Sektir fyrir brot gegn sóttvarnalögum vegna COVID-19

27.03.2020

Vegna ákvörðunar heilbrigðisráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir í samræmi við sóttvarnalög nr. 19/1997, sem eru viðbrögð við COVID-19 heimsfaraldrinum, hefur ríkissaksóknari nú sent öllum lögreglustjórum á landinu fyrirmæli vegna brota á reglum heilbrigðisráðherra sem fjalla um samkomubann, lokun samkomustaða og starfsemi, sem og um einangrun smitaðra og um sóttkví.

Við vinnslu fyrirmælanna hefur m.a. verið litið til þess hvernig ríkissaksóknaraembætti á Norðurlöndunum hafa brugðist við þeim aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19.

Að meginstefnu til byggja fyrirmæli ríkissaksóknara á því að sektum verði beitt vegna brota á sóttvarnalögum og reglum settum samkvæmt þeim. Sektarfjárhæðir fara eftir alvarleika hvers brots.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt til hvaða úrræða lögregla getur gripið ef farið er gegn ákvörðunum heilbrigðisráðherra um sóttvarnaáðstafanir. Enn sem komið er hafi tilkynningar til lögreglu vegna brota á opinberum sóttvarnaáðstöfunum verið fáar, sem sé til marks um samstöðu í samfélaginu um þýðingu og mikilvægi þessara aðgerða.

Ríkissaksóknari leggur á það áherslu að ákærendur meti hvert tilvik fyrir sig og ákvarði sektarfjárhæð með hliðsjón af alvarleika brots en ljóst er að brotin geta verið afar mismunandi og þar með mis alvarleg.

Þá er ljóst að í sumum tilvikum kann háttsemin að vera það alvarleg, einkum varðandi brot gegn reglum um einangrun, að háttsemin eigi undir ákvæði 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ákæra fyrir brotið. Sem dæmi má nefna að sakborningur geri nokkurn hóp manna útsettan fyrir sýkingu eða sýki hóp manna af COVID-19 og enn alvarlegra ef um er að ræða að útsetja eða sýkja þá sem eru í sérstakri hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma. Ef slíkt álitaefni kemur upp ber ákærendum að upplýsa ríkissaksóknara og héraðssaksóknara strax um málið en héraðssaksóknari fer með ákæruvald vegna brota gegn 175. gr. almennra hegningarlaga.

Brot gegn reglum heilbrigðisráðherra nr. 259/ 2020 um sóttkví og einangrun vegna COVID-19:

           Brot gegn skyldu til að fara/vera í sóttkví, 3. gr.,

           Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

           Brot gegn skyldum þeirra sem eru í sóttkví, 4. gr.,

           Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

           Brot á reglum um einangrun, 1. og 2. mgr. 7. gr.,

           Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 150.000-500.000.

           Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots.

Brot gegn reglum skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra nr. 243/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar:

           Brot á reglum um fjöldasamkomu – þ.e. fleiri en 20 koma saman, 3. gr.,

           Sekt einstaklings sem sækir samkomu kr. 50.000.

           Sekt forsvarsmanns/skipuleggjanda sem stendur fyrir samkomu/opnun kr. 250.000-500.000.

           Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots forsvarsmanns/skipuleggjanda.

           Brot á reglum um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu, 5. gr.,

           Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 100.000-500.000.

Sigríður J. Friðjónsdóttir

Ríkissaksóknari

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search