Einn skipverji á togaranum Þórunni Sveinsdóttur VE greindist á laugardaginn með Covid-19 og eru þeir sem voru með honum í síðasta túr jafnframt komnir í sóttkví.
Þetta staðfestir Gylfi Sigurjónsson skipstjóri, sem er einn þeirra sjö sem eru í sóttkví.
Hann segir bátinn vera núna úti á sjó og að skipverjarnir sem þar eru um borð fari í skimun þegar þeir koma í land á miðvikudaginn.
Fyrir utan þann sem greindist smitaður er enginn með einkenni veirunnar, að sögn Gylfa. „Þetta er í sínu ferli. Þetta er unnið með smitrakningarteyminu og heilsugæslulækni í Vestmannaeyjum. Þetta er allt eins og á að gera það,“ segir hann.
Sá sem smitaðist var ekki kominn með nein einkenni þegar báturinn lagðist að bryggju á miðvikudaginn. Maðurinn fór svo til Reykjavíkur og eftir að hann kom til baka fékk hann einkenni á föstudaginn. „Þetta eru öryggisráðstafanir hjá okkur. Við vitum ekki hvort hann smitaðist um borð því það er enginn með einkenni,“ segir Gylfi. „Við krossleggjum fingur og höldum okkar striki.“
Frá þessu er greint á vefnum mbl.is