Senda skýr skilaboð til þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem starfa við almannaheillastarfsemi um allt land

08.12.2020

Stórauknir hvatar til að styðja við almannaheillastarfsemi

 

Stefnt er að því að framlög einstaklinga og atvinnurekenda til almannaheillastarfsemi aukist verulega með nýju frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra.

Ráðherra mælti fyrir málinu á Alþingi í síðustu viku, en tillögurnar snúa bæði að auknum hvötum til að styðja við aðila í almannaheillastarfsemi og léttari skattbyrði aðilanna sjálfra.

Í frumvarpinu er kveðið á um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld í þessu skyni. Þannig er lagt til að einstaklingum verði heimilt að draga framlög til almannaheillastarfsemi fyrir allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar. Samkvæmt frumvarpinu ber þeim sem styrkja almannaheillastarfsemi með þessum hætti að fá móttökukvittun frá móttakanda styrksins, en móttakandi sendir Skattinum í kjölfarið nauðsynlegar upplýsingar um gjafir eða framlög frá einstaklingum á hverju almanaksári. Umræddar upplýsingar eru í framhaldinu forskráðar á skattframtal einstaklings vegna næstliðins tekjuárs.

Enn fremur er lagt til að atvinnurekendur geti dregið framlög sem nema allt að 1,5% af árstekjum frá skattskyldum tekjum sínum, en hlutfallið er nú 0,75%.

Hækkun á heimiluðu hlutfalli af tekjum við frádrátt einstakra gjafa og framlaga til almannaheilla úr 0,5% í 0,75% öðlaðist gildi 1. janúar 2016 og kom til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015. Við breytinguna hækkuðu framlög um ríflega þriðjung milli rekstraráranna 2014 og 2015. Stefnt er að því að tvöföldun hlutfallsins í frumvarpi ráðherra muni því leiða til verulegrar aukningar á framlögum.

Við þetta bætist að nýleg frádráttarheimild atvinnurekenda vegna framlaga til kolefnisjöfnunar tvöfaldast, úr 0,75% í 1,5%. Alls geta atvinnurekendur því fengið frádrátt sem nemur 3% á ári vegna framlaga sinna.

Fjölþættar undanþágur frá skattgreiðslum

Samhliða auknum hvötum til að styðja við almannaheillastarfsemi eru lagðar til ýmsar undanþágur frá greiðslu skatta fyrir slíka aðila. Þannig er lagt til að þeir verði undanþegnir greiðslu tekjuskatts og staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, auk undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts með nánar tilgreindum skilyrðum.

Enn fremur er lagt til að aðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir greiðslu stimpilgjalda og geti auk þess sótt endurgreiðslu allt að 60% greidds virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Þá er lögð til undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til aðila í almannaheillastarfsemi.

Breytingar í samræmi við umhverfið í nágrannalöndum

Samhliða framangreindum breytingum er lagt til að hugtakið almannaheill verði tekið upp í 4. grein laga um tekjuskatt í stað orðsins almenningsheill. Enn fremur er nánar tilgreint í ákvæðinu hvaða aðilar falla undir skilgreininguna, en til þeirra teljast meðal annars ýmis mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarfsemi, björgunarsveitir og neytenda- og forvarnarstarfsemi.

Verði frumvarpið að lögum eru breytingarnar taldar munu hafa neikvæð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs sem nemur um 2 milljörðum króna á ári, en áhrifin eru ótímabundin.
Ráðherra telur tillögurnar bæði mikilvægar og tímabærar, en með þeim verði kerfið hér á landi mun líkara því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Bæði verður rekstrarumhverfið auðveldara og hvatar til að styðja við starfsemina stóraukast.

„Með tillögunum í frumvarpinu sendum við skýr skilaboð til þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem starfa við almannaheillastarfsemi um allt land og segjum einfaldlega, takk fyrir okkur, “ segir Bjarni Benediktsson.

Greint er frá þessu á vef stjórnarráðsins.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is