RÓBERT SEM GREINDIST 40 ÁRA MEÐ RISTILKRABBAMEIN OG VALDIMAR 9 ÁRA SONUR HANS

RÓBERT JÓHANNSSON OG VALDIMAR HÖGNI RÓBERTSSON

„Lífið er núna armbandið er áminning að njóta þess að vera með sínum nánustu hvert einasta skipti og grípa þau tækifæri sem gefast. Ekki bíða þangað til á morgun og sjá svo eftir því. Þetta er sú sýn sem ég hef á lífið eftir sjokkið að greinast með krabbamein“ 

„Ég greindist með krabbamein í ristli og við endaþarm í nóvember síðastliðnum og ég og konan mín ákváðum strax að taka þetta verkefni föstum tökum og gera þetta saman sem fjölskylda með börnunum okkar fjórum. Auðvitað værum við öll fjölskyldan glöð ef við hefðum getað sleppt því að fá þetta verkefni í hendurnar en við ákváðum saman að nýta þetta þá fyrst svona var og læra af því,“ segir Róbert.

„Krakkarnir hafa fengið að fylgjast með ferlinu frá upphafi til að skilja af hverju mamma og pabbi eru kannski stundum svolítið taugastrekkt. Læknirinn minn gaf sér tíma til að hitta okkur öll og fengu börnin að spyrja hann að öllu því sem þau skyldu ekki eða höfðu áhyggjur af. Af því að ég vissi ekki neitt og ekki konan heldur. Við höfðum engin svör en hann svaraði á mannamáli og öllum leið miklu betur eftir það. Eftir það kom ákveðin ró yfir heimilið. Það var ekki lengur þessi óvissa og hræðsla heldur fengum við að vita hvernig ferlið yrði. Þau hafa síðan fengið að fylgjast með öllu meðan ég er í meðferðunum og öllu sem því fylgir,“ segir Róbert.

„Ég var samt ekki alveg að skilja að pabbi væri með krabbamein fyrst en svo skyldi ég það seinna. Það erfiðasta var að vera inn í herberginu mínu að gráta en ég grét alveg líka í skólanum og ég fékk þá að fara og hitta systur mínar í skólanum og knúsa þær ef mér leið illa. Það var bara þægilegt að fá þá að hafa einhvern hjá sér,“ segir Valdimar

Til að skilja krabbamein betur og allt sem því fylgir fór Valdimar að framleiða hlaðvarpsþættina Að eiga mömmu eða pabba með krabba sem gefnir voru út af RÚV.

„Ég vildi gera þætti til að fólk og ég skyldi betur hvað krabbamein er, þó ég skilji það ekki alveg enn þá. Ég fékk að tala við lækni, fólk hjá Krafti og Ljósinu og líka íþróttafólkið Mist og Kára Kristjáns sem bæði hafa fengið krabbamein. Ég vildi sérstaklega tala við þau til að krakkar lærðu að þó þau greinast með krabbamein í framtíðinni þá geta þau haldið áfram í lífinu og ættu ekki að láta krabbameinið stoppa sig,“ segir Valdimar.

Róbert hefur nú farið í 20 skipti í geislameðferð og er núna í sex skipta lyfjameðferð sem eru þriggja vikna kúrar.

„Ég fékk að sjá þegar pabbi fór í geislatækið og horfa á skjáina frammi meðan hann var í tækinu og það var alveg geggjað en líka skrýtið að sjá einhvern í þessu risastóra tæki sem skýtur geislum til að drepa krabbameinið,“ segir Valdimar

„Ég er nú í miðri lyfjameðferð sem hefur leiðinlegri aukaverkanir en ég hélt. Ég er eins og illa undin tuska á heimilinu og get ekki sinnt krökkunum og hef enga orku. Það er rosalega skrýtin tilfinning að þurfa leggja sig eftir að hafa rétt svo sett í eina þvottavél. Ég komst betur í gegnum geislana þó mér hafi verið mjög illt þar sem krabbameinið er í ristli og alveg neðst hjá nára. Það var skotið á öll viðkvæmustu svæðin en það gréri vel. Þegar það kom í ljós í myndatöku eftir geislanna að þetta liti vel út þá langaði strax að fara út að öskra og fagna en ætla að bíða aðeins með það. Nú er lyfjameðferðin í gangi og svo á endanum verður skurðaðgerð þar sem þarf að leiða þarmana út um magann og ég verð með stómapoka það sem eftir er. Ég veit að það á eftir að verða það erfiðasta en ég ætla ekki að hugsa um það í dag. En ég er kominn með stuðningsfulltrúa hjá Krafti sem að hefur gengið í gegnum þetta og ég ætla að læra af honum,“ segir Róbert.

Róbert fór á strákakvöld á Kexinu sem haldið var af Krafti með 22 ára syni sínum og var það skyndiákvörðun en hann segir að það hafi hjálpað mikið.

„Við skelltum okkur bara á kvöldið með 30 mínútna fyrirvara þar sem við vorum svo týndir í þessu öllu saman. Það að sjá aðra í fyrsta lagi tala um hræðsluna við krabbameinið og tilfinningarnar sem því fylgja, uppgötva að það væri í lagi að finna þær og að öðrum líði svona líka var mikill léttir. Og að strákurinn heyrði frá aðstandanda sem ætti foreldri sem hefur greinst með krabbamein og fá ráð um hvernig hægt væri að ganga í gegnum þetta var einstaklega hjálplegt. Nú tek ég þátt í mörgu sem Kraftur býður upp á,“ segir Róbert.

„Ég keypti Lífið er núna armbandið hjá einhverjum sem pabbi er búinn að læra af og armbandið er eignlega pabbi fyrir mér og ég geng með það á hverjum degi til að hafa hann hjá mér,“ segir Valdimar.

 

Róbert og Valdimar njóta þess sem mest að vera saman með fjölskyldunni og skapa minningar. Róbert starfar sem fréttamaður hjá RÚV en er í veikindaleyfi eins og er. Hann hlakkar einna mest til að hafa meiri orku til að njóta þess að ferðast með fjölskyldunni í komandi framtíð sem er eitt það skemmtilegasta sem hann gerir. Róbert er í skóla og hlakkar best til að pabbi hafi nægilega orku til að eyða meiri tíma með honum og fara út í körfubolta eða fótbolta.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search