01.05.2020
Satay kjúklingaspjót (fyrir 3):
Hráefni:
2-3 vænar kjúklingabringur
1 krukka satay sósa (Ég nota Blue Dragon satay sósu úr glerkrukku)
1 msk sojasósa
1 hvítlauksrif, smátt saxað eða rifið
Sítróna, skorin í tvennt
1/2 kjúklingateningur
Krydd
Aðferð:
Byrjið á að skera kjúklinga-bringurnar í litla jafnstóra bita. Setjið kjúklingabitana í skál. Hellið helmingnum af satay sósunni yfir kjúklinginn ásamt sojasósunni, hvítlauknum og safanum úr hálfri sítrónu. Blandið þessu vel saman og þræðið upp á teina og kryddið. Grillið á vel heitu grilli í 10-15 mínútur og snúið nokkuð oft.
Hægt er að hita afganginn af satay sósunni í potti ásamt 1 dl af vatni, 1/2 kjúklingatening og safanum úr hálfri sítrónu og bera fram með kjúklingaspjótunum ásamt hrísgrjónum og fersku salati.
Sumarsalat
Hráefni:
Iceberg-salat
Klettasalat
Mangó
Cherry-tómatar
2 bollar svartar Doritos-flögur, muldar
1 bolli kasjúhnetur
3 msk. hlynsíróp
2 msk. sykur
Aðferð:
Skerið salatið í strimla, tómatana í fjórðunga, mangóið í teninga og setjið í skál með klettasalatinu. Magnið fer eftir því hversu margir eru í mat. Hitið pönnu miðlungshita og þurrristið kasjúhneturnar. Þegar þær eru rétt byrjaðar að fá á sig gullinn lit er Doritos-flögunum bætt út á pönnuna. Þurrristið blönduna saman í nokkrar mínútur og bætið svo við hlynsírópi og sykri. Steikið áfram í nokkrar mínútur. Látið kólna og brjótið niður áður en dásemdinni er dreift yfir salatið.
Kartöflusalat
Hráefni:
Soðnar kartöflur
Sellerí
Döðlur
2 msk. dijon-sinnep
4 msk. extra virgin-ólífuolía
Salt
Aðferð:
Byrjið á að setja sinnepið og ólífuolíuna saman í skál og hræra duglega. Skerið kældar kartöflur í bita, sellerí í sneiðar og döðlur smátt. Blandið öllu saman í skál og saltið eftir smekk. Þetta salat bragðast best eftir klukkustund í kæli.