Miðvikudagur 17. júlí 2024

Saumaðar landslagsmyndir unnar með ull og silki á hördúk

Ólöf Sigurjónsdóttir er kunn meðal vina og ættingja fyrir mikla sköpunarþörf, færni og dugnað.

Eflaust kannast margir við kort  með eftirprentunum af myndunum hennar. Þau hafa verið til sölu víða og verið vinsæl í verslunum ferðamanna. 

Ólöf er nítíu og þriggja ára, vinnur alla daga og er stöðugt að bæta við nýjum verkum. Flest verkin sem hún hefur unnið undanfarin ár eru saumaðar landslagsmyndir unnar með ull og silki á hördúk.

Ólöf fæddist árið 1931 og er dóttir hjónanna Guðrúnar Jónsdóttur frá Seljavöllum undir Eyjafjöllum og Sigurjóns Jónssonar úrsmiðs frá Tjörnum Vestur-Eyjafjallahreppi. Sigurjón var bróðir Eyjólfs j. Eyfells listmálara. 

Ólöf á ættir að rekja til Vestmannaeyja, en langafi hennar og amma í föðurætt bjuggu þar á bæ sem hét Tún. Móðursystkyni hennar frá Seljavöllum fluttu mörg til Eyja og settust þar að. Þau voru Guðjón og Vigfús stofnendur Vélsmiðjunnar Magna, Sigurður, Ragnhildur, Ásta, Magnús og Jón Ó.E. 

Það var gestkvæmt á æskuheimili hennar í Reykjavík. Þar dvöldust oft á tíðum frændfólk og vinir frá Eyjafjöllum og Vestmannaeyjum. Ólöf naut góðs af því að ferðast mikið um landið með Guðjóni frænda sínum á Chevrolet drossíunni sem útvegsmenn, vélstjórar og formenn í Vestmannaeyjum færðu honum í sextugsafmælisgjöf. 

Þegar Ólöf var ungabarn kom hún fyrst með fjölskyldunni í heimsókn undir Fjöllin. Þá komu frændur hennar ríðandi að Markarfljóti, sem var óbrúað og sundriðu þeir með litlu reykvísku frænkuna yfir fljótið. Hún dvaldist á sumrin í Eyvindarhólum og á Seljavöllum. Margar mynda  hennar byggja á minningum frá þessum tíma og fallegum sveitunum Eyjafjalla. Ólöf var aðeins sextán ára þegar henni var treyst til þess að sauma altarisdúk í Eyvindarhólakirkju.  Þar er hann enn.

Ólöf er ekkja, en eiginmaður hennar var Hákon Heimir lögfræðingur. Þau kynntust á Þjóðhátíð í Eyjum árið 1950. Hún vann alltaf skrifstofustörf en skellti sér oft í það að hjálpa vinum og ættingjum við að flísaleggja, veggfóðra, bólstra og dytta að þegar vantaði færar hendur. 

Ólöf og Hákon Heimir eignuðust tvær dætur, þær Sigrúnu Erlu ljóðskáld og tónlistarkennara og Huldu Margréti myndlistarkonu sem er með vinnustofu  í Skvísusundi í Vestmannaeyjum. Ólöf býr nú á Hrafnistu í Reykjavík.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search