæmd töluverð vinna og utanumhald en verkið og efnisútvegun hefur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir heimsfaraldur og þau vandamál sem því hefur fylgt, og þann 02.12.2020 var byggingin formlega risin.

Gert er ráð fyrir að uppbyggingu verði að fullu lokið um mánaðarmótin júní/júlí og þá muni slökkviliðið flytja í nýtt og glæsilegt húsnæði sem er sérsniðið að starfseminni og stenst kröfur nútímans.

Meðalfjöldi útkalla síðustu fimm ár 17 á ári

Undanfarin fimm ár hefur meðalfjöldi útkalla hjá slökkviliðinu verið 17.útköll á ári, en á síðasta ári fór heildarfjöldi útkalla frá Neyðarlínunni í 21. útkall en eins og árið þar á undan þá má rekja þessa aukningu til óvenju margra útkalla vegna boða frá brunaviðvörunarkerfum og/eða gruns um eld m.a.
vegna matseldar og/eða bilana og þar sem ekki hefur náðst strax í tengiliði kerfanna þá hefur slökkviliðið verið ræst út.

Af þessu 21. útkalli voru 8. í upphafi metin alvarlegs eðlis og í forgangi F1 og F2.

 • Eldur í byggingum 1
 • Grunur um eld/skoðun 9
 • Eldur utan bygginga(ruslatunnur-bílar) 3
 • Útkall vegna brunakerfis 2
 • Vatnstjón 3
 • Leki af hættulegu efni 2
 • Narr í eld 1

Tvö útköll reyndust vera um raunverulegan eld að ræða

Í einungis tveimur útköllum reyndist raunverulega vera um eld að ræða en það var annars vegar eldur í ruslagámum við menningarhúsið Kviku þann 09.01 og hins vegar í bifreið á Hásteinsvegi þann 15.01 og björguðu snör viðbrögð slökkviliðs því að ekki fór verr í þessum tilvikum. Ekkert þessara útkalla á síðasta ári reyndist þegar upp var staðið vera alvarlegt en eitthvað eignatjón varð þó m.a. í bifreiðum og svo vegna heitavatnsleka í íbúð við Faxastíg þann 26.11.

Eldvarnarvikunni frestað 

Í desember s.l. var svo komið að árvissum viðburði þegar til stóð að heimsækja Víkina (elstu leikskólabörnin) og 3.bekk Hamarsskóla, kynna þau fyrir slökkviálfunum Loga og Glóð og fræða þau um eldvarnir í tengslum við árlega Eldvarnaviku Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
en vegna aðstæðna þá var þessu eins og svo mörgu öðru slegið á frest og ákveðið að stefna á heimsóknir á nýja árinu um leið og aðstæður leyfa.

Skipulagðar æfingar og námskeið hjá liðinu voru alls 26

En vegna aðstæðna var skipulagið fljótt að riðlast þar sem m.a. þurfti að fresta nokkrum æfingum og breyta liðsskipulagi á mörgum öðrum í takt við þær aðstæður sem voru í gangi á hverjum tíma.

Slökkviliðið stendur líka alltaf öryggisvaktir þegar tankskip olíufélaganna losa bensínfarma í Vestmannaeyjum og voru alls 8. slíkar öryggisvaktir á síðasta ári.

Eldvarnareftirlit fyrirtækja og stofnanna er veigamikill þáttur í starfinu

Eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnanna er sem fyrr veigamikill þáttur í starfi hvers slökkviliðs en á síðasta ári voru samtals 34. formlegar aðgerðir hjá eldvarnaeftirlitinu sem er töluvert minna en í venjulegu árferði og ræðst það eins og annað af því ástandi sem búið er að vera að undanförnu þar
sem m.a. var töluvert minna um beiðnir um umsagnir sem og að dregið var skoðunum eins og kostur var.

Af þessum 34. aðgerðum voru:

 • Umsagnir(tækifæris og rekstrarleyfi) 23
 • Skoðanir og úttektir 11

Þakka má brunaviðvörunarkerfum og skjótum viðbrögðum 

Síðasta ár var því að mestu leiti í takt við undanfarin ár hvað útköll varðar þar sem við sleppum vel frá stærri brunum og alvarlegum atvikum sem að hluta til má þakka brunaviðvörunarkerfum og skjótum viðbrögðum en eins og undirritaður bendir reglulega á að þá megum við hvergi slaka á í forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum.

Það er alltaf hægt að gera betur og í raun getum við heimfært landsþekkt slagorð Almannavarna yfir á þennan málaflokk og sagt:

„við erum öll brunavarnir“

Vestmannaeyjum 15.01.2021
Friðrik Páll Arnfinnsson
Slökkviliðsstjóri

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

 • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
 • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
 • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
 • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
 • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search