29.12.2020
Signý er ung og efnileg listakona. Hún tók þátt í listasýningu hjá Listafélagi Vestmannaeyja í Hvíta húsinu bæði í sumar og í september þar sem þemað var Lundinn. Hún fær innblástur helst af netinu eða bíómyndum.
Signý er nýbúin að gera stórt listaverk á vegginn í herberginu sínu og fékk Tígull aðeins að forvitnast meira um ungu listakonuna.
Nafn og aldur:
Signý Geirsdóttir 13 ára.
Hvað ertu búin að teikna lengi?
Hef alltaf teiknað en hef aldrei verið eins áhugasöm og núna.
Hvað finnst þér skemmtilegast að teikna/mála?
Ég hef ekki hugmynd, alls konar eiginlega.
Hvernig færðu hugmyndir um hvað þú átt að teikna/mála?
Helst á netinu og frá öðrum listamönnum. Stundum fæ ég innblástur úr bíómyndum.
Hvað er uppáhalds listaverkið þitt?
Málverk og myndverk heilla mig en ég á ekkert uppáhalds.
Við sáum á netinu að þú varst að mála vegg í herberginu þínu. Viltu segja okkur frá ferlinu?
Ég sá þetta á netinu og fannst formin áhugaverð. Þegar ég fékk svo stærra herbergi og fannst spennandi að fá að ráða hvernig herbergið yrði málað og fannst upplagt að prófa. Ég valdi litina, fjóra bláa liti og keypti málningarprufur frá Flugger, bjó til formin með málningarlímbandi og kláraði nokkrar þannig rúllur. Ég taldi formin og þurfti að reikna hvað það yrðu sirka mörg af hverjum lit. Að því loknu byrjaði ég að mála einn lit í einu í formin. Foreldrar mínir hjálpuðu svo, til að flýta fyrir og þegar ég var búin að mála seinni umferðina og málningin orðin snertiþurr tók ég límbandið af. Ég er svo búin að vera undanfarna daga að laga línurnar, þar sem límið hélt ekki alveg alls staðar.
Ertu að fylgjast með öðrum að teikna á netinu?
Já, mjög mikið. T.d. á youtube og tik tok og þaðan fæ ég innblástur og kemur mér í stuð til að teikna eða mála.