18.01.2020 höfundur Björn Birgisson frá Grindavík.
15 ára hætti hann í skóla og var svo lánsamur að fá skipsrúm hjá aflasælum skipstjóra. Var hjá honum í 10 ár og þénaði alveg ágætlega. Fór vel með launin sín og lagði fyrir. 18 ára gekk hann í Sjálfstæðisflokkinn og kaus hann alltaf.
Við 25 ára aldurinn fékk Palli þá hugmynd að gaman væri að stofna til eigin útgerðar, þá búinn að byggja, kominn með konu og tvö lítil börn. Palla langaði að vera sjálfstæður maður í sjálfstæðu landi – og eigin herra – rétt eins og flokkurinn hans boðaði!
Kynnti sér verð á bátum, frekar litlum, sem þó dygðu til sjóróðra vetur, sumar, vor og haust. Fékk uppgefið verð á mörgum slíkum bátum – án aflaheimilda. Nokkurn veginn á verðbilinu 20 til 25 milljónir. Palla kom það verð ekkert á óvart – og átti langleiðina fyrir kaupunum – enda flottur strákur og aðhaldssamur! Hann gat alveg keypt svona bát – sem dygði til sjóróðra allt árið.
Svo fór hann að kynna sér aðra þætti málsins! Hann komst að raun um að ef hann væri einn á bátnum, hugsanlega við annan mann hluta ársins, þyrfti hann að veiða um 250 tonn árlega til að skapa sér og sínum einhverja afkomu. Palli fór aðeins dýpra í dæmið. Bátur 25 millur og veiðarfæri 5 millur, taldi sig geta klofið það – með litlu láni frá viðskiptabankanum sínum!
Á þeim tímapunkti leit dæmið alls ekki svo illa út!
En það er til lítils að eiga bát og fín veiðarfæri – ef ekkert má veiða! Palli reiknaði áfram.
Ég þarf að kaupa eða leigja heimildir til að geta veitt þessi 250 tonn. Hann komst að raun um að til þess þyrfti hann að leggja fram um 500 milljónir! Palli svitnaði! – 500 hundruð milljónir?
Sorgbitinn settist hann niður og sá drauminn sinn renna niður með regnvatninu á rúðunum. Allt fór að hringsnúast í höfði hans. Hann vissi vel að samkvæmt lögum á þjóðin fiskveiði auðlindina – í orði kveðnu alla vega. Hann kynntist því líka vel að þessi kaup fyrir 500 milljónir færu öll í vasa einkaaðila – kvótahafa – og ekki eyrir af því til þjóðarinnar, sem þó var eigandi þess sem hann hugðist kaupa! Jú, kannski rynnu örfáar krónur af þeirri upphæð í ríkissjóð – eiganda auðlindarinnar!
Palli eiginlega örmagnaðist og stundi!
En þjóðin á allan þennan fisk! Hvers vegna á ég að borga útvöldum einstaklingum fyrir að fá að veiða hann?
Fór samt í bankann sinn. 500 millur! – Gleymdu því bara Palli minn, sagði bankastjórinn og bauð Palla kaffibolla í sárabætur!
Draumurinn um að vera sjálfstæður maður í sjálfstæðu landi hafði breyst í martröð.
Palli réð sig í framhaldinu á fraktara sem sigldi til vesturheims með viðkomu í Panama.
Forsíðumynd: Hörður Kristjánsson