Sjómaður ársins í Vestmannaeyjum 2022

Til hamingju með daginn kæru sjómenn og fjölskyldur!

Í ár ætlar Tígull að taka upp þá nýjung á sjómannadaginn að velja Sjómann ársins í Vestmannaeyjum

Að þessu sinni er það 47 ára Eyjapeyinn Sigurfinnur Viðar Sigurfinnsson eða Finnsi, eins og hann er kallaður. Í dag starfar hann sem kokkur og háseti á Sigurði VE-15 sem Ísfélag Vestmannaeyja gerir út.

„Ég byrjaði til sjós í september 1992 þá 17 ára gamall á frystitogaranum Vestmannaey VE-54. Mig langaði að prufa að fara á sjó en sá ekki fyrir mér að verða sjómaður alla ævi. Ég var þar fram í mars 1997,“ sagði Finnsi aðspurður um hvenær hann hóf sjómannsferilinn. „Þá fór ég að vinna í landi í nokkur ár á netaverkstæðinu NET HF og lærði þar netagerð. Fór fullt af afleysingum til sjós á meðan ég starfaði þar, aðallega á loðnuvertíð. Ég byrjaði svo aftur á sjó 2008 þegar mér bauðst pláss á Smáey VE. Var þar með fullt af góðum mönnum, m.a. öðlingnum Nonna heitinum Loga, þar til hún var seld frá Eyjum. Eftir það fór ég á Guðmund VE, frystiskips frá Ísfélaginu, þar til hann var seldur en fékk þá ráðningu á nýsmíði Ísfélagsins Sigurð VE og starfa þar enn í dag.“

Heppin með félagsskap

Finnsi segir margt heillandi við sjómennskuna „en sennilega er söknuðurinn og þá um leið eftirvæntingin að koma heim eftir langar fjarverur það sem heillar mest. Og að geta verið til staðar öllum stundum þegar maður er heima. Ákveðinn sjarmi að vera að koma heim eftir kannski 3-5 vikur í burtu frá fjölskyldu og vinum og  vera að koma heim í gott frí,“  Hann sagði þó margt annað hægt að telja fram sem heilli, eins og þegar vel gengur á veiðum. 

Þegar Finnsi er inntur eftir eftirminnilegasta sjómanninum sem hann hafi verið til sjós með segist hann ómögulega geta gert upp á milli þeirra. „Ég hef verið heppinn með félaga í gegnum tíðina og í dag er ég að róa með úrvals áhöfn og er svo heppinn  að ég lít á þá alla sem vini mína. Það væri hreinlega ósanngjarnt að taka einn út. Ég hreinlega get ekki gert upp á milli vina minna.  Einna helst væri þó að nefna Nonna heitinn Loga. Hann var skipstjóri hjá mér á Smáey þegar ég reri þar, var rétt eldri en ég og því algjörlega einn af okkur peyjunum. Góður drengur sem féll allt of snemma frá,“ sagði Finnsi.

Sýnd veiði en ekki gefin

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera til sjós og oft þarf að fórna einhverju í landi á meðan. „Eftirminnilegasti túrinn minn er sennilega þegar ég fór á frystitogaranum Vestmannaey í Barentshafið yfir þjóðhátíðina 1995. Við vorum í 6 vikur í burtu og á þessum tíma voru fjarskipti ekki eins og í dag. Maður náði litlu sem engu og lélegu sambandi heim, nema þá helst með að senda símskeyti,“ sagði Finnsi og rifjaði upp að túrinn hafi gengið nokkuð vel og landað fullfermi við heimkomuna. Finnur var þó ekki aðeins spenntur yfir góðum afla þegar í land var komið því annað nokkuð beið hans, sem betur fer. „Ég hafði byrjað með stelpu stuttu fyrir túrinn sem ég náði lítið að vera í sambandi við á meðan á túrnum stóð og átti ég ekki von á að hún nennti svona sambandi, hún beið þó og er konan mín í dag,“ sagði Sigurfinnur Viðar Sigurfinnsson, sjómaður ársins, að lokum.

 

 

Foreldrar Finns eru þau Þorbjörg Júlíusdóttir og Sigurfinnur Sigurfinnsson.
En hvað segja foreldrarnir um Finnsa?

Hvernig var Finnsi sem barn?

Finnsi var ótrúlega gott barn, lang yngstur af 3 systkynum og sennilega komist upp með meira en hin tvö.

Hvernig myndir þú lýsa Finnsa?

Afskaplega ljúfur og geðgóður þvílík hjálparhella með einstaka nærveru og alltaf gleði í kringum hann. 

Er einhver minning eða eitthvað eftirminnilegt um Finnsa sem þið viljið segja frá?

Hann var þvílíkur snyrtipinni að það mátti aldrei sjá neitt á honum, var þetta oft til vandræða t.d. vorum við á leið í leikskólann þeagr hann dettur og kom smá kusk á buxurnar hans. Það var ekki sjens að fá hann svona á leikskólann heldur þurftum við að snúa við og fara í hreinar buxur, mamman var nú ekki mjög glöð með þetta.

Hann spurði alltaf hvenær væri sunnudagur því þá fór hann í spariföt sem var búið að finna til á stól kvöldinu áður. Hann óskaði eftir að fá að vera brúðarsveinn í brúðkaupi frænku sinnar og hafði hann sterka skoðun á hverju hann vildi vera í. Kjólföt eða smoking sem auðvitað var saumað á hann 10 ára gamlan.

Síðst af öllu grunuðu okkur foreldrana að hann færi á sjó. Við reyndum að telja hann inn á að gerast rakari svona miðað við hans snyrtimennsku.

En honum langaði að verða gullsmiður en vildi ekki fara erlendis til að læra það en það þar ekki kennt á Íslandi á þeim tíma.

Svo var það þegar við foreldrarnir fórum eitt skiptið í frí að þegar við komum til baka þá hafði Finnsi ráðið sig á Vestmannaey og þar með varð sjómennskan ævistarfið.

    

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search