Þriðjudagur 5. desember 2023

Skátastarfið byrjað á ný

Nú er skátastarfið farið af stað á nýjan leik. Frosti Gíslason er félagsforingi Skátafélagins Faxa í Vestmannaeyjum og tókum við hann í létt spjall.

Hversu margir hópar eru í skátunum og hvaða aldur?

Drekaskátar (2. , 3. og 4. bekkur)

Í Drekaskátunum er áherslan lögð á  leiki og skemmtileg verkefni sem styrkja ýmsa dýrmæta eiginleika svo sem traust, þolinmæði, samvinnu, samkennd og sjálfsbjargarviðleitni.   Drekaskátar fara svo á Drekaskátamót í sumar.

Fálkaskátar (5., 6. og 7. bekkur)

Á þessum aldri fá skátarnir meiru ráðið um  eigin dagskrá og geta  mótað dagskráráherslur eftir því hvar þeirra eiginn áhugi liggur en áhersla er lögð á útivist, ferðamennsku, lýðræði, sköpun, samvinnu og samfélag. Fálkaskátar öðlast fjölbreytta kunnáttu og mæta áskorunum sem  styrkja útsjónarsemi þeirra, kjark og sjálfsöryggi.

Dróttskátar (8., 9. og 10. bekkur) og rekkaskátar (16-18 ára)

Drótt- og rekkaskátar ráða sinni dagskrá að stærstum hluta sjálfir og þeir taka þátt í uppbyggingu skátastarfsins, kynnast öðrum jafnöldrum, fara í útilegur og skátamót innanlands og erlendis.

Geturðu talið upp dæmi um hvað þið eruð að gera?

Í skátunum er skemmtilegt en þar lærum við í gegnum leiki, skemmtun og áskoranir.  

Við leggjum sérstaka áherslu á skapandi skátastarf hér í Eyjum.

Á skátafundum í þar síðustu viku, þá lærðu drekaskátar um áttirnar,  norður, suður, austur og vestur.  Teiknuðu á kort, leiðina  heim úr skátaheimilinu og lýstu því í hvaða áttir þau ættu að ganga að hvaða gatnamótum og í hvaða áttir svo.  Svo var farið í leiki, m.a.  skrítni- dansstopp þar sem skátar fóru í einhverja af höfuðáttunum og svo var einhver átt dregin og sá hópur leiddi skrítnidansinn áfram.  Í síðustu viku fóru svo drekaskátarnir í göngu og æfðu sig í áttunum. 

Drekaskátar fengu þá áskorun að reyna að  skilja betur aðra.  T.d. hvernig er það er að vera blindur, sjónskertur, heyrnalaus eða fatlaður og þá hvernig við skátarnir getum hjálpað til.

Dreka- og fálkaskátar fóru í leiki, leiddu hvern annan í gegnum völundarhús með orðum þar sem annar var með hulið fyrir augum en hinn leiðbeindi.  Þá prófuðu þau að klæða hvert annað í útiföt en sá sem klæða átti mátti hvorki sýna mátt í höndum eða fótum.

Þá var einnig farið í leiki.

Fálkaskátar fóru í endurvinnslu áskorun og fengu verkefnið að auka verðmæti á plastflöskum.  Þau komu með hugmyndir og gerðu frumgerðir á 40 mínútum og sýndu tillögur hvernig nýta mátti plastflöskur, sem tígóteygjuskraut, gleraugu, skó, hátalara, blómapott, minni brúsa, hatta, grímur og fleira og fleira.

Í síðustu viku fóru fálkaskátarnir svo í ratleik, unnu verkefni og leystu dulmál.

Drótt- og rekkaskátar mættu í Skátastykkið og tóku Útlagaskálann í gegn og gerðu vistlegri og hafa verið að útbúa leikvelli í Skátastykkinu, spila og hafa gaman.  Þá verður næsta skref að vinna að verkefnum til þess að fá forsetamerkið.

Hvað þýðir það að vera skáti?

Í skátunum öðlast ungt fólk ákveðin lífsgildi og reynslu sem nýtist alla ævi til þess að takast á við fjölbreyttar áskoranir.  Í skátunum er lögð sérstök áhersla á ákveðin gildi en þau eru að skáti er hjálpsamur, glaðvær, traustur, náttúruvinur, tillitssamur, heiðarlegur, samvinnufús, nýtinn, réttsýnn og sjálfstæður. Skáti er ávallt viðbúinn. 

Hvað er framundan hjá ykkur?

Framundan er skemmtilegt skapandi skátastarf, kvöldvaka er á næstunni og skátamót í sumar ásamt útilegum og fjölbreyttu skátastarfi.

Ég er sérlega ánægður með rekkaskátana okkar sem nú eru skátaforingjar hjá drekaskátum og fálkaskátum og er gaman að sjá skátakrakkana vaxa upp í hreyfingunni til þess að verða foringjar og koma gleðinni áfram.

Geta allir komið og skráð sig í skátana?

Eins og oft áður þá er mesta vöntun á fullorðnum sjálfboðaliðum til þess að styðja við starfið en allir eru velkomnir í skátana frá öðrum bekk og upp úr.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is