Þriðjudagur 16. apríl 2024
Sagnheimar

Sagnheimar – Hörður Baldvinsson með margt á döfinni

Hörður Baldvinsson tók við sem safnstjóri Sagnheima, byggðasafns 15. maí 2019 af Helgu Hallbergsdóttur. Hörður er með M.Ed. próf í lýðheilsu- og kennslufræðum frá Háskólanum í Reykjavík ásamt diplómanámi í markaðs- og útflutningsfræðum og diplómanámi ásamt PMA í verkefnastjórnun. 

Hörður hefur mikla reynslu afrekstri sem og víðtæka reynslu á sviði verkefna- og viðburða-stjórnunar. Hörður hefur starfað undanfarin sjö ár sem sviðsstjóri hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi ásamt því að gegna stöðu verkefnastjóra við Símenntunarmiðstöð Vesturlands.

Hörður sem er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur er kvæntur Bjarneyju Magnúsdóttur leikskólastjóra og eiga þau tvær dætur.

Alls sóttu sex um stöðu safnstjóra, þrír karlar og þrjár konur. Allar umsóknir stóðust hæfniskröfur til starfsins og voru metnaðarfullar. Við viljum þakka umsækjendum kærlega fyrir auðsýndan áhuga og óskum Herði velfarnaðar í starfi, segir í fréttatilkynningu sem birtist á vef Þekkingarseturs Vestmannaeyja.

Eyjamaður og Baldari

„Pabbi minn var Baldvin Skærings-son og Þórunn Elíasdóttir móðir mín. Pabbi kemur frá Rauðafelli undan Eyjafjöllum og mamma mín er frá Bala í Þykkvabæ. Við vorum níu systkinin. Fyrst bjuggu þau í Steinholti sem stóð við Kirkjuveg 9a en seinna byggði hann Illugagötu 7. Þá var fyrra hollið af systkinahópnum farið að heiman en yngra hollið var á Illugagötunni hjá þeim. 

Þá fór pabbi að byggja í Hraun-túninu og við bjuggum um tíma í Gefjun við Strandveg, gömlu húsi sem þau eldri muna eftir á meðan hann var að klára húsið í Hrauntúninu. Það breyttist svo allt 23. janúar 1973. Þá fórum við upp á land og bjuggum fyrst í Hafnarfirði en pabbi byggði sér svo hús í Mosfellsbæ. Þar bjuggu pabbi og mamma til dauðadags. Þannig að þau komu ekki aftur,“ segir Hörður sem sjálfur ílengdist í Mosfellsbænum. 

Konan sat fyrir þegar kom að námi

Kona Harðar er Bjarney Magnús-dóttir, leikskólastjóri á Kirkjugerði, Eyjakona í húð og hár. „Pabbi hennar var Magnús Sigurðsson og mamma Guðrún Kristófersdóttir frá Oddsstöðum. Við flytjum til Reykjavíkur 1981 eða 1982. Eiginkonan fór í Fóstruskólann sem þá var og ég í Tækniskóla Íslands. Ætlaði að verða tæknifræðingur. En það var nú bara þannig að við vorum skítblönk og við höfðum ekki ráð á að vera bæði í skóla. Þannig að ég ákvað að fara að vinna hjá verksmiðjunni Vífilfelli sem framleiðir  m.a. Coca Cola á meðan Bjarney kláraði sinn skóla.

Eftir það var hugmyndin að ég færi aftur í skóla en það atvikaðist þannig að allt í einu var ég orðinn 

verksmiðjustjóri hjá Davíð Scheving Thorsteinssyni. Rak gos-drykkjahlutann fyrir hann og síðar erlenda aðila, Seltzer Drinks. Þeir buðu mér svo til Bretlands og taka við verksmiðju þeirra í Wales.“

Starf og nám í Wales

Gerði Hörður samning við þá um tvö ár og nýtti tækifærið og fór í háskóla í Swansea. „Í eitthvað sem heitir í dag, frumkvöðlafræði sem ég kláraði. Við flytjum heim árið 2000 og fór ég þá í rekstrarhagfræði og aðþjóða markaðssetningu við Háskóla Íslands. Vann hjá Iðntæknistofnun í fjögur eða fimm ár. Með því er ég alltaf að taka eitt og eitt fag í Háskólanum, verkefnastjórnun m.a. og fór svo í kennarann. 

Fyrst náði ég mér í réttindi grunnskólakennara og fannst þá vanta lítið upp á framhaldsskólaréttindi að ég skellti mér í það líka. Þá fannst mér vanta svo lítið upp á masterinn að ég tók mastersgráðu í kennslufræðum.“Þarna fannst Herði eiginlega komið nóg af námi en þó ekki alveg. „Ég var búinn að vera 11 ár í skóla ef ég man rétt. Var að taka eitt eða tvö fög þannig að þetta var meira eins og hobbý. “

Fjölbreytt störf og meiri menntun

Eftir að Hörður  byrjaði að kenna fannst honum tilvalið að sérhæfa sig. „Ég sá um endurmenntun hjá Norðuráli á Grundartanga og þá sárvantaði kennara með þekkingu á vökvatækni. Þá skrapp ég á hverju ári í fimm ár í skóla í Bretlandi og náði mér í diplómu í þessari tækni. Þetta var sumarskóli og tók ég yfirleitt tvö námskeið á sumri. Notaði sumarfríið mitt í þetta.

Í tíu ár sá ég um verklegu deildirnar í Fjölbrautarskólanum á Akranesi sem sviðsstjóri þar ásamt því að kenna í álverinu. Ég var einnig starfsmaður Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands á Akranesi og kenndi út um allar jarðir. Tók að mér ýmis önnur verkefni, eitt og annað sem þörf var á á hverjum tíma,“ segir Hörður um það sem hann hefur verið að fram að þessu. 

Stefndu á Vestmannaeyjar

En  hugurinn stefndi alltaf heim til Eyja. „Við hjónin vorum búin að ákveða það fyrir löngu, að flytja til Eyja. Ég held að ég hafi fimm sinnum sótt um að komast í kennslu uppi í Framhaldsskóla. Einhverra hluta vegna komst ég ekki einu sinni í viðtal,“ segir Hörður og hlær. 

„Svo losnaði þessi staða í Sagnheimum og þetta hefur verið mitt áhugamál í gegnum tíðina. Pæla í gömlu dóti og fannst tilvalið að sækja um. Var svo heppinn að þeir vildu fá mig í starfið,“ segir Hörður og er mjög ánægður í dag.

„Ég tek við mjög góðu búi af Helgu sem hefur lagt mikið á sig til að gera safnið að því sem það er í dag. Flottar sýningar og frábært safn. Ég ætla að halda áfram á sömu braut, um það snýst málið,“ segir Hörður og það er af nógu að taka. 

Atburðir á Safnahelgi

Nú er hann að undirbúa sýningu, Eyjamenn á Ólympíuleikum. „Þetta er saga fimm Eyjamanna sem skelltu sér á Ólympíuleikana í Berlín 1936. Ég ætla að fjalla um þessa leika og sýningin verður um Safnahelgina tíunda til tólfta nóvember í haust. Ég hef verið að viða að mér myndum úr fórum Ólympíufaranna og sumar sem aldrei hafa sést áður. Ég ætla að fjalla aðeins um ferðina og hvernig þeir upplifðu þetta.“

Annað verkefnið er endursýning á kvikmyndum sem sýndar voru sjöunda og áttunda mars 1921 fyrir fullu húsi í Nýjabíói sem stóð þar sem Hótel Vestmannaeyjar eru í dag. „Það er tími til kominn að sýna þær aftur og ég hef hugsað mér að rukka sama og var rukkað þá. Sem voru 20 aurar. Ég get ekki gefið til baka. Það verður bara að vera sem næst því en þetta er bara til gamans gert. 

Sýnt verður í  Alþýðuhúsinu og ég ætla að raða upp stólum eins og í bíói. Það verður orgelleikur eins og var þegar þöglu myndirnar voru sýndar í gamla daga.  Ég trúi ekki öðru en að þetta verði tilbreyting. Þetta eru tvær myndir og er önnur ein af fyrstu myndunum frá Charlie Chaplin. Fyrsta myndin sem sýnd var hér í Eyjum er því miður ekki lengur til. Myndirnar sem við sýnum eru um 25 mínútur hvor.“

Hörður segir svo nokkur verkefni í pípunum hjá Sagnheimum. „Mig langar að minnast þessara frábæru íþróttamanna sem hér voru í upphafi síðustu aldar og lögðu grunninn að því sem við höfum í dag. Þar má nefna Friðrik Jesson, Sigurður Sigurðsson og fleiri sem fóru á Ólympíuleikana í Berlín 1936.Síðast en ekki síst þá er svo sannarlega kominn tími til að minnast þeirra sem ruddu veginn í útgerð í Vestmannaeyjum,“ sagði Hörður að endingu.

– Grein eftir Ómar Garðarsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search