Það er tilhlökkunarefni að mæta í Einarsstofu, Safnahúsi á morgun kl. 13:00 þar sem Hörður Baldvinsson, safnstjóri Sagnheima segir frá för fimm Eyjamanna á Ólympíuleikana í Berlín 1936. Þetta var mikil ævintýraferð fyrir 50 Íslendinga, þar af fimm Eyjamenn að koma úr fásinninu á Íslandi til Þýskalands sem þá var í miklum blóma.
Þeir sem kepptu frá Eyjum voru Sigurður Sigurðsson í hástökki og þrístökki og Karl Vilmundarson í tugþraut. Friðrik Jesson og Jón Ólafsson sýndu glímu og Þorsteinn Einarsson, glímukóngur, methafi í kúluvarpi, formaður íþróttaráðs Vestmannaeyja og síðar íþróttafulltrúi ríkisins var fararstjóri hópsins.
Hörður hefur lagt mikla vinnu í að rekja sögu hópsins og hefur notið góðrar aðstoðar afkomenda Berlínarfaranna sem þarna lifðu sennilega stærsta ævintýri lífs síns. Á eftir fyrirlestri Harðar verður opnuð sýning í Sagnheimum sem á eftir að koma á óvart. Þar er að finna myndir, frásagnir, verðlaunapeninga og margt fleira sem tengist þessum stóra atburði í íþróttasögu Íslands og ekki síður Vestmannaeyja sem áttu tvo af fjórum keppendum á leikunum í frjálsum íþróttum og tvo í hópi glímumanna.
Það eitt er staðfesting á að íþróttir í Vestmannaeyjum standa á gömlum merg.
Miðvikudagur 22. mars 2023