28.07.2020
Ólafur Helgi Kjartansson hefur skamman frest til að ákveða hvort hann fellst á þá ákvörðun dómsmálaráðherra að flytjast til Vestmannaeyja og taka við embætti lögreglustjóra þar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, hefur tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum, um flutning hans til embættis lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.
Tilkynningin mun hafa komið til hans með formlegu bréfi þar sem fram kemur að flutningur Ólafs Helga til Eyja taki gildi strax um mánaðamótin, fallist hann á að flytjast af fasta landinu og hefur hann því skamman tíma til að taka afstöðu til þessara breytinga.
Hafni Ólafur breytingunum, kann að vera einfaldara fyrir ráðherra að gera við hann starfslokasamning. Ólafur Helgi verður 67 ára í september og er því kominn á leyfilegan eftirlaunaaldur.
Eins og greint var frá í fjölmiðlum í síðustu viku hefur ráðherra þegar óskað eftir því að hann láti af störfum hjá lögreglunni á Suðurnesjum, þar sem allt hefur logað í illdeilum undanfarna mánuði.
„Ég tjái mig ekki um það,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, inntur eftir upplýsingum um fyrirhugaðan flutning hans. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra hefur ekki svarað fyrirspurnum Fréttablaðsins um málið.
Staðan í Eyjum laus
Miklar hrókeringar hafa verið hjá lögreglustjórum á undanförnum misserum en Páley Bergþórsdóttir lét af embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum fyrr í sumar þegar hún var skipuð lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
Halla Bergþóra Björnsdóttir sem gegnt hafði stöðu lögreglustjóra fyrir norðan var skipuð lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir lét af því embætti og var skipuð ríkislögreglustjóri.
Arndís Bára Ingimarsdóttir gegnir nú stöðu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum en hún var sett yfir embættið tímabundið eftir að Páley fluttist norður. Hún var ráðin til starfa til lögreglunnar á Vestmannaeyjum árið 2016 og hefur síðan starfað á ákærusviði embættisins.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum, vill ekki sjá Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum taka við embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum
„Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að sé lögreglustjóri óhæfur til að sinna sínu embætti á Suðurnesjum er hann jafn óhæfur til að sinna því í Vestmannaeyjum,“ segir Hildur í færslu á Facebook síðu.
Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, hefur tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum, um flutning hans til embættis lögreglunnar í Vestmannaeyjum.
Tilkynningin mun hafa komið til hans með formlegu bréfi þar sem fram kemur að flutningur Ólafs Helga til Eyja taki gildi strax um mánaðamótin, fallist hann á að flytjast af fasta landinu og hefur hann því skamman tíma til að taka afstöðu til þessara breytinga.
Eðlilegt ferli væri að auglýsa stöðuna
Hildur segir að skipun Ólafs Helga í stöðu lögreglustjóra vera að samfélaginu í Vestmannaeyjum neikvæð skilaboð. „Annað væri stórkostleg gjaldfelling embættisins,“ skrifar Hildur.
Hún segir jafnframt að það væri réttast að auglýsa stöðuna láta Ólaf Helga sækja um eins og aðra.
„Eðlilegt ferli væri að auglýsa stöðu lögreglustjóra í Vestmannaeyjum nú þegar og þá gæti Ólafur Helgi vissulega sótt um líkt og hver annar en að veita einhverjum tækifæri umfram annan og hvað þá einhverjum sem nota bene er hringamiðjan í þessu erfiða máli á Suðurnesjum væri óásættanlegt,“ skrifar hún að lokum.