Við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum er boðið upp á sjúkraliðanám. Í gegnum árin hafa margir öflugir sjúklaliðar útskrifast frá skólanum og nýtt starfskrafta sína á ýmsum sviðum hér í Eyjum og víðar á landinu.
Nú í haust er stefnt að því að byrja með nýjan hóp í sjúkraliðanámi og er opið fyrir umsóknir á heimasíðu skólans www.fiv.is
Bóklegi hluti námsins fer fram í fjarnámi og því hægt að stunda það með vinnu en verklegt nám fer fram í skólanum og á heilbrigðisstofnunum. Námið er 200 eininga nám á Sjúkraliðabraut sem er öllum opin og einnig er hægt að sækja um á Sjúkraliðabrú ef umsækjendur eru orðnir 23 ára og hafa starfað í umönnun a.m.k. 5 ár og tekið námskeið tengd starfinu, er þá námið styttra.
Sjúkraliði er lögverndað starfsheiti og gefur réttindi til að starfa á fjölbreyttum vettvangi heilbrigðisþjónustu. Nýlega tilkynnti heilbrigðisráðherra um aukið fjármagn til heimahjúkrunar, stefnan er að aldraðir geti búið lengur heima með því að efla þjónustu í heimahúsi. Þörf fyrir sjúkraliða í heimahjúkrun á því eftir að aukast til muna með þessari breytingu og áfram verður nóg af starfstækifærum á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.
Sjúkraliðanámið er fjölbreytt nám sem líka er góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísinum. Nú er einnig í boði framhaldsnám í Háskólanum á Akureyri fyrir sjúkraliða og eru þar nokkur kjörsvið eins og í öldrun og heimahjúkrun.
Við hvetjum áhugasama til að hafa samband og einnig er hægt að kynna sér námið á heimasíðu skólans www.fiv.is
Lilja Óskarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og kennari við FÍV