01.04.2020
Fræðsluráð samþykkti í dag á fundi sinum að færa starfsdag GRV og Frístundavers, sem áætlaður er 27. apríl nk., fram til þriðjudagins 14. apríl nk. svo starfsmenn skólans hafi svigrúm til að undirbúa starfið eftir páskaleyfi.
Staðan í GRV, leikskólunum, tónlistarskóla, frístundaveri og hjá dagforeldrum
Fræðslufulltrúi lagði fram minnisblað um starfið í fræðslu- og uppeldisgeiranum frá því samkomubann hófst þann 15. mars sl.
Nemendur GRV mættu í skólann í fjórar kennslustundir á dag fyrstu vikuna. Mæting var dræm og vantaði töluvert af nemendum í hvern bekk. Vegna fjölda kennara í sóttkví við lok þeirrar viku var ekki hægt að halda áfram óbreyttu skipulagi og því tekin ákvörðun um fjarkennslu. Börn í forgangi hafa þó mætt í skólann og hefur foreldrum barna í 3. og 4. bekk, sem eru í framlínustörfum, nú verið boðið að sækja um forgang.
Fjarkennslan er áætluð til 3. apríl nk. og stefnt á að nemendur mæti í skólann eftir páskaleyfi skv. fyrra fyrirkomulagi.
Á leikskólunum mæta börn annan hvern dag en börn í forgangi fá vistun eftir þörfum. Mæting hefur verið með minnsta móti.
Öll hópkennsla í Tónlistarskóla Vestmannayja var felld niður en einstaklingstímar voru kenndir áfram og færðust að einhverju leyti yfir í fjarkennslu frá 23. mars.
Frístundaver var fært í Hamarsskóla svo skólahópar gætu haldið sér frá skóla í frístund. Örfá börn nýttu þessa þjónustu.
Þegar farið var í fjarkennslu var tekin ákvörðun um að frístundaver væri einungis í boði fyrir börn í forgangi en sá hópur var stækkaður frá 30. mars og býðst nú einnig börnum í 3. og 4. bekk.
Þjónusta dagforeldra hefur haldið sér en börnum hjá Kristínu og Söndru er skipt í tvo hópa sem mæta til skiptis.
Viðbragðsaðilar hafa verið upplýstir daglega um þróun mála varðandi skólastarf í sveitarfélaginu en þeir hafa verið í góðu sambandi við aðgerðastjórn almannavarna ríkisins.
Allar ákvarðanir um frekari takmörkun eða breytingar á skólahaldi hafa verið teknar í samráði við umdæmislækni sóttvarna.
Starfið hefur gengið vel sem er ekki sjálfgefið þegar svo miklar breytingar eiga sér stað á stuttum tíma.
Starfsfólki og foreldrum ber að þakka fyrir jákvæðni, þolinmæði og þrautseigju á þessum erfiðu tímum.
Ráðið þakkar upplýsingarnar og einnig öllum starfsmönnum sviðsins og Vestmannaeyjabæjar fyrir þeirra framlag. Það er ánægjulegt að sjá hvernig starfsfólk sem er í framlínustörfum, þjónustuþegar og allir íbúar mæta erfiðum aðstæðum með velvilja, skilningi, jákvæðni og góðu samstarfi. Ráðið leggur áherslu á að bæjarbúar standi saman og leggi sig fram að halda áfram uppi jákvæðni og bjartsýni á erfiðum tímum.
Höfum í huga að við erum öll almannavarnir og hlýðum Víði.
Forsíðumynd Tói Vídó