Miðvikudagur 24. júlí 2024

Skýrsla um framkvæmd og nýtingu Landeyjahafnar góður leiðarvísir

23.10.2020

Skýrsla um fyrstu skref að óháðri úttekt á framkvæmd og nýtingu Landeyjahafnar hefur verið gefin út og afhent samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Það var ráðgjafafyrirtækið Vatnaskil sem vann skýrsluna í samvinnu við Leo van Rijn, hollenskan sérfræðing á sviði sandflutningsrannsókna og verkfræðistofuna Mannvit. Úttektin var unnin í samræmi við þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi í desember 2019. Skýrslan hefur verið send í umsögn og er miðað við að ákvarðanir um næstu skref verði teknar þegar yfirferð skýrslunnar er lokið.

Höfundar skýrslunnar komast að þeirri niðurstöðu að til að ná markmiðum um stóraukna nýtingu hennar sé þörf á endurbótum á höfninni. Mótvægisaðgerðir hafi ekki dugað hingað til og ætla má að erfitt sjólag utan hafnar muni áfram takmarka siglingar nýrrar ferju. Í skýrslunni eru kynntar ráðleggingar fyrir mat á mögulegum endurbótum á höfninni og vegvísir að heildstæðri óháðri úttekt á Landeyjahöfn, sem gerir ráð fyrir tæknilegu mati og kostnaðarmati á mögulegum endurbótum.

Í úttektinni var farið yfir fyrirliggjandi gögn um Landeyjahöfn en skýrsluhöfundar segja að tekist hafi „að ná utan um helstu gögn sem höfninni tengjast og skilgreina helstu þætti sem upp á vantar og þarf að ráða bót á í úttektarferlinu.“ Skýrsluhöfundar telja úttektina gefa fyrirheit um mögulega kosti að ferli loknu til grundvallar ákvarðanatöku um framtíðaráform fyrir samgöngubætur milli lands og Eyja.

„Það er mikilvægt að hafa fengið í hendur óháða úttekt á framkvæmdum og nýtingu Landeyjahafnar. Hún segir að við þurfum að horfa hvort tveggja til setlagamyndunar og öldufars við mögulegar úrbætur. Þá gefur hún til kynna að tilkoma nýja Herjólfs, sem ristir grynnra en eldri ferja og hóf siglingar árið 2019, hafi ein og sér haft góð áhrif á nýtingu hafnarinnar, sem er mjög gott að fá staðfest. Ljóst er að skýrslan er mikilvægur og góður leiðarvísir þannig að Landeyjahöfn geti þjónað hlutverki sínu að fullu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Helstu niðurstöður skýrslunnar

 • Til að minnka verulega dýpkunarþörf þarf að ákvarða mögulegt dýpkunarfyrirkomulag sem tekur tillit til nýju ferjunnar og þeirrar reynslu sem fengist hefur á nýtingu hafnarinnar. Slíkt fyrirkomulag væri borið saman við dýpkunaraðgerðir hingað til, sem miðast við fyrri ferju, svo meta megi hvort dýpkunarþörf sé líkleg til að minnka.
 • Aðgerðir sem leiða til skjólmyndunar milli rifs og hafnarmynnis gagnvart háum öldum myndu bæta siglingarhæfi ferjunnar milli rifs og hafnar og eru líklegar til að styðja við dýpkunaraðgerðir. Mikilvægt er að greina slíkar aðgerðir frekar og leggja mat á virkni þeirra og hvort einhver vandkvæði kunna að vera líkleg vegna þeirra.
 • Ólíklegt er að unnt sé að gera endurbætur á höfninni eins og hún er í dag þannig að dýpkunarþörf hverfi. Til þess að slíkt markmið náist er líklegra að endurbætur þurfi að fela í sér róttækar lausnir sem krefjast endurhönnunar hafnarinnar. Slíka lausn þyrfti að skilgreina vel og meta til samanburðar við aðrar lausnir til endurbóta á höfninni. Dæmi um slíka útfærslu væri að byggja nýja höfn utan við rifið sem tengd væri eldri höfn með brú.
 • Frá júlí 2019-maí 2020, eða eftir að nýr Herjólfur var kominn í gagnið, var Landeyjahöfn opin 90% tímabilsins. Á sama tímabili 2012-2013 var nýting Landeyjarhafnar lægri en 70%.

Skýrsluhöfundar telja of snemmt að segja til um hvort endurbætur kunni að vera gerlegar. Vegvísirinn að heildstæðri óháðri úttekt á Landeyjahöfn gerir ráð fyrir bæði tæknilegu mati og kostnaðarmati á mögulegum endurbótum. Mikilvægt væri að hafa í huga að setmyndun er ekki eini þátturinn sem takmarkar siglingar ferjunnar. Öldufar hefur einnig veruleg áhrif. Því muni heildstæð úttekt að öllum líkindum ekki leiða í ljós að dýpkunaraðgerðir einar og sér muni leiða til heilsársopnunar hafnarinnar.

Vegvísir að heildstæðri óháðri úttekt

Skýrsluhöfundar hafa kortlagt vegvísi að heildstæðri óháðri úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við skilgreiningu Alþingis í fjórum meginskrefum:

 • Úrbætur í upplýsingaöflun. Frekari gagnasöfnun og gagnagreining.
 • Skilgreining á grunntilfelli fyrir framtíðarrekstur hafnarinnar án endurbóta.
 • Ákvörðun á mögulegum endurbótum og mat á virkni þeirra.
 • Samanburður á mögulegum endurbótum með hliðsjón af spurningum þingsályktunarinnar.

Forsaga málsins

Með þingsályktunartillögu í desember sl. fól Alþingi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera úttektina í samræmi við greinargerð með tillögu að fimm ára samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir árin 2019-2023. Í greinargerðinni er fjallað um endurbætur á Landeyjahöfn og að fjárframlögum vegna þeirra væri ætlað „að standa undir kostnaði við rannsóknir, öryggismál, gerð óháðrar úttektar og framkvæmdum sem auðvelda eiga að halda nægu dýpi í höfninni.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni um Landeyjahöfn var þess farið á leit að úttektin leiddi í ljós hvort hægt væri að gera þær úrbætur á Landeyjahöfn að dýpkunarþörf minnkaði verulega eða hyrfi, og í hverju slíkar úrbætur gætu falist. Loks var óskað eftir því til hvers konar dýpkunaraðferða þyrfti að grípa ef endurbætur þættu ekki gerlegar, af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum.

Frétt er frá vef stjórnarráðsins

Forsíðumynd: Helgi R. Tórzhamar

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

 • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
 • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
 • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
 • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
 • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search