Ríkisbankinn hagnaðist á kostnað stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestmannaeyja, íbúar í Vestmannaeyjum sitja nú eftir með sárt ennið

Bæjarráð mun ekki áfrýja dómnum og þakkar Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og Vinnslustöðnni hf. fyrir gott samstarf í tengslum við málaferlin.

Aukafundur bæjarráðs Vestmannaeyja var haldinn í hádeginu í dag 30.12, þar var tekið fyrir mál:

Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans

Þann 14. desember 2018 síðast liðin, höfðuðu Vestmannaeyjabær, Vinnslustöðin hf. og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja mál á hendur Landsbankanum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, til að krefjast réttmæts endurgjalds til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans.

Stefnan var þingfest í Héraðsdómi þann 18. desember 2018.

Málið snérist um að vorið 2015 var Sparisjóður Vestmannaeyja ses. (SPV) yfirtekinn af Landsbankanum hf. Upp höfðu komið eiginfjárerfiðleikar hjá SPV og veitti Fjármálaeftirlitið stjórnendum SPV einungis fimm daga frest til að setja fram tillögur um ráðstafanir vegna eiginfjárvanda.

Endurgjald stofnfjáreigenda SPV við yfirtökuna byggðist á samkomulagi Landsbankans og stjórnar SPV, sem stofnfjáreigendur greiddu aldrei atkvæði um. Samkvæmt samkomulaginu fengu stofnfjáreigendur hluti í Landsbankanum sem endurgjald og var ákveðið að verðmæti alls stofnfjár væri 332 milljónir króna, en forsendur þessarar verðákvörðunar liggja ekki fyrir.

Fyrirvari var um mögulegar breytingar á mati eigna og skuldbindinga SPV í samræmi við mat KPMG ehf., þó með ákveðnum takmörkunum. Stofnfjáreigendur SPV höfðu enga aðkomu að vali á KPMG ehf. sem matsaðila né að ferli eða framkvæmd svokallaðs mats. Þá var öll upplýsingagjöf til þeirra um framkvæmd og forsendur matsins takmörkuð og ógagnsæ og verulega skorti á alla sundurliðun. Jafnframt var KPMG ehf. til áramóta 2014-2015 endurskoðandi Landsbankans.

Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin, sem áttu um 10% og 5% hlut í SPV höfðu efasemdir um áðurnefnt samkomulag og niðurstöður mats KPMG ehf. á verðmæti eigna og skuldbindinga sparisjóðsins.Töldu þeir að verðmæti stofnfjárhluta stofnfjáreigenda SPV hefði verið vanmetið.

Vegna þessara efasemda var í sumarbyrjun 2015 lagt til að Landsbankinn leitaðist við að eyða vafa og tortryggni um verðmæti stofnfjárhluta og sanngjarnt endurgjald til stofnfjáreigenda. Var lagt til að aðilar kæmu sér saman um óháðan aðila til að framkvæma mat, en þessu boði um samvinnu og sættir var hafnað af Landsbankanum.

Í ljósi neitunar Landsbankans var óskað eftir að dómstólar kveddu til matsmenn til að framkvæma mat. Voru tveir matsmenn fengnir til að meta verðmæti stofnfjársins, þeir Árni Tómasson, endurskoðandi, og dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.

Niðurstaða matsmannanna var á þá leið að verðmæti stofnfjár í SPV hafi verið 483 milljónir króna eða 45% hærra en Landsbankinn greiddi stofnfjáreigendum. Var farið fram á að Landsbankinn greiddi stofnfjáreigendum réttmætt endurgjald byggt á umræddu mati, en því hafnaði Landsbankinn og því var höfðað mál á hendur Landsbankanum, til þess að fá fram sanngjarnt og rétt mat á verðmæti stofnfjárhluta við yfirtökuna, bæði fyrir stefnendur, sem og aðra minni stofnfjáreigendur, sem ekki tóku þátt í málarekstrinum.
Aðalmeðferð í málinu fór fram fimmtudaginn 31. október sl. og þann 12. desember sl. kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm þar sem Landsbankinn hf. var sýknaður af kröfum Vestmannaeyjabæjar, Vinnslustöðvarinnar hf. og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og stefnendum gert að greiða málskostnað af fjárhæð 6 m.kr.
Á síðasta bæjarráðsfundi sem haldinn var 17. desember sl., kom fram að verið væri að meta niðurstöðu dómsins og ekki verið ákveðið hvort dóminum verði áfrýjað til æðra dómsstigs.

Telja ekki forsendur til staðar fyrir áframhaldandi málarekstri

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu eru vonbrigði, en dómurinn tekur ekki til greina niðurstöðu dómskvaddra matsmanna á raunvirði stofnbréfanna, sem var umtalsvert hærra en það sem bankinn greiddi fyrir hlutina. Þannig hagnaðist ríkisbankinn á kostnað stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestmannaeyja, íbúa í Vestmannaeyjum sem sitja nú eftir með sárt ennið.
Bæjarráð hefur fundað með stefnendum um efni dómsins og mat lögfræðinga á honum, sem telja forsendur ekki vera til staðar fyrir áframhaldandi málarekstri. Ljóst er að áframhaldandi málarekstur yrði kostnaðarsamur fyrir bæjarsjóð án þess að líkur séu á því að æðra dómstig komist að annarri niðurstöðu. Í ljósi framangreinds mun bæjarráð því ekki áfrýja dóminum. 
Bæjarráð þakkar Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og Vinnslustöðnni hf. fyrir gott samstarf í tengslum við málaferlin.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search