Þá er enn eitt skólaárið búið og nemendur komnir í kærkomið sumarfrí.
Skólanum var slitið með dansi og gleði á Stakkó og það var gaman fyrir nemendur að fá að kveðja skólaárið
með þessum hætti. Það er gott að geta litið yfir þetta skólaár sem er að klárast og hugsað til þess að það var algjörlega takmarkalaust. Eftir um þrjú ár af skrítnum tímum, heimsfaraldri var svo kærkomið að fá aftur eðlilegt skólaár.
Þetta hefur verið skemmtilegur og viðburðaríkur vetur.
Við hófum okkar annað ár í stóra þróunarverkefninu okkar Kveikjum neistann: þar sem markmiðið er að efla læsi, áhuga og gróskuhugarfar, hreyfifærni og vera með markvissa þjálfun og eftirfylgni og það er óhætt að segja að árangur af þessum tveimur árum sé virkilega góður og fram úr okkar björtustu vonum. Markmiðið var að 80-85% nemenda yrðu læs við lok 2. bekkjar og það markmið náðist. Við erum vikilega stolt af nemendum, kennurum og foreldrum sem hafa tekið þátt í innleiðingu síðustu tvö ár.
En talandi um innleiðingu þá kláruðum við þriggja ára spjaldtölvuinnleiðingu núna í vor, stór skref hafa verið tekin í þeim efnum. Allir nemendur eru nú komnir með tæki, annað hvort ipad eða chromebook og mikil þróun átt sér stað i fjölbreyttum kennsluaðferðum og starfsþróun kennara.
Mikilvægi samstarfs heimilis og skóla veður aldrei of metið og er það grunnur að góðum árangri barna okkar. Nú erum við nýbúin að fylgjast með ÍBV og samstaða Eyjamanna í þeim efnum algjörlega einstök. Allir standa saman og flykkjast á bak við liðið og styðja af heilum hug. Við höfum oft talað um það í skólanum hvað það væri gaman ef áhugi á GRV gæti verið eins mikill og áhugi á ÍBV, við værum jafn stolt af skólanum okkar eins og íþróttafélaginu.
Vinnum þetta saman, notum sumarið til að lesa góða bók og nýtum Bókasafn Vestmannaeyja, sem veitir einstaka þjónustu í þessum efnum. Ætla þau m.a. að bjóða upp á þjálfunartíma í lestri í sumar fyrir nemendur sem eru að ljúka 1.bekk og sumarlestur GRV og Bókasafnsins er kominn á fullt.
Takk fyrir góðan vetur og njótið sumarsins.
Anna Rós Hallgrímsdóttir
skólastjóri GRV