Símamótið kveður númerin og fer nýjar leiðir við nafngjöf

Mótstjórn Símamótsins og Knattspyrnudeild Breiðabliks hvetja félög til þess að leggja niður númeraröðun liða í yngstu flokkunm

Mælt er með því að skíra liðin eftir íslensku knattspyrnufólki. Knattspyrnukonum í tilfelli Símamótsins sem hefst í Kópavogi á föstudag.

Mótið er haldið í 37. skipti en það hefur verið fyrir stelpur í 5., 6. og 7. flokki kvenna. Elstu stelpurnar eru því á tólfta aldursári. Stelpur í 8. flokki keppa nú einnig í fyrsta sinn á minni útgáfu mótsins á laugardeginum. Rúmlega þrjú þúsund stelpur eru skráðar til leiks sem gerir mótið að því fjölmennasta sinnar tegundar hér á landi.

Í tölvupósti sem sendur var til þátttökufélaga var spurt hvort ekki væri kominn tími til að breyta leiknum? Hætta að gefa liðum númer eftir styrkleika og þannig minna stelpurnar á það svart á hvítu hvar þær standi. Mótin eigi ekki að snúast um það heldur að hafa gaman.

Lengi vel voru lið í yngri flokkum nefnd A,B,C og svo framvegis þar sem A-liðið var sterkast. Í yngstu flokkunum var þessu síðar breytt þannig að liðin voru merkt 1,2,3 og þar fram eftir götunum. Nú leggja Blikar og mótstjórnin til að skíra liðin eftir íslenskum leikmanni eða leikmanni sem spili á Íslandi.

„Það má vera hvaða íslenska knattspyrnukona sem er, núverandi eða fyrrverandi, atvinnumaður eða leikmaður í 2. deild á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

„Það væri gaman að sjá ykkur skíra liðin í höfuðið á leikmönnum meistaraflokks kvenna í ykkar félagi.“

Með þessu sé markmiðið að búa til stjörnur og fyrirmyndir úr enn þá fleiri og óþekktari knattspyrnukonum ásamt því að gera þær þekktu ennþá þekktari.

„Því þekktari sem knattspyrnukonurnar okkar eru því líklegra er að fleiri ungar stelpur mæti á völlinn og/eða fylgist með þeim í sjónvarpinu.“

Þá telja Blikar og mótstjórn Símamótsins næsta víst að með slíkri „stjörnuvæðingu“ muni knattspyrnuiðkun kvenna aukast, bæði í fjölda stelpna og einnig í árafjölda sem hver stelpa endist í sportinu.

„Einnig erum við viss um að þetta skref muni létta lundina hjá þeim stelpum sem tilheyra slökustu liðunum í hverju félagi, minnki samanburð og meting. Auðvitað vita flestar stelpur og foreldrarnir hvar þær standa en það er samt óþarfi að hafa það svart á hvítu, sérstaklega í þessum aldursflokkum þar sem mótin eiga að snúast númer 1,2 og 3 um að hafa gaman.“

Um sé að ræða jákvæða ögrun fyrir suma foreldra og stelpur sterkari liðanna.

„Það munu eflaust eiga sér stað nokkur kostuleg samtöl í kringum þetta nýja fyrirkomulag,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

Jóhann Þór Jónasson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, segir í samtali við Vísi að breytingarnar séu í takt við stefnu félagsins í uppeldis- og afreksstarfi.

„Þetta er hluti af okkar markvissu stefnu að draga fram sterkar fyrirmyndir. Að stelpurnar geti mátað sig við þær,“ segir Jóhann Þór.

Þessa stundina séu stelpurnar í meistaraflokki að heimsækja stelpurnar í yngri flokkum og hvetja þær til dáða fyrir mótið.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search