Árið er 2002. Í Höllinni í Vestmannaeyjum er blásið til hljómsveitakeppni þar sem spila 9 hljómsveitir, ýmist frá Vestmannaeyjum, Reykjavík, Selfossi, Hellu og Seyðisfirði. Keppnin ber yfirskriftina Allra veðra von. Í verðlaun voru stúdíótímar hjá Ríkisútvarpinu og fá að spila á Þjóðhátíð sama ár.
Næstu ár var þessi keppni haldin og jafnt og þétt jókst fjöldi hljómsveita frá Vestmannaeyjum sem tók þátt. Hér blómstraði tónlistarmenning og þegar mest var má skjóta á að hér hafi verið í það minnsta 40-50 hljómsveitir með frumsamið efni starfandi í mismiklum mæli. Stærstur hluti þessa hóps hafði Fiskiðjuna sem húsaskjól. Þar hafði hver sem vildi möguleika á að koma inn, koma sér upp aðstöðu og byrja að skapa. Á þeim tíma var talað um að í þessu gamla fiskvinnsluhúsnæði færi nú fram annars konar starfsemi, svokallað Rokkeldi. Eftir að Fiskiðjan brann er eins og tónlistarlífið hafi lagst í dvala. Fjölda hljómsveita fækkaði úr 40-50 niður í örfáar og tónlistarsenan hér um bil lognaðist út af. Síðan eru liðin mörg ár og í dag er senan aftur farin að vænkast. En við viljum gera betur. Við erum unglingarnir sem stóðum úti í sal og horfðum á og fórum svo heim með stjörnur í augunum og byrjuðum að æfa okkur á hljóðfæri því við vildum geta gefið öðrum það sem okkur var gefið þarna. Rokkeldið er upp risið!
Tónleikarnir sem við erum að fara að setja upp gegna tvöföldum tilgangi:
Að kynna fyrir heimamönnum á öllum aldri hvað er að gerast og hvað er í boði. Við teflum fram sjö hljómsveitum sem allar spila frumsamið efni og eru allar starfandi hér í Vestmannaeyjum. Jafnframt viljum við leggja okkar af mörkum við að virkja næstu kynslóð tónlistarmanna og kvenna.
Að safna fjármagni til að taka næsta skref í áætlun Rokkeldisins, sem er að endurvekja fyrrnefnda keppni Allra veðra von. Þau ár sem keppnin var haldin þótti eftirsóknarvert að fá að taka þátt og hér komu hljómsveitir frá öllum landshornum og áhorfendafjöldi hljóp á hundruðum.
Við viljum sérstaklega vekja athygli á því að tónleikarnir eru tvöfaldir. Fyrri tónleikarnir eru opnir öllum aldurshópum og ívið styttri sem er kjörið tækifæri til að gefa ungviðinu færi á að upplifa hvernig er að fara á alvöru tónleika.
Fyrir hönd Rokkeldisins bjóðum við alla velkomna í Höllina þann 25. nóvember næstkomandi.
False Majesty
False Majesty var stofnuð árið 2019 af Skæring Óla og bræðrunum Ásmundi og Óskari. Fljótlega fengu þeir Þorgils og Sigurstein til liðs við sig og notfærðu sér yfir 15 ára reynslu í hinum ýmsu hljómsveitum og tónlistarstefnum til að skapa sinn eigin hljóðheim. Sumarið 2022 lokuðu þeir svo loksins uppstillingunni þegar Trausti kom inn sem söngvari og sem síðasta púslið í myndinni.
False Majesty spilar teknískt dauðarokk með mikla áherslu á tekníska hlutann og sækir innblástur í sveitir á borð við Ophidian I, Lorna Shore, Slaughter to Prevail, Vale of Pnath og Archspire.
False Majesty hefur ekki verið lengi í þungarokks-senunni en hefur vakið miklar eftirtektir þar sem þeir hafa komið fram og hafa til að mynda spilað á Reykjavík Deathfest og voru valdir til að taka þátt í Wacken Metal Battle hér á Íslandi. Hljómsveitin hefur gefið út tvö lög, Venomous Heaven og Enter Agony, sem bæði eru aðgengileg á flestum streymisveitum. Lagasafnið er þó ívið stærra og von er á útgáfu á fleiri lögum í náinni framtíð.
Meðlimir :
Sigursteinn Marinósson – Gítar
Ásmundur Ívar Óskarsson – Gítar
Óskar Elí Óskarsson – Gítar
Skæringur Óli Þórarinsson – Trommur
Þorgils Árni Hjálmarsson – Bassi
Trausti Mar Sigurðarson – Söngur
Subdural
Subdural var stofnuð í Amsterdam árið 2019 af frændunum Geir og Gísla. Þar spiluðu þeir “Bad boy rock & roll” með Ástralanum Steven Lolicato á bassa. Frændurnir fluttu síðan aftur heim í covidinu þar sem Arnar Valgeir Sigurjónsson tók við bassanum. Nú halda strákarnir áfram að spila sóðalegt rock í skúrnum hjá Gísla þar sem þeir héldu tónleika á goslokunum í sumar.
Meðlimir :
Geir Jónsson = Gítar/Söngur
Gísli Rúnar Gíslason = Trommur
Arnar Valgeir Sigurjónsson = Bassi
Mucky Muck
Mucky Muck er hljómsveit sem leitar mikið í næntís grugg senuna. Sveitin var stofnuð í febrúar á þessu ári og fær greinilega innblástur frá hljómsveitum eins og Foo Fighters, Nirvana og Smashing Pumpkins með nútíma twist. Þrátt fyrir ungan aldur hafa Mucky menn náð góðum árangri bæði á Íslandi og fyrir utan landsteina með útvarpsspilun í Seattle í Bandaríkjunum.
Mucky strákarnir lofa góðri stemningu og þá sérstaklega fyrir allt gamla fólkið sem ólst upp á upprisutíma grunge tónlistar.
Mucky Muck skipa:
Arnar Júlíusson – Gítar og Söngur
Trausti Mar Sigurðarson – Bassi og Bakrödd
Stefán Gauti Stefánsson – Gítar
Jón Grétar Jónasson – Trommur
Merkúr
Hljómsveitin Merkúr var stofnuð árið 2017 með það markmið að endurlífga rokk/metal senuna í Vestmannaeyjum. Merkúr hefur farið um víðan völl hvað varðar tónlistarstefnu frá stofnun. Sveitin byrjaði sem Thrash Metal og leitaði mikið í níunda áratuginn. Síðustu 3 ár hefur Merkúr breytt stílnum mikið og má betur kalla þá Dauða metal í dag.
Sveitin hefur verið að gigga með krafti um land allt síðustu 6 ár á stórum hátíðum eins og Eistnaflug, Norðanpaunk og auðvitað Þjóðhátíð. Næsta sumar mun Merkúr leggja land undir fót, haldið verður til austur evrópu á tónleikaferðalag þar sem Vestmannaeyja metallinn verður spilaður fyrir þúsundir manna.
Merkúr skipa eyjapeyjarnir:
Arnar Júlíusson – Gítar og Garg
Trausti Mar Sigurðarson – Gítar og Garg
Mikael Magnússon – Trommur
Og mun Skæringur Óli Þórarinsson hlaupa í skarðið á bassanum.
Hrossasauðir
Hrossasauðir er rokkhljómsveit (ef hægt er að hafa það á hreinu) stofnuð í Vestmannaeyjum 2021 af tveimum forvitum og áhugasömum unglingspiltum. Hægt er að kalla okkur graðhestarokk, pönk eða þungarokk það sem hljomsveitin hefur verið í miklum breytingum og áföllum en hún lifir enn í dag.
Meðlimir
Kári Steinn Helgason – bassi og söngur
Aron Stefán Ómarsson – gítar
Jón Grétar Jónasson – trommur
Benóný Friðrik Færseth Jónsson – gítar
Molda
Molda var stofnuð í mars árið 2020 af þeim frændum Helga og Albert Tórshamar sem fundu mikla löngun til þess að stofna rokkband sem færi sínar eigin leiðir með eitthvað nýtt og ferskt í anda glysrokksins.
Molda hefur einungis verið starfandi í þrjú ár en hefur verið að gera það mjög gott í íslensku tónlistarlífi.
Molda komst fyrst á kortið þegar sveitin gaf út lagið Ymur jörð árið 2021 þar sem kveikjan að laginu kom í kjölfar eldgossins við Fagradalsfjall.
Náttúröfl og veðurharðindi í Vestmannaeyjum í bland við skuggalegar hugsjónir eru aðalyrkisefni hljómsveitarinnar, sem verður að teljast framandi og óvenjubundið sem gerir sveitina enn þjóðlegri fyrir vikið.
Molda hefur verið að spila reglulega upp á síðkastið og hefur hljómsveitin spilað í tónleikahöllinni Hörpu í Silfurberg sem upphitunaratriði fyrir Skonrokk. Þá hafa þeir nýlega spilað í Færeyjum á Mentanardögum í Fuglafirði þar sem voru haldnir stórtónleika á skipsflaki sem liggur í botni í firðinum.
Molda hefur spilað á ýmsum rokkviðburðum uppá síðkastið, t.a.m. haldið vortónleika með Karlakór Vestmannaeyja þar sem frumsamin lög voru spiluð í takt við gamla rokkslagara, húsband hjá Leikfélagi Vestmannaeyja við uppsetningu á söngleiknum Rocky Horror sem var kosið athyglisverðasta leikrit Íslands ársins 2023 og hlaut verkið viðurkenningu, og var sýnt í þjóðleikhúsinu í júni s.l. Í höllinni, Goslokum og fleirri viðburðum.
Molda hefur gefuð út nokkur tónlistarmyndbönd sem má finna á Youtube og á Facebook. Molda hefur verið í töluverði útvarpsspilun hjá Rás2 og einnig hefur tónlist okkar verið spiluð á X-inu og í Færeyska útvarpinu.
Hljómsveitin á fullt af frumsömdu efni í geymslu sem bíður eftir að líta dagsins ljós og er þessa daganna í studíó skotgröfum.
Næsta stóra verkefni hjá Molda er svo að spila nokkur lög á tónleikunum Ljúft að vera til sem haldnir eru í Eldborgarsal Hörpunnar í janúar. Þá er væntanlegt lag frá Moldamönnum 5. jan 2024.
Hljómsveitina Molda skipa
Albert Snæ Tórshamar – söngvari og gítarleikari
Helgi Rasmussen Tórshamar gítarleikari
Símon Geir Geirsson – trommari
Dúni Geirsson – bassaleikari.
Foreign Monkeys
Foreign Monkeys var stofnuð á seinni hluta árs 2005 og sigraði svo Músíktilraunir í mars 2006.
Bandið er þekkt fyrir kraftmiklar framkomur á sviði og það í sterkri samsvörun við veðurhaminn sem kann að geysa endrum og eins við heimabæ þeirra, Vestmannaeyjar.
Sveitin hefur komið fram á öllum helstu tónleikahátíðum landsins í gegnum tíðina. Stærstu framkomur sveitarinnar hafa verið á Þjóðhátíð í heimabæ þeirra Vestmannaeyjum en alls hefur sveitin komið fjórum sinnum fram á hátíðinni, á Iceland Airwaves fjórum sinnum og svo á Manchester tónleikum í Laugardagshöll árið 2006 frammi fyrir fullum sal.
Foreign Monkeys hafa sent frá sér tvær plötur. Sú fyrri, “π (Pi)“ kom út í apríl 2009 og sú seinni “Return“ í apríl 2019, eða 10 árum síðar þegar bandið reis úr nokkura ára löngum dvala.
Sumarið 2020 hóf sveitin vinnu við sína þriðju plötu og það úti í Álsey, einni úteyja Vestmannaeyja. Verkefnið var kvikmyndað í bak og fyrir og sjá má svipmyndir úr ferðinni í myndbandi sem kom út með fyrstu smáskífu sveitarinnar “Those That Suffer“ í janúar 2022.
Foreign Monkeys sendi frá sér þrjár aðrar smáskífur á árinu 2022 sem heita We Steal From Ourselves, Feel Good og High og náðu þau öll hátt á X-Dominos lista Xins. Those That Suffer, We Steal From Ourselves og Feel Good náðu að vera á toppnum í samanlagt átta vikur.
Í mars 2023 sendi sveitin svo frá sér fimmtu smáskífuna og nefnist hún Low. Henni hefur verið vel tekið í útvarpi og á streymisveitum líkt og fyrri útgáfur. Sveitin mun senda frá sér fleirri smáskífur á næstu vikum og mánuðum og munu þær koma út saman ásamt fleiri lögum í heilstæðu verki á vinyl og á streymisveitum undir lok árs 2023.